14.12.1977
Efri deild: 25. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í B-deild Alþingistíðinda. (812)

121. mál, áfengislög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir um breytingu á áfengislögum, fjallar fyrst og fremst um breytingu á þeim ákvæðum í VHL kafla þeirra sem fjalla um refsingar og önnur viðurlög. Refsiákvæðin í áfengislögunum eru nú mjög sundurliðuð og er sett lágmark og hámark refsingar fyrir brot á einstökum gr. laganna. Er lágmarkið allt niður í 100 kr., en hámark hæst 200 þús. kr., auk lítragjalds, 400 kr. fyrir hvern lítra af ólöglega innfluttu áfengi. Ákvæði þessi eru að sjálfsögðu úrelt orðin vegna verðbólgu í landinu, en ákvæðin hafa staðið óbreytt frá árinu 1969. Þá voru sektarákvæðin almennt margfölduð með 21/2 frá því sem var í stofnlögunum þegar þau voru sett 1954.

Á undanförnum tveimur þingum hafa legið fyrir hv. þd. frv. flutt af inn, úr öllum flokkum, þar sem m.a. var leitast við að samræma sektarupphæðir að nokkru verðlagsþróun síðustu ára. Frv. þessi fengu ekki afgreiðslu. Með frv. því, sem hér liggur fyrir, er farið inn á nýja braut. Er lagt til að refsiákvæði laganna verði dregin saman í eina almenna grein og að refsiramminn verði almennt óbundinn. Er hætt við að refsirammi laganna verði fljótlega of þröngur ef áfram verður haldið sama hlutfalli, enda hefur komið í ljós að refsiramminn bindur um of hendur dómstóla við ákvörðun refsingar og einnig við ýmsar nauðsynlegar aðgerðir við rannsókn mála, t.d. húsleit. Með breytingu þessari verður hámarksupphæð sektar einungis bundin af almennu sektarhámarki í almennum hegningarlögum, en það er nú 5 millj. kr., eins og ákveðið var með lögum nr. 101 1976. Er í þeim lögum einnig heimilað að heita fjársektum ásamt refsivist. Ákvæði í fjölmörgum sérlögum hafa enn að geyma lágmark og/eða hámark sektar, og er þörf á endurskoðun þeirra ákvæða eigi síður en ákvæða áfengislaganna, þannig að refsiramminn standi ekki í vegi fyrir því, að dómstólar geti jafnan ákveðið sektir eftir atvikum hverju sinni. Verður að ætla að treysta megi dómurum til rétts mats í þessu efni.

Aðrar breytingar, sem felast í frv, þessu, leiðir af brottfalli lágmarks- og hámarksrefsingar og er þar ekki um að ræða efnisbreytingar. Þó eru ákvæðin um réttindasviptingu eigi eins bundin og í gildandi ákvæðum.

Þá er lagt til að breytt verði ákvæðum áfengislaga sem varða yfirstjórn áfengisvarna til samræmis við breytingu þá sem gerð var frá ársbyrjun 1970 með reglugerð fyrir Stjórnarráð Íslands, en þá voru þau mál flutt frá dómsmrn. til heilbrrn., svo að það er þarna í tveim eða þrem greinum gert ráð fyrir því, að í staðinn fyrir dómsmrh. komi heilbrrh.

Eins og ég gat um í upphafi þessara orða. er þetta frv. fyrst og fremst um þau ákvæði áfengislaganna sem varða viðurlög Er þess að vænta, að samstaða geti orðið um afgreiðslu frv. Rétt er að taka fram, að frv. þetta er samið í rn. í samráði við ýmsa aðila. Því er hins vegar beint til þn., að rétt kann að vera að leita umsagnar aðila um frv. t.d. áfengisvarnaráðs, ríkissaksóknara, yfirsakadómara í Reykjavík og hegningarlaganefndar.

Það kann vel að vera, að ýmsum þyki rétt og tími vera til þess kominn að endurskoða áfengislögin í heild, en ég tel þó ekki rétt að láta breytingu á þessum ákvæðum biða eftir slíkri hugsanlegri almennri endurskoðun laganna.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.