14.12.1977
Efri deild: 25. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (810)

116. mál, Lífeyrissjóður bænda

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Á s.l. vori gerðu launþegar og vinnuveitendur með sér samkomulag um að greiða á árunum 1978 og 1979 sérstakar uppbætur á lífeyrisgreiðslur, sambærilegar þeim sem greiddar hafa verið nú um tveggja ára skeið. Frv. það, sem hér er lagt fram, gerir ráð fyrir að svipuð skipan verði á greiðslu úr Lífeyrissjóði bænda og almennt tíðkast hjá lífeyrissjóðum. Lífeyrissjóðir þeir, sem stóðu að samkomulaginu s.l. vor. deila að nokkru með sér útgjöldum vegna uppbótagreiðslnanna. Samstarf þeirra tryggir að enginn sjóðanna verði fyrir þungum áföllum þeirra vegna. Í hæsta lagi þarf að verja um 13–14% af iðgjaldatekjum sjóðs til uppbótagreiðslna.

Hjá Lífeyrissjóði bænda er þessu öðruvísi farið. Sjóðurinn á ekki aðild að neinu samstarfi við aðra lífeyrissjóði um jöfnun útgjalda og verður því sjálfur að standa undir öllum uppbótagreiðslum af tekjum sínum. Áætlað er að 46% iðgjalda og framlaga af tekjum sjóðsins verði varið til lífeyrisgreiðslna árið 1973 og er langmestur hluti þeirra fjáruppbótagreiðslur. Fjárhagsbyrði þessi stafar að sjálfsögðu fyrst og fremst af mun óhagstæðari aldursskiptingu félaga í Lífeyrissjóði bænda en er hjá öðrum sjóðum.

Til að greiðslur úr Lífeyrissjóði bænda geti orðið sambærilegar greiðslum úr öðrum sjóðum er lagt til með frv. þessu að tekjur sjóðsins verði nokkuð auknar. Til þessa hafa laun þau, sem iðgjald hefur verið reiknað af, miðast við kaupgjald hausts á undan gjaldárinu að viðbættu 10% álagi vegna kaupgjaldsbreytinga. Þessi skipan hefur á undanförnum árum ekki verið í fullu samræmi við raunverulegar breytingar á launum. Hér er því lagt til að þetta álag verði 20% í staðinn fyrir 10%. Jafnframt er lagt til að iðgjöld verði aldrei miðuð við lægri fjárhæð en 4/5 af heildarverðmæti búveru. í stað 3/4 hluta nú. Talið er að breytingar þessar muni auka ráðstöfunarfé sjóðsins á árinu 1978 um rúmlega 40 millj. frá því er ella yrði.

Um einstakar gr, frv, leyfi ég mér hins vegar að vísa til aths. sem prentaðar eru með frv. Herra forseti. Frv. þetta er samið í náinni samvinnu við stjórn Lífeyrissjóðs bænda. Hér er ferðinni sanngirnismál sem ég vænti að fái góðar undirtektir og skjóta afgreiðslu í hv. þd. Ég vil gjarnan vonast til þess að hægt verði að afgreiða þetta frv. sem lög frá Alþ. áður en þm. fara í jólaleyfi.

Ég leyfi mér að leggja til. herra forseti, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.