14.12.1977
Efri deild: 26. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (844)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég mun tala stutt og tala mig dauðan í málinu núna, enda á ég þess von að við fáum tækifæri til þess nú alveg á næstunni að ræða verðlagsmál landbúnaðarins undir þeirri fyrirsögn.

Ég hlýt að þakka hv. þm. Oddi Ólafssyni og Sverri Bergmann, læknum deildarinnar, fyrir þá fræðslu sem þeir veittu okkur áðan varðandi þá hlið málsins sem snýr að hollustu. Mér koma nú í hug tvær bækur, sem ég las ungur maður, um nauðsyn þess að geta étið feitt á norðurslóðum, eftir tvo ágæta vísindamenn sem reynt höfðu á sjálfum sér ekki síður en hv. þm., nafni minn Valgeirsson, sem ég minntist á fyrr, nauðsyn þess að geta étið feitt. Það er bókin Salt jarðar eftir Vilhjálm Stefánsson, þar sem hann segir frá fortakslausri nauðsyn þess á yrstu slóð í kulda og vosbúð að hafa nóg af feitu kjöti, og svo bók Knud Rasmussens, Den anden Thule expedition, þar sem hann segir frá slíku hinu sama. Og einhvern veginn finnast mér rétt niðurstaðan, sem læknarnir komust að á ráðstefnu þeirri sem hv. þm. Sverrir Bergmann gat um áðan í ræðu sinni, en þeir komust að þeirri niðurstöðu, að það væri best að hver og einn borðaði það, er best ætti við, sem honum væri hollast prívat og persónulega fyrir sig við gefnar aðstæður. en við forðuðumst alhæfingar í þessum mataræðismálum. Þegar svo er komið þekkingu manna, umhyggju hins almenna borgara fyrir heilsu sinni, áhuga einstaklingsins fyrir langlífi, þá kynni þetta að enda með því að menn neyddust til að fara að velta fyrir sér spurningunni: Úr hverju á ég að deyja? Það kemur að því fyrr eða síðar, að það mun hver og einn gera, og ég ráðlegg mönnum að bregða heldur á það ráð að vinna, éta og drekka og vera bara glaðir.

En meginástæðan fyrir því, að ég kom upp hér öðru sinni til þess að tala mig dauðan í þessu máli, er þetta atriði, sem lýtur að fréttaflutningnum. Eins og hv. þm. Ólafur Þórðarson sagði, þá snýst þetta mál aðallega um fréttaflutninginn. Ég hygg að þeir hv. þm. sem hófu umr. utan dagskrár í Ed. og Nd. samtímis, hafi gert vel að vekja þetta mál hérna, og ég hygg að spurning hv. þm. Inga Tryggvasonar, sem hann bar fram hér í d. um það, hver bæri ábyrgð á þessum fréttaflutningi, sé vel þess virði að við leitum eftir svari. Hitt vil ég leiðrétta, sem er harla þýðingarmikið: Það er hvergi í lögum eða reglum Ríkisútvarpsins kveðið á um það, að Ríkisútvarpið eigi að vera hlutlaust í fréttaflutningi eða fréttamenn útvarpsins eigi að vera hlutlausir í störfum sínum og fréttamati eða fréttaflutningi. Það er kveðið á um það, að útvarpið á að vera óhlutdrægt í fréttaflutningi sínum og hvorki halla á menn, málefni né flokka, — óhlutdrægt. Það er alveg bráðnauðsynlegt, þegar við ræðum þessi mál. að við höfum fyrir því að skilja merkingu þessara tveggja orða og gera okkur grein fyrir mismuninum á merkingu þessara tveggja orða. Það er skylda Ríkisútvarpsins beinlínis að vera ekki hlutlaust, heldur láta sig hvað eina skipta máli, öll mannleg vandamál og hvað eina. Það er skylda útvarpsins að gera það lögum samkv. og samkv. reglum sem settar hafa verið um rekstur þess. Aftur á móti á það að gæta óhlutdrægni. Ég er þeirrar skoðunar, að fréttamönnunum hafi orðið á í messunni, þeir hafi gerst hlutdrægir. Hér hygg ég að sé miklu fremur um verkstjórnaratriði að ræða heldur en það, að þessir einstaklingar hafi viljað brjóta reglurnar um óhlutdrægni. Hlutverk þeirra var að afla upplýsinga um þetta mál frá bestu heimildum, áreiðanlegustu heimildum. Hlutverk þeirra var að leita til fulltrúa verðlagsráðs landbúnaðarins, inna þá eftir ástæðum fyrir þessari breytingu á verðlagningunni. Þeir áttu að ræða við trúverðuga og fróða fulltrúa neytenda í þessu máli. Og ef þeir vildu hætta sér út á þennan hála völl að fjalla um hollustu eða óhollustu, þá áttu þeir að leita til hinna fróðustu næringarfræðinga og þá fremur fleiri en eins á þessu sviði. Með þessum hætti, að leita á óhlutdrægan hátt eftir upplýsingum fyrir tilstuðlan hinna bestu heimilda, hefðu þeir unnið þetta verk á réttan hátt. En það kemur í hlut fréttastjóra þessara tveggja stofnana Ríkisútvarpsins, sjónvarps og hljóðvarps, að sjá um að verkin séu unnin á réttan hátt. Eins vil ég leggja áherslu á það, að kveðið er á um það í fréttareglum útvarpsins, sem í gildi hafa verið frá stofnun þess í tíð Jónasar heitins Þorbergssonar útvarpsstjóra, að ætíð skal getið heimilda. Fyrir ber við skrift á fréttum að ekki hæfir, þegar um minni háttar atriði er að ræða, að tilgreina heimildina í fréttinni sjálfri, en þá skal hún ávallt skrifuð við fréttina, þannig að hægt sé að fletta upp og svara þegar spurt er: Hver sagði yður þetta, herra fréttamaður? Þá á svarið að liggja á lausu. En í öllum meginmálum og öllum þeim atriðum sem miklu skipta, sem höfuðatriði teljast, og í öllum þeim fréttum, sem lúta að ágreiningsmálum, skal geta heimilda, það skal geta um sérfræðinginn. Það hefði átt að tilgreina sérfræðinginn í málinu, sem lét það uppi að tilgangurinn með breytingu verðs á undanrennu væri sá að breyta lífsháttum o.s.frv., og vel að merkja, hv. þm. Ólafur Þórðarson hefði áðan átt að tilgreina okkur, ef hann hefði verið að flytja frétt, nafn prófessors þess við háskólann sem spurði Má Elísson að því, hvort það væri ekki of mikið að hafa fimm togara í Súðavík.

Þetta atriði með heimildina, að leita ætíð hinnar bestu heimildar geta hennar þegar slíkt á við, hafa heimildarmann ávallt á reiðum höndum skráðan, ef eftir er spurt, þetta var eitt af grundvallaratriðunum í sambandi við störf á fréttastofu útvarpsins þau 25 ár sem ég vann þar. Eftir þessu var ákaflega stranglega gengið af hálfu fréttastjóra sem ég vann lengst með, Jóns heitins Magnússonar.

Ég hef orðið þess var — ég neita því ekki — hin seinni árin, að í einhvers konar viðleitni til þess að gera fréttafrásagnir lipurri og alúðlegri virðist hafa verið hvarflað töluvert frá þessu, og það mun að mínum dómi alls ekki vera vegna þess að fréttamenn sjónvarps standi verr á verði á þessu sviði en fréttamenn útvarpsins, heldur vegna þess hversu fréttir sjónvarpsins eru eðli síns vegna öðruvísi upp byggður heldur en fréttir útvarps, að mér finnst hafa meira borið á þessu í fréttaflutningi sjónvarps, að fréttamenn beri fyrir sig óljósar heimildir, noti orðalag eins og „sagt er“, „haft er fyrir satt,“ „menn segja“ o.s.frv., í stað þess að geta heimilda fyrir ályktunum af þessu tagi. Mér er það t.d. minnistætt, og var það þó í fréttatíma, en ekki í dagskrárþætti, og varðar það mál hæstv. landbrh. og þó fremur hann sem samgrh., þegar fréttamaður sjónvarps sagði, þegar rætt var um afstöðu ráðh. til jarðstöðvar á sínum tíma, þar sem ráðh. hafði í þingræðu borið fram — ekki andmæli gegn hugmyndinni um jarðstöð. heldur bent á nokkur atriði sem hann taldi að fara yrði að með gát, há sagði fréttamaður sjónvarpsins frá þessum ummælum hæstv. samgrh. í sjónvarpinu það kvöld og sagði: Ef þetta er ekki að pissa í skó sinn, þá veit ég ekki hvað það er. — Og hann, var sjálfur heimildarmaður fyrir þeirri ályktun sinni. Þetta hefði ekki þótt gott í þann tíð, þegar menn héldu sem fastast í hugmyndina um að tilgreina heimildarmenn og að hafa hemil á tjáningu persónulegra, en ógrundaðra sjónarmiða fréttamannanna sjálfra í fréttatímanum.

Þá komum við aftur á móti að hinu forminu, sem er á útvarpsefni sem fer í gegnum fréttastofu útvarpsins og frétta- og fræðsludeild sjónvarps og hefur verið kallað fréttaauki eða hinir svonefndu þættir í sjónarhorni. Þar er til þess ættast að fréttamennirnir ræði við nafngreint fólk sem er þá meira og minna ábyrgt orða sinna, og er ætlast til þess, að sýndir séu fleiri fletir, jafnvel í mörgum tilfellum aðrir en þeir sem lúta að raunverulegum upplýsingum. Ég geri ráð fyrir því, að fréttamaður sá, sem hv. þm. Ólafur Þórðarson gat um, er vestur fór og óx í augum bryggjusmíði þar í litlu sjávarplássi, — ég geri ráð fyrir að hann hafi haft þessi ummæli sín um þann hlut, sem fengist hafði af ríkisfé í það pláss, með sérskökum tón. því að hljómfall í aths. hefur eins og gefur að skilja ákaflega mikla þýðingu. En þar er ekki um jafnhættuleg frávik að ræða í slíkum þáttum, í fréttaaukunum, þar sem rætt er við fólk, hinn almenna borgara, sem lætur skoðun sína í ljós, — þar er ekki um eins hættuleg frávik að ræða og í fréttatímanum sjálfum, þar sem ákaflega mikið er í húfi að fram komi staðreyndir og heimilda sé getið í meginmálum, þar sem orka kann tvímælis. Það er ákaflega þýðingarmikið.

Ég vil aðeins í lokin hamra á þessu atriði. vegna þess að þessa misskilnings hefur gætt hérna hjá ræðumanni eftir ræðumann og það síðast hjá hæstv. landbrh., sem flutti hér ágæta og fróðlega og hóflega ræðu, eins og hann hefur oft gert áður, en einnig hjá honum gætti þessa misskilnings. Það er ekki kveðið á um það, að Ríkisútvarpið skuli vera hlutlaust í fréttaflutningi sínum, heldur óhlutdrægt, og meginatriðið er að leitað sé ærlega eftir réttum upplýsingum á báða bóga þegar í tvennt skiptist og sem víðast þegar víðar skiptist og að öll þau mismunandi sjónarmið, sem máli skipta, fái að koma ærlega fram. Þetta gildir náttúrlega um fréttaaukana líka og fræðsluþættina. Þarna kemur það til álita. að menn spyrji leiðandi spurningar, eins og ég minnist nú einmitt, að mér þótti gert í þessum sjónvarpsþætti, að það var höggvið í mann eftir mann auðheyrilega í leit eftir fyrir fram ákveðnu svari. Það, sem á skorti þarna, var aðeins það, að leitað væri á mann eftir mann í leit að gagnstæðu svari og þá leitað til rétts aðila, til þeirra sem bærastir voru um að svara fyrir verðlagsráð landbúnaðarins sem að þessari ákvörðun stóð.

Ég held að það sé ekkert ofmælt hjá hv. þm. Ólafi Þórðarsyni, að fáfræði sé mikil í landi þér um atvinnuvegi okkar og kjör fólksins sem að þeim vinnur, og kannske fáfræði almennt mikil. og muni halda áfram að verða það. En eitt er víst. að okkur mun seint sækjast að bæta nr henni ef við gerum þá kröfu til fréttamanna útvarps, sjónvarps og blaða að þeir séu hlutlausir. Við eigum að gera kröfu til þessara manna, sem vinna þýðingarmikil störf, um að þeir afli sér hinna bestu fáanlegra upplýsinga, og þeir eiga eins og aðrir borgarar að taka afstöðu prívat og persónulega fyrir sig með því sem þeir telja rétt. En viðfangsefni þeirra í útvarpi og sjónvarpi er að koma staðreyndum á framfæri ærlega. Af þessum sökum er ákaflega oft æskilegt að fleiri en einn fréttamaður vinni að öflun efnis í einu og sömu fréttina eða einn og sama fréttaþáttinn. En til þess er ætlast hjá okkur, að fréttamenn okkar séu fjölfræðingar. Við höfum ekki efni á því að ráða sérfræðinga til starfa á þessu sviði. Það er erfitt að fá sérfræðinga til starfa á þessu sviði, — sérfræðinga sem jafnframt hafa til að bera þá kunnáttu og þann hæfileika sem til þess þarf að koma þessum upplýsingum þannig til skila, að fólk nenni eða vilji hlusta á þær eða vilji lesa þær, sem sagt hafi lag á því og þekkingu til þess að matreiða þessar upplýsingar þannig, að þær verði útvarpsefni, sjónvarpsefni eða blaðaefni. Því er ekkert um það að tala, við höfum ekki efni á því að reka fréttastofurnar með fastráðnum sérfræðingum. Við þurfum að reka þessar fréttastofur svo að segja með starfsfúsum, forvitnum og ærlegum fjölfræðingum, veita þeim aðhald, sjá til þess að þeir geti notið ærlegrar verkstjórnar, og svo skulum við trúa því í lengstu lög, að þeir vinni samkv. bestu samvisku og vinni jafnheiðarlega og vel og þeir geta. En ef brestur á um verkstjórnina, ef okkur finnst þeim takast illa, hafa þeir gott af því að heyra það. Þeir leiðrétta sig þá. Ef brestur á um verkstjórnina skulum við hjálpa til að breyta um hana eða bæta hana.