19.10.1977
Efri deild: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

25. mál, almannatryggingar

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég fagna alveg sérstaklega 1. gr. þessa frv. og um leið því sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan um reglugerð sem ákvæði nánar um það, hvernig með þessa 1. gr. skyldi farið. Hér held ég að hafi verið um ágæta og þarfa lagfæringu að ræða, því að margháttaður er vandi þessa fólks sem býr eitt og á við tekjutrygginguna eina að búa. Hjá þessu fólki er aukakostnaður ærinn, ekki síst hitunarkostnaður þess fólks sem býr við olíukyndingu.

Það er auðvitað mála sannast, að það er ljóst að þetta ákvæði er allvandmeðfarið í framkvæmd, og því er ánægjulegt að þar hefur komið til reglugerð og þær reglur og þau mörk önnur sem Tryggingastofnunin eða umboðsaðilar hennar miða við.

Um þessi atriði urðu allmikil blaðaskrif í sumar, og ég dæmi ekkert um réttmæti þeirra, en ég veit að hér er oft erfitt um að dæma. Það verður eflaust reynt að fara í kringum þetta af einhverjum. En ég hygg þó að meiri hætta sé á að þeir, sem ótvíræðan rétt eiga, nýti hann ekki og sæki jafnvel ekki um, þó að hæstv. ráðh. upplýsti áðan að svo mikill fjöldi umsókna væri þó kominn sem raun bar vitni.

Ég legg sem sagt aðaláherslu á það, að séð verði svo um að Tryggingastofnunin komi þessu sem best frá sér. Sjálfsagt hefur þetta verið sent í bæklingsformi, eins og Tryggingastofnunin hefur yfirleitt gert, til hvers elli- og örorkulífeyrisþega, með þeim skýringum, að þetta eigi auðvitað eingöngu við það fólk sem býr við tekjutryggingu. En oft nægir það ekki, og ég hygg að umboðsaðilar Tryggingastofnunarinnar þurfi að vera vel vakandi til þess ekki einungis að óverðugir njóti ekki ranglega þessarar uppbótar, heldur enn frekar, að hinir verðugu og þeir, sem mest þurfa á að halda, njóti þessa mikilvæga réttar, því að hér er um þýðingarmikið atriði að ræða sem vegur býsna þungt í lífsframfæri þessa fólks.

Ég þekki því miður dæmi um hvort tveggja: Aðila sem ég veit að hefur fengið samþykki og ég álít að sé hæpið að eigi að njóta þessa réttar. En ég veit hins vegar um fleiri en einn og fleiri en tvo sem hafa ekki hlotið þessa uppbót, bíða e.t.v., en ég hygg að þeir hafi fengið óbeina synjun frá sínu umboði, en þó enn frekar vegna ónógrar vitneskju og þess jafnvel, að sumu af þessu fólki finnst að hér sé um að ræða of mikið umstang, svo sem algengt er hjá fólki á þessum aldri. Það má kannske segja að fólki, sem bjargar sér ekki til að ná í þessa sjálfsögðu uppbót, sé ekki viðbjargandi. En sannleikurinn er sá, að þetta fólk gerir oft minni kröfur en ýmsir aðrir og finnst Ýmislegt varðandi umsóknir um þetta eða hitt vera ansi mikil fyrirhöfn. Ég legg því aðaláherslu á bæði góðar upplýsingar og jafnvel vissa aðstoð umboðsaðila til handa þessu fólki, þar sem víða úti um land gjörþekkja þessir aðilar hvernig ástandið er. Þegar þetta mál verður tekið fyrir í n, mun ég einnig óska þess sérstaklega, að þá liggi fyrir okkur, til þess að við getum séð það, sú reglugerð, sem gefin hefur verið út, og þær reglur, sem Tryggingastofnunin hefur að öðru leyti sett um úthlutun þessara bóta, svo að við fáum að sjá þessar reglur okkur til frekari glöggvunar. En ég fagna sem sagt bæði þessu frv.-ákvæði og eins því, að nú skuli hafa verið sett skýr og ég vona ákveðin reglugerð um þetta.