14.12.1977
Efri deild: 25. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (827)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti, Þegar ég kvaddi mér hljóðs um þetta mál bjóst ég ekki við því, að svo langt mundi líða frá því að hv. þm. Ingi Tryggvason vakti þetta mál hér í d. þangað til ég kæmist að með þau örfáu orð, sem ég hafði ætlað mér að segja. — Ég get tekið undir gagnrýni hans á viðbrögðum við síðustu breytingum á verðlagi landbúnaðarafurða.

Það er merkilegt og alvarlegt tímanna tákn meðal þessarar ágætu þjóðar, sem byggir svo harðbýlt land, þar sem háð hefur verið býsna hörð barátta fyrir lífinu í 11 aldir, að eitt meginvandamál þessarar þjóðar skuli nú vera offita, óttinn við offitu, að þessi stofngöfuga þjóð að langfeðgatali, sprottin úr skauti sjálfra goðanna, skuli nú ekki lengur hafa löngun í sér til þess að breyta í orku og athafnir því feitmeti sem hún innbyrðir í þessu landi, og kjósi fremur að nærast á smjörlíki, mettuðu feitmeti, sem má heita sannað að sé krabbameinsvaldur, heldur en að eiga það á hættu að éta smjör og feitt sauðaket, sem var þó lengi vel afl þeirra hluta sem gera skyldi í þessu landi.

Sjálfur hef ég ekki til að bera þá þekkingu í næringarfræðum sem til þess þarf að kveða upp úrskurð um hollustu eða óhollustu hinna ýmsu fæðutegunda Ég get ekki heldur af eigin raun, eins og ég sé af þskj. að hv, þm. Stefán Valgeirsson gat í Nd., sagt sögur af tilraunum sem ég hafi á sjálfum mér gert, annars vegar með hóflegri neyslu húsdýraafurða og þar á móti með óhóflegri neyslu húsdýraafurða. Mér skilst af ræðu hv. þm., að fyrst hafi hann, er hann neytti afurða þessara í hófi og leitaði síðan til læknis, komist að þeirri niðurstöðu að hann hefði of mikla blóðfitu. Læknar ráðlögðu honum þá að hætta að neyta búfjárafurða, a.m.k. feits kjöts og smjörs, en hann brást karlmannlega við og hóf nú af mjög miklu kappi að neyta þessarar fæðu umfram það sem hann áður hafði gert, og leitaði síðan til lækna og kemur þá í ljós að blóðfita hefur minnkað, og er hann nú sjálfur eins og lifandi og gangandi dæmi um hollustu þess að neyta húsdýraafurða af ofurkappi, Eins og ég segi, ég hef ekki til að bera fræðilega þekkingu til þess að kveða upp neinn úrskurð um þetta né heldur persónulega reynslu. En hitt veit ég upp á mína tíu fingur, að ef þjóðin, sem byggir þetta land, er orðin svo löt að hún nennir ekki að brenna því eldsneyti sem hún fær í kroppinn með því að borða íslenskt dilkakjöt og smjör, þá er henni alveg eins gott að panta kistuna sína strax.

Ég hef ekki trú á því — og þar tala ég af reynslu sem fréttamaður, af aldarfjórðungs reynslu í fréttaflutningi – að fréttamenn útvarps og sjónvarps hafi gert það af meðvituðum fjandskap við íslenska bændur að segja frá þessari síðustu verðbreytingu landbúnaðarafurða á þann hátt, sem þeir gerðu. Ég trúi því ekki, heldur er ég þeirrar skoðunar, að þeir hafi þarna, blessaðir vinirnir, fallið í sömu gryfju og aðrir landsmenn, þessa meðvitund hins lata slappa og dáðlausa manns, sem ekki hefur lengur kjark til að borða það, sem hann langar í, af ótta við að hann muni fitna af því að hann nenni ekki að hreyfa sig.

Ég minnist þess, að skömmu áður en þetta átti sér stað, þessi umræddi fréttaflutningur, hafði sjónvarpið nýlega lokið flutningi sjónvarpsþáttaseríu um það, með hvaða hætti íslendingar ættu að halda sér grönnum og helst fyrirhafnarlaust. Þá kom það að vísu fram hjá ágætum fræðimönnum, sem fram komu í þessum þætti og stóðu að honum, að æskilegast væri til heilsubótar og lífsnautnar að menn legðu á sig líkamlegt erfiði, helst úti við, að því marki að þeir fengju góða matarlyst og mættu borða holla fæðu, þ. á m. smjör og kjöt, af hjartans og magans lyst og færu síðan og hreyfðu sig og ynnu þannig að þeir brenndu þessari fæðu.

Það munu nú vera liðin 11 ár síðan eitt höfuðskáld okkar og frægasti rithöfundur vakti athygli á þeirri furðu — það var Halldór Laxness — að Íslendingar þyrftu nú, alþýðufólk, furðulega oft að fara út til Danmerkur til megrunar. Um svipað leyti kvað annað höfuðskáld þjóðarinnar dálítið hrjúfara að orði, þar sem var Þórbergur Þórðarson, en hann komst svo að orði um þetta tískuvandamál þjóðarinnar, að nú væri komið svo fyrir Íslendingum að þeir ætu svo mikið að þeir hefðu ekki undan að melta.

Ég hef beðið þess nú um hríð að gera grein fyrir þáltill., sem ég flyt hér ásamt félögum mínum úr Alþb, í þessari hv. d. um verðlagningu á landbúnaðarafurðum, þar sem ég hafði hugsað mér að eitthvað yrði komið inn á þau mál sem lúta að neyslu landsmanna á þessum afurðum og hinni raunverulegu ástæðu fyrir því, hvað Íslendingar borða orðið lítið af þessari hollu og gómsætu fæðu sem dilkakjötið er og smjörið. Mun ég því ekki fara út í það að ræða hinar efnahagslegu hliðar málsins, en vil aðeins ljúka máli mínu með þeirri aths., að e.t.v. sé ekki furða þótt illa grunduð gagnrýni og fordómar á framleiðsluvörum íslenskra bænda eigi leið inn í hlustir fólksins, þegar svo er komið að fjöldinn allur af íbúum bæjanna er farinu að trúa því að bændastéttin sé gustukafólk þeirra, bæjarbúanna, í staðinn fyrir að ef um gustukaverk er að ræða á því sviði, þá mætti ætla að hið öndverða væri hið sanna.