14.12.1977
Efri deild: 25. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

Umræður utan dagskrár

Jón Helgason:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e. hóf hér umr. um fréttaflutning Ríkisútvarpsins í sambandi við verðhækkanir nýlega á landbúnaðarafurðum og gerði þá grein fyrir því á nokkuð augljósan hátt, hvernig fréttamenn þeirrar stofnunar hefðu misnotað aðstöðu sína til þess að koma eigin skoðunum á framfæri. Það er að vísu rétt hjá hv. 7. landsk. þm., að fólk er orðið svo vant því að sjá og heyra þennan áróður í fjölmiðlum, að það verður að viðurkenna að of lítið hefur verið gert að því að kveða hann niður. Ég held að hv. 6. þm. Norðurl. e. hafi gert grein í sínu máli fyrir ástæðunum fyrir þeirri breytingu sem gerð var á verðlagningu á undanrennu og sé því ekki ástæðu til þess að fara frekar út í það vegna orða hv. 2. þm. Reykn., enda mun 6. þm. Norðurl. e. þá gera nánari grein fyrir því hér á eftir, þar sem það var hann sjálfur sem stóð í þessari verðlagningu.

En vegna þess, sem hv. 2. þm. Reykn. sagði um að það væri verið að reyna að breyta Íslendingum úr fiskneysluþjóð í kjötneysluþjóð, getur það vel verið að niðurgreiðsla á kjöti eða sumum tegundum kjöts hafi haft þarna einhver áhrif. Annars er það þannig nú, að að vísu eru niðurgreiðslur á kjöti, en það er einnig söluskattur á kjöti, og eins og sakir standa nú vegur þetta nokkurn veginn salt hvað viðvikur sauðfjárafurðum eða dilkakjöti. Hins vegar er niðurgreiðslan ekki svo mikil á nautakjöti og engin á öðrum kjöttegundum. En ekki er söluskattur á fiski, svo að það, sem ríkisvaldið gerir nú með sinni skattlagningu, er þó frekar að skattleggja kjötið en fiskinn. Ég held því að þetta séu dálítið hæpin rök.

Ég kvaddi mér fyrst og fremst hljóðs hér vegna þess að ég hef hér í höndunum tvær blaðagreinar eftir norræna prófessora þar sem þeir vara mjög alvarlega við þeirri hættu, að áróður þeirra, sem vinna gegn neyslu á fitu, sérstaklega mettaðri fitu, sé tekinn alvarlega, og ég vil nota þetta tækifæri til þess að vekja athygli á skoðunum þessara norrænu prófessora. Annar þeirra er doktor í læknisfræði, Paul Astrup prófessor við Kaupmannahafnarháskóla. Í grein sinni hefur hann mál sitt með því að skýra frá því, að á s.l. ári hafi hann ásamt þremur öðrum prófessorum við Kaupmannahafnarháskóla hafið umr. um mataræði til þess að andmæla þeim, sem þar í landi hafa prédikað þá kenningu að Danir eigi að neyta minni fitu, einkum mettaðrar fitu. Þeim fjórmenningum fannst nauðsynlegt að læknisfræðilegt álit kæmi fram um þetta, þar sem rök þeirra, sem þessari kenningu hafa haldið fram, væru haldlítil. Hann rekur síðan fjölmörg atriði máli sínu til stuðnings, og yrði of langt mál að fara að tíunda þau öll hér, heldur get ég aðeins skýrt frá niðurstöðunni. Hann varar t.d. við að nota hvers konar eftirlíkingar af þeim fæðutegundum sem framleiddar eru í jurta- og dýraríkinu — þetta er gervikaffi, þeytirjómi o.fl. — og seldar eru sem eftirlíkingar. Sérstaklega tekur hann fram, að hann telji smjörlíki meðal þessara eftirlíkinga og kveður það skoðun sína, að fólk eigi að forðast neyslu þess eins og það getur. Hann færir síðan rök fyrir þeim skoðunum sínum, að engar sannanir séu fyrir því að neysla fitu og þá sérstaklega dýrafitu valdi hjarta- og æðasjúkdómum, en ástæðan fyrir ágreiningi um það sé fyrst og fremst sú, að nægjanlegar rannsóknir vanti. Sérstaklega bendir hann á að svar þurfi að fást við því, af hverju engin aukning hefur orðið á hjarta- og æðasjúkdómum hjá ungum og miðaldra konum, heldur aðeins hjá karlmönnum, enda þótt þeir neyti sömu fæðu og þær.

Í lokin vitnar hann í bók eftir son skáldsins Johannes V. Jensens, þar sem hann rifjar upp endurminningar sínar og segir: „Ég heyri mömmu segja við pabba: Þú mátt ekki setja svona mikið salt á kartöflurnar, Johannes V., það getur valdið æðakölkun.“ Og máli sínu lýkur hann með orðum dansks listmálara — þessum orðum: „Maður verður að flýta sér að borða á meðan það er hollt.“

Hinn norræni prófessorinn, sem ég gat um, er Bengt Borgström við háskólann í Lundi. Fyrirsögu greinar hans er: „Það er ekki grundvöllur fyrir því að skipta á smjöri og jurtaolíum.“ Hún hefst á því, að hann segir að við höfum síðasta mannsaldurinn lifað á þeirri lífslygi að áríðandi væri að velja á milli tveggja tegunda fitu, mettaðrar og ómettaðrar, og velja þá ómettuðu. En hann segir að æ fleiri vísindamenn leggi nú áherslu á að menn viti allt of lítið um orsakirnar fyrir hjarta- og æðasjúkdómum til að geta fallist á þá kenningu, að taka eigi smjörlíki og jurtaolíu fram yfir smjör, mjólk og kjöt. Áróðurinn fyrir því segir hann að sé lítt æskilegur frá læknisfræðilegu sjónarmiði og bendir á aðra sjúkdóma sem slík breyting hafi sannanlega í för með sér. Þessi kenning byggist á trú sem menn taka, en ekki staðreyndum, segir hann. Hann segist sjálfur hafa verið í hópi hinna trúuðu fyrir 5–6 árum, en þróun rannsókna hafi kippt stoðum undan þeirri trú og samvíska hans neyddi hann til þess að skýra frá því — það sama sé að gerast hjá leiðandi aðilum í læknisfræði í Bandaríkjunum, Bretlandi og Danmörku. Niðurstaða Borgströms er því hin sama og hjá dr. Paul Astrup.

Ég býst við að flestir geti tekið undir það, sem hv. 2. þm. Reykn. sagði hér áðan, að offita er óholl fyrir fólk. En ég get ekki skilið annað en það sé betra fyrir fólk að neyta hollrar fæðu en óhollrar, ef það hefur þörf fyrir að takmarka fæðuneysluna. Það er óhóf og ofneysla, sem getur verið hættuleg, en ekki það að neyta hollrar fæðu. Ef við flettum blöðum og tímaritum frá upphafi þessarar aldar eru mjög áberandi auglýsingar um svokallaðan Kínalífselixír, sem átti að vera allra meina bót að mati auglýsenda, og var reynt að fá neytendur hans til að vitna um ágæti hans. Við, sem lesum þetta nú, vorkennum þeim sem létu glepjast af þessu fánýta auglýsingaskrumi. En það virðist eftir orðum þeirra lækna sem ég vitnaði hér til áðan, að það sé að fara nú eins fyrir þeim sem að undanförnu hafa prédikað og barist gegn neyslu íslenskra landbúnaðarvara, haldnir fordómum og trú á sinn lífselixír, enda þótt enn sé reynt að blása lífi í áróðurinn með því að misnota fjölmiðla.