14.12.1977
Efri deild: 25. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1209 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

75. mál, launaskattur

Frsm. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Það væri jafnvel gaman að hafa langt mál um fjármál ríkisins og tekjuöflun og vangaveltur um allar þær hugmyndir sem fram hafa komið á undanförnum árum í ráðherratíð hæstv. fjmrh. Það er vafamál að fleiri frv. hafi komið fram um eitt efni en tekjuöflun á s.l. þremur vetrum, því að það hafa komið frá öllum flokkum margvíslegar hugmyndir um tekjuöflun ríkissjóðs. Og margsinnis hefur verið boðað í ræðum að nýskipan þessara mála yrði upp tekin, en endaslepp hafa öll loforðin reynst frá hendi hins mikla meiri hl. á hv. Alþingi.

Það er rétt hjá síðasta ræðumanni, að slíks eru mörg fordæmi hér á hv. Alþ., að bráðabirgðaskattar reynast furðu lífseigir og hafa fleiri líf en fjárlagakötturinn og endast um ómunatíð, eins og frv. gerir ráð fyrir. Við teljum hins vegar, minni hl., stjórnarandstaðan, að það sé hæpið að lögfesta einn slíkan skatt ótímabundið, þar sem það er enn á döfinni, þrátt fyrir allt sem á undan hefur skeð, að stokka upp tekjuöflun ríkissjóðs og leita nýrra úrræða í því efni.

Það kann vel að vera að þetta skattgjald, launaskattur, verði einn af veigameiri þáttum í tekjuöflun ríkissjóðs og hann fari nú á brattann og fari í 5 stig, 8 stig eða 10 stig ásamt einhverju öðru. Menn muna eftir bráðabirgðainnflutningsgjaldi, sem var einu sinni 12%, átti að fara í 8% og síðan í núllið, en stendur nú í 18% og er nokkuð öruggt að verður framlengt enn einu sinni.

Þessi dæmi sýna aðeins að það verður ekki lengur komist hjá því að taka til athugunar tekjuöflun ríkissjóðs, hvers konar ríkisstj. sem situr í framtíðinni. Menn verða að horfast í augu við það, að það verður að koma heildarlöggjöf og hún ákveðnari, um fasta og örugga tekjuöflun til ríkissjóðs.

Okkar afstaða til þessa sérstaka frv. nú um að tryggja að launaskattur verði viðvarandi um óákveðinn tíma byggist á því, að það sé ekki rétt, eins og málum er háttað í dag, annað en að framlengja hann um eitt ár, í trausti þess að þessi mál verði öll endurskoðuð, eins og margsinnis hefur verið boðað. Við flytjum því brtt. á þskj. 158, að við 3. gr. bætist orðin: „og gildi til loka þessa árs.“ Það er sem sagt framlenging á launaskattinum um eitt ár. Miðað við boðaða stefnu og hvaða ríkisstj, sem kann að verða mynduð eftir komandi kosningar á næsta ári, þá er óhjákvæmilegt að taka upp þessi mál, alla tekjuöflun ríkissjóðs, og það er eðlilegt að hafa gildistíma launaskattsins ekki lengri en eitt ár, eins og komið hefur fram bæði hjá mér nú og frsm. meiri hl. Þó að meiri hl. leggi til að frv. verði samþykkt óbreytt, þá er það aðeins þjónustustarf við hæstv. ríkisstj.