14.12.1977
Efri deild: 25. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

Umræður utan dagskrár

Sverrir Bergmann:

Herra forseti. Ég ætla ekki að flytja hér langt mál, en tilefni þessarar umr., sem hér hefur orðið utan dagskrár, er sá frásagnarmáti sem viðhafður var í sjónvarpi og útvarpi í sambandi við nýgerða verðlagningu á landbúnaðarafurðum. Ég hvorki sá né heyrði þessa þætti á þann hátt að ég telji mér fært að dæma um það, hvernig þar var um þessi mál fjallað, og get því ekki sjálfur neitt um það dæmt, hvort þar var gætt hlutleysis eða ekki.

Áður en ég held lengra ætla ég að víkja að því sem ég vildi helst segja í þessu sambandi. Hlýt ég eins og margir aðrir hv, alþm. að harma það, hversu mjög hefur verið sótt að bændastétt þessa lands um alllangt skeið og hversu allt of mörgum sýnist nú að þessi mæta stétt liggi vel við höggi og flest megi við hana og um hana segja. Ég held að allir réttsýnir og vel hugsandi menn, eins og á við um alla hv. alþm., ættu að hafa og hafi af þessu nokkrar áhyggjur, því að þetta er einn af máttarstólpum þessa lands, þar sem er bændastéttin. Hún er alls góðs verðug og alls góðs makleg og það ætti sannarlega að fræða þjóðina um það ekki síður en hitt, sem nú er lögð áhersla á, hversu mikla þýðingu þessi stétt hefur fyrir landið. Auðvitað efast ég ekkert um það, að þessi stétt á eins og allar aðrar við sín vandamál að stríða. En ég hygg að hollasta og heppilegasta lausnin finnist e.t.v. þar eins og víða annars staðar á heimavígstöðvunum.

En ef svo hefur verið, að fréttaflutningur í sambandi við breytingu á verði á landbúnaðarvörum hefur virst hlutdrægur, þá hefur það kannske ekki nema — ja, eftir atvikum — óbeint verið út af verðinu sjálfu, heldur hefur málið fyrst og fremst gengið út á það, hver hollusta væri af einstökum landbúnaðarvörum, og það er náttúrlega auðvelt að draga það fram, þar sem ákveðin tegund mjólkurafurða hækkaði í prósentutölu meira en hinar.

Því hefur verið haldið fram mjög ótæpilega, að Íslendingar neyttu of mikillar fituríkrar fæðu og þá sérstaklega í mjólk og í feitu kjöti og það kynni að vera einn þáttur þess, að því miður fer fjölgandi sjúklingum með hjarta og æðasjúkdóma. Þeir, sem þessu hafa haldið fram skeleggast og fengið í lið með sér harðduglega baráttumenn og baráttukonur — ef ég má aðgreina mann frá konu — hafa barist fyrir þessu af mikilli hörku, að breyta neysluvenjum þannig að neytt væri minna magns mjólkur og minna af feitmeti og þá fyrst og fremst feitu kjöti. Hefur þá verið haft í huga að draga úr neyslu mettaðra fitusýra. Í sambandi við þetta vildi ég segja örfá orð.

Það er staðreynd, því miður, sem við getum ekki gengið fram hjá, að tíðni hjarta- og æðasjúkdóma er vaxandi, og ég bið alla hv. alþm. að skilja það vel, að læknar, sem standa daglega frammi fyrir ákaflega dapurlegum örlögum allt of ungs fólks vegna þessara sjúkdóma, gerast auðvitað margir hverjir mjög ákafir í baráttu sinni og stundum getur mönnum kannske yfirsést. En smám saman safnast saman ákveðnar upplýsingar. Það fyrsta, sem við verðum þó að gera okkur grein fyrir og allir læknar munu viðurkenna, er að enn — því miður — er grundvallarorsökin fyrir æðakölkun óþekkt, og það er auðvitað mergurinn málsins. Menn hafa hins vegar þóst geta rennt undir það stoðum, að ákveðnir áhættuþættir væru fyrir hendi, og þessa þætti vil ég nefna. Þar er kannske fyrst og fremst of hár blóðþrýstingur. Síðan má nefna reykingar, en á það má benda að reykingar hækka blóðþrýsting. Þá vil ég einnig nefna streitu, en þar verður þess einnig að gæta að streita hækkar blóðþrýsting sömuleiðis. Um þetta er lítill ágreiningur. Þá er einnig talið að offita, sem endilega kemur nú ekki bara af því að borða feitan mat, sé einn áhættuþátturinn. Undir það má síðan setja hreyfingarleysi, því að það út af fyrir sig stuðlar að því, að maður verði óheppilega þéttur og þungur á sér. Loks er það nefnt, að of mikið magn af fituefnum í blóði geti verið áhættuþáttur. Við megum ekki ganga fram hjá þessu. Það liggja fyrir allt of miklar niðurstöður um það að þetta kunni eitthvað að vera í samhengi, þó svo að frumorsök fyrir æðakölkuninni sé ekki kunn. Hins vegar megum við ekki heldur draga af þessu of miklar ályktanir, því að það er vel ljóst að einstaklingarnir eru ákaflega mismunandi með tilliti til þols síns gagnvart þessum einstöku þáttum. Í sjálfu sér er ekkert erfitt og það á varla að þurfa neinn hastarlegan áróður til þess að fá menn til þess að borða um það bil það næringarmagn sem þeim hentar, þannig að þeir gerist ekki of feitir, og það er að sjálfsögðu enginn ágreiningur eða ætti ekki að vera neinn ágreiningur um það, að menn séu hvattir til þess að hafa eðlilega hreyfingu, hún gerir fólk a.m.k. stælt, þó ekki sé annað. Það er sömuleiðis tiltölulega auðvelt að fylgjast með blóðþrýstingi hjá fólki og auðvelt að koma því við á Íslandi, þannig að hægt sé að halda honum nokkurn veginn innan eðlilegra marka og hjálpa fólki til að leggja af það líferni sem geti hækkað hann.

En þá komum við kannske að aðalmálinu og það er fitan. Ég er hér með mjög nýlega grein í höndunum, þar sem fjallað er um þessi mál. Hún er raunar aðeins tveggja mánaða gömul og eru þar saman komnir læknar frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Hollandi og Ísrael, sem hafa tekið þetta fyrir skipulega. Þeir nefna allt það sem ég hef hér talið upp, og þeir draga enga dul á það, að æskilegt sé að hvetja fólk til að neyta mettaðra sýra í hófi. En þeir benda hins vegar á það, að það sé mjög einstaklingsbundið hver áhætta mannsins sé gagnvart fituneyslu og það þurfi raunverulega að athuga hvern mann með tilliti til þess, þannig að hægt sé að ákvarða honum nokkurn veginn þá áhættu sem hann stendur frammi fyrir, þannig að hann megi haga mataræði sínu í sambandi við það. Það er þeirra skoðun, að það eigi eiginlega að setja upp áætlun fyrir hvern mann, sem ætti að heita: „þekktu líkama þinn“, þannig að hægt sé að kanna hjá hverjum einstaklingi hverja áhættuþætti hann hefur gagnvart öllum þeim þáttum, sem ég hef hér nefnt, er hugsanlega mættu stuðla að æðakölkun. Þessir menn láta sér þau orð um munn fara, að betra sé og hyggilegra að fara svona að og geta ráðlagt hverjum og einum heldur en að viðhafa baráttu af því tagi sem hlýtur fyrst og fremst að vera áróður og hlýtur að leiða til meiri árekstra en því nemur sem hún leysir úr. Þeir segja, að það sé miklu heppilegra að fara þessa leið og leiðbeina hverjum og einum heldur en að halda áfram að deila um það endalaust hverjar séu hugsanlegar orsakir, því að það muni langur tími líða enn þangað til þær liggi fyrir, þó svo að tillit sé tekið til þessara áhættuþátta.

Ég veit ekki hversu skýr ég hef verið í þessu máli mínu. En samandregið er það á þá leið, að enda þótt við horfum til þess með nokkrum geig, hversu fjölgað hefur þeim sem verða sjúkir vegna hjarta- og æðasjúkdóma, þá vitum við ekki enn hver grundvallarorsökin fyrir þessu er. Meðan því er svo varið getum við aðeins varað við hugsanlegum áhættuþáttum. Það er tiltölulega einfalt með suma þeirra, en gagnvart öðrum stöndum við þannig, að þar á sennilega ekki best við neinn almennur áróður, heldur mat í hverju einstöku tilviki, en með sanngirni er hægt að segja, að það sé ráðlagt í heild að menn neyti raunar hvers sem er í hófi. Og ég get sagt það hér að lokum, að það sem þeir segja við börnin, því að þeir telja að baráttan gegn æðakölkun eigi helst að byrja strax í móðurkviði eins og allir góðir hlutir, það sem eigi að ráðleggja börnunum sé að þau skuli ekki reykja og þau skuli hafa góða hreyfingu og þau skuli neyta alls í hófi.