14.12.1977
Efri deild: 25. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

121. mál, áfengislög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Þetta geta í raun verið fá orð. Ég vil aðeins taka undir það að hér er um réttmæta og sjálfsagða breytingu að ræða og það er staðreynd, að við höfum það skiptar skoðanir í áfengismálum almennt, að það er áreiðanlegt að allar breytingar, sem þar þurfa til að koma, þurfa að takast inn í áföngum og með sérstakri gætni og aðgát. Sú er a.m.k. reynsla okkar sem höfum verið að starfa að þessum málum núna að undanförnu, bæði í áfengismálanefndinni svokölluðu og eins hér á Alþ. Ég tel sem sagt, að þetta frv. sé til bóta.

Eins og hæstv. dómsmrh. gat um voru breytingar sektarákvæða fluttar hér í frv.-formi af okkur nokkrum þm. Jónas Gestsson í Grundarfirði, sem er einn í þeirri áfengismálanefnd sem ekki hefur lokið störfum enn, vann þetta verk fyrir okkur nm. mjög vel og nákvæmlega í sambandi við verðlagsbreytingar almenni, en hann tók það fram við okkur um leið, að sér fyndist þetta býsna flókið og sundurgreint og æskilegra væri, þó að hann fyndi ekki leið til þess, að hafa þetta í öðru formi. Mér sýnist við fljóta athugun á þessu, að hér hafi verið fundið það form, sem við komum þá ekki auga á, til þess að einfalda þetta og gera það betra. Ég segi betra, því að ég treysti í þessu efni dómurum, að þeir gangi ekki út fyrir öll skynsamleg takmörk, þó að ekki séu sett nein sérstök ákvæði hér varðandi krónutölu.

Auðvitað er það satt, að þegar ákvæði áfengislaganna ber á góma, þá förum við auðvitað að hugleiða þessi mál almennt. Ég skal sleppa þeim hugleiðingum nú, aðeins koma að einu atriði öðru, sem við vorum með í okkar till. eða í okkar frv. Það var varðandi vínveitingaleyfi. Við vorum þar með ákveðna till, um hækkun á vinveitingaleyfunum og einnig það ákvæði, að þessi vínveitingaleyfi væru veitt til eins árs í stað fjögurra nú. Okkur var bent á það í fyrra við endurflutning þessa frv. okkar þá, að með reglugerð hefði þessum upphæðum, sem nú eru í lögum og eru fáránlega lágar — ég held 4000 kr. á fjögurra ára fresti. — verði breytt í sambandi við vínveitingaleyfin. Og mér er nær að halda, þó að ég aflaði mér ekki nægilegra upplýsinga um það þá, að þar hafi verið um tíföldun að ræða á þessum leyfum. Ég er hins vegar á því, þó að þarna hafi verið stigið allverulegt skref, að þessi tala sé enn fáránlega lág, þessi 40 þús., ef hún er sú rétta, og gildir sem sagt til fjögurra ára áfram. Ég hendi á það, að við vorum með till. sem var fjórföld á við þetta og þóttumst þó vera mjög vægir í okkar tillögugerð. Við vorum sem sagt með till. um að vínveitingaleyfin væru veitt árlega og upphæðin væri 40 þús. Ég held að þó að þarna sé kannske ekki um mjög marga aðila að ræða, þá sé rétt að huga að þessu atriði. og vil beina því til hæstv. ráðh., að hann beiti sér fyrir því, að með reglugerð verði þessi ákvæði enn hækkuð mjög verulega — hér er um verulega gróðastarfsemi að ræða í langflestum tilfellum — og ég vil svo gjarnan standa að því að verja þessari hækkun til alveg sérstakra aðgerða í sambandi við okkar áfengisvarnir, alveg sérstaklega í ljósi þess sem þar hefur verið að gerast núna á síðustu vikum og mánuðum í þessum málum. Ég sem sagt nota tækifærið nú aðeins til þess að óska eftir því við hæstv, ráðh., að fyrst þetta er hægt með reglugerðarbreytingum, þá verði það notað miklu meira en gert hefur verið, þó að ég noti það við hæstv. ráðh. að þarna hefur orðið veruleg breyting á. Ég held að sú till., sem við vorum með, hafi verið í raun og veru allt of lág og það þætti engum mikið fyrir slíkt leyfi, sem skapar þær tekjur sem hverjum og einum veitingasala eru veittar með þessu, þó að sú upphæð væri a.m.k. fimmfölduð frá því sem mér er sagt að hún sé.