14.12.1977
Neðri deild: 28. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1247 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

23. mál, almannatryggingar

Jón Skaftason:

Herra forseti. Í fjarveru hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar, sem átti að vera frsm. í þessu máli, en er nú forfallaður vegna veikinda, hef ég tekist á hendur að segja örfá orð um afgreiðslu málsins í hv. nefnd.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt til staðfestingar á brbl. sem sett voru í sumar í sambandi við þá launasamninga er þá voru í gangi. Í brbl. þessum er að finna ákvæði um það, að sú hækkun lífeyrisgreiðslna, sem leiðir af því samkomulagi sem þar var gert, valdi yfirleitt ekki lækkun tekjutryggingargreiðslna frá almannatryggingum. Þetta er meginefni brbl.

Hv. heilbr.- og trn. fjallaði um þetta frv. á fundi og allir nm., sem mættir voru, lýstu sig samþykka því, að frv. fengi afgreiðslu og yrði samþ. Fjarverandi þennan fund voru Magnús Kjartansson og Þórarinn Sigurjónsson, sem gegndu öðrum störfum og gátu ekki mætt á fundinn.