19.10.1977
Efri deild: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

24. mál, eftirlaun aldraðra félaga í stéttarfélögum

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Það er svo með þetta frv. að það er einnig til staðfestingar á brbl. sem gefin voru út 28. júní og voru gerð í samræmi við ákvörðun ríkisstj. til þess að greiða fyrir samkomulagi um lífeyrismál sem heildarlausn í þeim kjarasamningum sem undirritaðir voru 22. júní 1977, þar sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu með sér samkomulag um málefni lífeyrissjóða á samningssviði þeirra þess efnis, að lífeyrir lífeyrisþega, sem rétt eiga til slíks samkv. lögum nr. 63 frá 1971, verði árin 1977–1979 verðtryggður með greiðslu sérstakrar uppbótar á lífeyri og verði útgjöld vegna uppbótagreiðslna þessara borin af þeim lífeyrissjóðum sem í hlut eiga.

Enn fremur skorti í lögin frá 1971, nr. 63, ákvæði er heimili greiðslu makalífeyris til fólks sem búið hefur saman ógift svo árum skiptir, og því talið brýnt að setja slíkt heimildarákvæði, eins og gert var í brbl. og lagt er til hér að verði staðfest.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til heilbr.- og trn.