14.12.1977
Efri deild: 26. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

Umræður utan dagskrár

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Það var s.l. mánudag sem fóru fram umr. hér í þessari hv. d. utan dagskrár vegna fréttaflutnings á verðlagsbreytingum á landbúnaðarvörum í fjölmiðlum þeim sem ríkið ræður yfir. Það munu vera fá dæmi þess, að ég hafi tekið þátt í umr, hér á hv. Alþ. utan dagskrár, það hafa aðrir þm. verið mér fremri í þeim efnum. En að þessu sinni taldi ég mér skylt að víkja að því sem hér var til umr. og rætt var á þessum fundi og fram haldið mun hafa verið á fundinum í dag, en af fundinum á mánudaginn varð ég að fara að öðrum störfum og gat því hvorki fylgst með þeim umr. né þeim sem urðu hér seinni partinn í dag, enda vissi ég ekki um það, að þetta mál yrði hér til umr. utan dagskrár nú.

Það, sem ég vil taka fram í þessu sambandi, er fyrst það, að ég lit svo á að hlutlaus fréttasögn sé fólgin í því að segja frétt án þess að fréttamaðurinn láti koma fram viðhorf sín gagnvart fréttaefninu. Ég held að það sé alveg óhugsandi að hægt sé að segja frétt með þeim hætti að hlutleysis sé gætt ef skoðanir fréttamanns koma fram. Þetta tel ég að sé hugsunin á bak við það að ríkisfréttamiðlar, sem eru útvarp og sjónvarp, gegni starfi sínu af fyllsta hlutleysi. Ég held að það orki ekki tvímælis, að meðferð á þessum málum hafi bæði í útvarpi og sjónvarpi, verið með þeim hætti að skoðanir fréttamanna hafa komið þar greinilega fram, og það er ekki hægt að gæta þess hlutleysis, sem ég tel að eigi að vera í sambandi við slíka frásögn. M.a. vil ég með leyfi hæstv. forseta, vitna til þessarar setningar sem kom fram hjá fréttamanni útvarpsins, Vilhelm Kristinssyni, þar sem hann segir: „Hækkunin er mismunandi eftir tegundum og með ákvörðuninni er greinilega gerð tilraun til að breyta lífsvenjum neytenda. T.d. er reynt að draga úr sölu undanrennu með mikilli verðhækkun, en auka smjörsölu.“

Hér er verið að leggja dóm á þá athöfn sem þarna er verið að skýra frá, og með þeim hætti tel ég að brotið sé það sem telst hlutleysi. Fréttamannsins er ekki að vera dómari, að mínum skilningi. Hann á aðeins að skýra frá því sem gerðist, en ekki að fara að leggja út af því með dómsorðum eins og þarna er gert.

Það sama kom fram í frétt sjónvarpsins. Og til þess að ég fari nú ekki að lengja tímann um of, þá ætla ég ekki að fara nánar út í þetta, enda er þetta kjarni málsins, sem um er að ræða í þessu sambandi. Þegar fréttamaður sjónvarps er að segja sína frétt farast honum svo orð, með leyfi hæstv. forseta:

„Öðru máli gegnir“ — þá er búið að skýra frá nokkrum hækkunum — ,.öðru máli gegnir um undanrennuna. Hún er stórhækkuð eða um 66.7%.“ Svo kemur frekari talnafrásögn og síðan kemur þetta einnig, með leyfi hæstv. forseta: „Að undanförnu hafa heilbrigðisstéttir víða í heimi rekið áróður fyrir breyttum neysluvenjum almennings í þá átt, að neysla grænmetís og ávaxta sé aukin svo og neysla á grófmöluðu korni, mögru kjöti og fisktegundum. Hins vegar er mælt með því, að dregið sé úr neyslu sykurríkra fæðutegunda og fituríkra og aukin neysla fitusnauðra mjólkurafurða á kostnað feitra. Manneldisfræðingar hæði vestan hafs og austan hafa í stórum dráttum verið á einu máli um það ráð og telja að með því að fara eftir því megi draga úr ýmsum þeim sjúkdómum sem nú höggva, stærst skörð, svo sem hjartasjúkdómum og æðasjúkdómum. í okt. s.l. kom það fram í fréttum sjónvarpsins, að sala á undanrennu hefði aukist um 130% fyrri hluta ársins miðað við sama tíma í fyrra, en á sama tíma minnkaði sala nýmjólkur um 0.9%.“

Hér finnst mér vera farið inn á sömu braut, að fara að túlka vissan áróður eða vissar skýringar. Nú skal ég ekki fara að hætta mér út í að ræða það, hversu mikil nauðsyn er eða að hverju gagni megi koma að breyta lífsvenjum fólks hér á landi, því að aðrir eru mér færari að fjalla um það. Hinu vil ég þó vekja athygli á, og það kom hér fram hjá hv. þm. Sverri Bergmann, að um þetta eru menn ekki heldur á eitt sáttir, svo að það sé til nein algild formúla um það, hvað hentar hverjum og einum til þess að halda lífi sínu. Og neysluvenjur manna eru breytilegar, það er því í ekki á færi fréttaþjónustu ríkisútvarps eða sjónvarps að fara að segja til um, hverra fæðutegunda menn skuli neyta.

Hitt kemur greinilega fram í þessari frásögn, að þessi mikla breyting á lífsvenjum er fyrir áróður sem hefur verið haldið uppi m.a. og trú manna á því, að undanrenna sé hollari nýmjólkinni, því að dregið hefur úr sölu nýmjólkur, en aftur aukist salan á undanrennunni. Nú var það almenn skoðun hér á landi, að undanrenna væri léleg fæðutegund og tæplega eða ekki miklu meira en það að hún væri fæðutegund. Og mér og fleirum, sem höfum verið mjólkurbörn um dagana, hefur fundist lítið til þessarar fæðutegundar koma. Hins vegar hefur hver og einn rétt til þess að hafa sína skoðun á því, hvort undanrenna er betri til drykkjar en nýmjólk eða rjómi. Ég ætla mér ekki að fara að deila á neinn fyrir það. En ég vil vekja athygli á því, að það hlýtur að vera jafnsjálfsagt að fyrir þessa tegund fæðu, undanrennuna, verði neytendur að greiða eins og aðrar tegundir fæðu, og ef undanrenna er orðin að dómi neytenda holl fæðutegund, þú ber þeim auðvitað að greiða fyrir þá fæðu eðlilegt verð, en eðlilegt verð: þessu tilfelli er auðvitað matið sem er lagt ú mjólkurlítrann og þær einingar, sem út úr honum koma. Til þess að framleiða undanrennuna þarf nýmjólk og til þess að undanrennan skili sér kemur rjómi og smjör í framleiðslunni, og það verður að meta þetta í heild í verðgildi svo að rétt sé að farið. Það var því ekki nema eðlilegt, að við verðákvörðunina í haust, þegar þessi reynsla lá fyrir, væri verðið á undanrennunni hækkað. Það var eðlilegt lögmál vegna eftirspurnar eftir þessari vöru og þeirra ráðstafana sem þurfti til að bændur gætu fengið sambærilegar tekjur. svo sem þeim ber lögum samkv., við aðrar stéttir af sínum afurðum. Þess vegna er ekki hægt að leggja þetta út á annan veg en þann, að þegar hafinn er áróður út af því að það er farið að verðleggja þessa vöru í samræmi við eftirspurnina og það mat, sem neytendur eru farnir að legg,ja á gildi vörunnar, þá sé það óeðlilegt. Þetta vil ég að komi hér fram að ég tel að það sé jafnsjálfsagt að verðleggja þessa vöru miðað við eftirspurn og þá hollustuhætti sem þeir, sem hana kaupa, telja sig hafa af því að neyta hennar, eins og mjólkina, rjómann og smjörið.

Nú skal ég reyna að eyða ekki í þetta of mörgum orðum, en get þó ekki komist hjá því að geta þess, að á yfirstandandi ári hafa verið og reyndar lengur þó og hefur svo sem oft komið fyrir — gerðar hatrammar árásir á bændastéttina í landinu og framleiðslu á landbúnaðarvörum. Þetta hefur venjulega verið með þeim hætti að það hefur gengið í bylgjum, það hafa komið viss tímabil sem árásir hafa verið teknar upp, og á yfirstandandi ári og s.l. ári er það orðið nokkuð langt tímabil sem þetta er búið að standa samfellt. Nú hefur það m.a. komið fram hjá ýmsum blaðamönnum — og þeir hafa auðvitað rétt til þess að túlka skoðanir sínar á annan hátt en ríkisútvarp og sjónvarp sem eiga að vera hlutlausir fréttaskýrendur — að það þurfi eiginlega að leggja íslenskan landbúnað niður. Þeir hafa gengið svo langt í ýmsum hlöðum að segja, að það væri ekki nema eðlilegt að leggja íslenskan landbúnað niður og við mundum hafa af því fjárhagslegan hagnað. Í þessu sambandi kemur mér í hug, að nú á þessu hausti fór ég á fund FAO, þ.e. Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna, og aðalumræðuefnið á þeirri ráðstefnu var fæðuskorturinn í heiminum og sá mikli ótti þeirra sérfræðinga, sem þar vinna og hafa kynnt sér þau mál best, að mannkynið muni ekki hafa nóg að bíta og brenna, því að það muni verða alger fæðuskortur. Þess vegna, væri fjarri öllu lagi, ef þjóð eins og Íslendingar færi að hella niður framleiðslu sem var upphafið að framleiðslu hér á landi og hefur í raun og veru gegnum alla söguna verið undirstöðuatvinnugrein okkar Íslendinga.

Nú er ég að vísu sannfærður um það, að þeir blaðamenn, sem hafa verið með slíkt tal. hafa ekki látið sér detta þetta í hug í raun og veru. Það, sem þeir hafa verið að sigta á hefur eingöngu verið að reyna að vinna sér vinsældir neytendanna í landinu og hafa af því pólitískan hagnað, enda hefur það sýnt sig, að margir af þessum mönnum hafa leitað síðar eða eru að leita nú inn á hin pólitísku mið, en sumum hefur mistekist að komast á þá braut sem þeir háfa ætlað sér, Þetta er staðreynd sem er auðvelt að benda á.

En það er ekki eingöngu þetta sem hefur valdið ekki síst bændastéttinni og þeim, sem að málum hennar vinna, áhyggjum og margvíslegum leiðindum. Það var svo, að á s.l. vetri eftir verðákvörðun sexmannanefndar þá, sem var gerð samkv. lögum og reglum og byggð á kaupi þeirra stétta sem við átti að miða. fóru heildarsamtök eins og Alþýðusamband Íslands í mál við bændasamtökin út af verðákvörðuninni. Þetta mál hefur valdið mjög miklum sviða hjá bændum í landinu og það ekki að ástæðulausu. Ekki er séð fyrir endalok málsins, því að það er enn þá til meðferðar hjá þeim dómstóli, sem fékk það upphaflega. Það er mjög fjarri lagi, þegar þannig er farið að halda á málum, að neytendur og framleiðendur í þessu tilfelli þurfa að fara að eigast við með þessum hætti. Þegar verðlag á landbúnaðarafurðum var hækkað í haust, einnig eftir gildandi lögum og formúlum, var gerð sérstök ályktun af Alþýðusambandi Íslands, stjórn þess, og háværar frásagnir urðu í blöðum út af þessum verðhækkunum. Þó er það svo, að þrátt fyrir að reynt sé að halda í við verðlagið í landinu og fylgja eftir á þriggja mánaða fresti; þá hefur ekki tekist í okkar verðbólguþjóðfélagi að halda svo á verðlagsmálum bændastéttarinnar, að hún hafi getað haldið í við aðrar stéttir.

Það mun hafa verið á árunum 1972, 1973 og 1974 sem afkoma bændastéttarinnar hefur verið hvað best síðan þetta kerfi var upp tekið, ásamt árunum 1965 og 1966, samanborið við aðrar stéttir, sem nefnast viðmiðunarstéttirnar. Á úrunum 1975 og 1976 hefur þetta versnað aftur og nú á árinu 1977 er ekki séð hvernig verðlagsþróun bændastéttarinnar reiðir af vegna þess hvað samdráttur var mikill í neyslu á landbúnaðarvörum hér innanlands og útflutningur þar af leiðandi mikill. Þetta hefur allt orðið þess valdandi, að það hefur skapað vissan óróleika í þjóðfélaginu, og þar við bætist svo frásögn sem á að vera hluttaus, en er sett fram með þessum hætti, þegar reynt er að leiðrétta verð á vissum vörutegundum til samræmis við það, sem neytendur óska eftir, og taka tillit til þess að meta verðgildi varanna á þann veg sem fram hefur komið hjá neytendum.

Ég sé enga ástæðu til þess og veit að það er ekki hugsun neytenda, að bændur landsins geti frekar en aðrar stéttir í þjóðfélaginu gefið sína vinnu. Þeir fá ekki greitt fyrir hana nema gegnum framleiðsluvörur sínar, og þess vegna verður verðlagningin á hverjum tíma að miðast við það sem best hentar gagnvart sölunni. Það er sú regla sem yfirleitt gildir í þeim efnum. Og við verðum líka að hafa það hugfast, að bændastéttin í landinu og landbúnaðurinn leggur mikið til neyslu þjóðarinnar sjálfrar og sparar þannig gjaldeyri, sem þjóðin hefur nú ekki of mikið af, og tryggir afkomu hennar, þó að alls konar sveiflur gætu átt sér stað, betur en með öðrum hætti væri gert. T.d. hefði afkoma okkar í síðustu styrjöld verið í mjög mikilli hættu, ef landbúnaðarframleiðslan hefði þá ekki verið til. Og ég minni á að það kom fram í umr, á þeim tíma — ég tel mig muna það rétt — að ein mesta hætta sem sótti að Bretlandi í síðustu styrjöld var sú, að þeirra landbúnaði hafði hnignað á áratugunum á undan og þjóðin var því í mjög mikilli hættu.

Ég skal nú ekki hafa þessi orð öllu fleiri. Ég vil bara endurtaka það að lokum, að ég lít svo á að hlutleysi í fréttafrásögn hjá fjölmiðli sem rekinn er af ríkinu geti ekki átt sér stað nema framsetningin sé með þeim hætti, að skoðun fréttamannsins komi ekki í gegn, — það sé hið raunverulega hlutleysi. Ég tel ekkert óeðlilegt við það. þó að lífsvenjuhættir þjóðarinnar breytist, og þeir hljóta alltaf að breytast. — en hvað á að reka mikinn áróður fyrir slíku vegna þess að þekking manna á orsökum sjúkdóma er þrátt fyrir allt nokkuð takmörkuð, þótt hún fari alltaf vaxandi? Þá vil ég taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Sverri Bergmann, sem er læknir, að það getur verið æði einstaklingsbundið hverju breyta þarf. Ég vil líka leggja áherslu á það, að landbúnaðarframleiðsla Íslendinga getur ekki verið með eðlilegum hætti nema hægt sé að tryggja bændastéttinni svipaða afkomu og öðrum stéttum í þjóðfélaginu. Þess vegna verður það að teljast til árásar á bændastéttina þegar málefni hennar eru meðhöndluð á þann veg, að það geti dregið úr möguleikum hennar til að hafa sæmilega afkomu eða sjá þjóð sinni fyrir nægjanlegum og góðum matvælum.