14.12.1977
Efri deild: 25. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

76. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv, til l. um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt og leggur til að það verði samþykkt með þeim breytingum sem koma fram á þskj. 156. Einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. Fjarverandi afgreiðslu málsins voru hv þm. Albert Guðmundsson og Jón G. Sólnes.

Hér er fyrst og fremst um að ræða frv. til l. til staðfestingar á brbl. sem sett voru á s l. sumri. Ég get nú ekki stillt mig um, vegna þess að ég er mikill aðdáandi tekjuskatts og veit að hv. þm. hér í d, margir hverjir eru það líka, að geta þess, að þessi ágæti skattur á 100 ára afmæli í dag, og mér finnst það vera viðeigandi að geta þess hér í deildinni.

Ég skal nú ekki fara að rekja sögu tekjuskattsins, en aðeins þó í mjög stuttu máli vitna í grein sem Björn Björnsson skrifaði í afmælisrit um Þorstein Þorsteinsson fyrrv. hagstofustjóra, að því er mig minnir. Þar kemur fram að skattamálin voru tekin til meðferðar á embættismannafundi, þegar Alþ. var endurreist 1845, og þar kom fram, að menn voru sammála um að skattamálin væru með öllu óhæf og það fyrirkomulag, sem ríkti, ætti að afnema. Hins vegar var n. eða menn ekki sammála um það, á hvaða gjaldstofn skyldi leggja hinn nýja skatt, þannig að strax í upphafi ríkti um þetta allmikill ágreiningur. En það fór svo, að landshöfðingi skipaði n. 1875 og voru í henni 3 menn: Magnús Stephensen, Halldór Kr. Friðriksson og Jón Sigurðsson frá Gautlöndum, og þeir skiluðu áliti. Í framhaldi af því voru samþykkt þrenn lög haustið 1877: lög um skatt á ábúð og afnot jarða og lausafé, lög um húsaskatt og lög um tekjuskatt, Þessi lög komu þó ekki til framkvæmda fyrr en 1819. Þessi lög áttu að mynda samfellt skattkerfi, en sjálfur tekjuskatturinn hvíldi nær eingöngu á tekjum af verslun og iðnaði og launatekjum svo og eignatekjum öðrum en af húseignum. En tekjuskatturinn náði fyrst í stað ekki til aðalatvinnuveganna, þ.e.a.s. landbúnaðar og sjávarútvegs. Það var ekki fyrr en 1917, að gerð var breyting á tekjuskattslögunum þar sem skatturinn náði einnig til landbúnaðar og sjávarútvegs. Síðan þá hafa verið gerðar miklar breytingar á skattalögum, og ég skal ekki fara að rekja þær hér. Að mínum dómi hefðu menn þurft og átt að sýna þessum skatti miklu meiri virðingu en raun ber vitni. Hann hefur aflagast á allan hátt eins og margt annað í mikilli verðbólgu undanfarinna ára, og ég vænti þess, að það gæti kannske orðið til þess, að menn strengdu þess heit nú á 100 ára afmæli tekjuskattsins að sýna honum framvegis viðhlítandi virðingu.

Ég vil biðja hv. þdm. afsökunar á þessum útúrdúr, en mér fannst þetta þó það merkilegt afmæli að ég gat ekki setið á mér að minnast þess lítillega.

Nefndin leggur til að brbl. frá í sumar verði staðfest og sá tekjuskattsstigi sem þar kemur fram. Um það má ræða langt mál, hvernig skattstiginn skuli vera, og má koma með margvísleg rök fyrir því, að hann skuli vera öðruvísi. En hér er lagt til að þessi brbl. verði staðfest,

Að öðru leyti flytur n. tvær brtt. Í fyrsta lagi um breytingu á 26. gr, laganna, sem fjallar um þann skattstofn sem eignarskattur er reiknaður af. Er lagt til að af fyrstu 8 millj. kr. hjá einstaklingi verði eign skattfrjáls og af fyrstu 12 millj, kr. hjá hjónum verði eign skattfrjáls, en síðan reiknist 0.8% af því sem umfram er, einnig að sami skattur skuli reiknaður af skattgjaldseign félaga, Þetta er hækkun á skattfrelsismörkum um 33% og þetta þýðir það, að eignarskatturinn hækkar nokkuð frá því sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Er búist við að þetta muni verða þess valdandi, að eignarskatturinn hækki umfram það, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., um 300 millj. kr., þar af muni 100 millj. rúmar leggjast á einstaklinga, en 200 millj, tæpar á félög.

Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja þetta atriði frekar í sambandi við eignarskattinn eða eyða orðum í rökfærslu fyrir þeim skatti.

Í öðru lagi flytur n, þá brtt., að við 44. gr. laganna bætist ný mgr., sem hljóðar þannig: „Skattyfirvöldum er þrátt fyrir ákvæði 49. gr. laga þessara heimilt að veita gjaldeyriseftirliti Seðlabanka Íslands upplýsingar er nauðsynlegar eru til eftirlits með gjaldeyrismálum, enda standi ákvæði milliríkjasamninga ekki í vegi fyrir því.“

Þessar brtt. eru fluttar að beiðni fjmrn., og forsaga þessa máls er sú, að Seðlabanki Íslands leitaði eftir því við fjmrh., að rn. hlutist til um það að upplýsingar verði veittar. Ég vil leyfa mér að lesa það bréf frá Seðlabanka Íslands til fjmrn., en það er þannig:

„Vísað er til viðræðna sem fóru fram í síðustu viku við fjmrn, og skattrannsóknastjóra, eftir að fyrir lágu upplýsingar um gögn þau sem borist höfðu frá dönskum skattyfirvöldum um inneignir Íslendinga í dönskum bönkum. Gjaldeyriseftirlitið fer þess hér með á leit, að rn. hlutist til um að umræddar upplýsingar verði afhentar því.“

Í framhaldi af þessu kom bréf frá ríkisskattstjóra, sem er þannig, til fjmrn.:

„Hið háa rn. hefur sent mér til umsagnar ljósrit af bréfi Seðlabanka Íslands, dags. 12. þ. m., um inneignir Íslendinga í dönskum banka. Í 12. gr. samnings milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um aðstoð í skattamálum, sbr. lög nr. 111 31. des. 1972, með áorðnum breytingum samkv. 4. gr. viðbótarsamnings, sbr. lög nr. 8 29. mars 1917, er að finna ákvæði um ákveðin upplýsingaskipti án sérstakrar beiðni milli Norðurlandanna, Upplýsingar þær, er hér um ræðir, eru sendar frá dönskum skattyfirvöldum til fjmrn. sem bærs stjórnvalds án sérstakrar beiðni samkv. c: lið 12. gr, samningsins. Fjmrn. framsendi upplýsingar þessar til skattrannsóknastjóra í hvers höndum þær eru nú, Í 18. gr. umrædds samnings segir svo orðrétt: „Um fyrirspurnir, upplýsingar, yfirlýsingar og aðrar tilkynningar, sem samkv. samningi þessum berast til einhvers ríkjanna, skal beita þeim ákvæðum um þagnarskyldu og skjalaleynd sem gilda samkv. löggjöf þess ríkis.“ Þagnarskylda og skjalaleynd varðandi umræddar upplýsingar fellur því undir ákvæði 49, gr. laga nr. 68 15. júní 1971, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 19, gr. laga nr. 7 1972, en 1. mgr. greindrar 49. gr. hljóðar svo:

„Skattstjórum, umboðsmönnum skattstjóra, ríkisskattstjóra, skattrannsóknastjóra, ríkisskattanefnd og nefnd samkv. 6, mgr. 48. gr. er bannað að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi að skýra óviðkomandi mönnum frá því er þeir komast að í sýslan sinni um tekjur og efnahag gjaldþegna.“

Með vísan til ákvæða 49. gr, skattalaga er álit okkar að synja beri beiðni Seðlabanka Íslands um afhendingu umræddra gagna.“

Það er sem sagt ljóst, að slík yfirfærsla á gögnum og vitneskju er ekki heimil nema komi til lagabreyting. Og það er rétt að það komi skýrt fram, að þar að auki geta ákvæði milliríkjasamningsins, þ.e.a.s, samningsins milli Norðurlandanna um samvinnu í skattamálum, staðið í vegi fyrir því, að þetta sé heimilt. Hér er sem sagt um það að ræða, að skattyfirvöldum er því aðeins heimilt að afhenda þessi gögn og þessar upplýsingar að ákvæði þessa samnings komi ekki í veg fyrir það, því að ef svo er þarf að breyta þeim samningi.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fjölyrða frekar um þessi mál, en vil aðeins ítreka það, að n. leggur til að frv, verði samþykkt með þeim breytingum sem koma fram, á þskj. 156, en einstakir nm, áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt.