14.12.1977
Neðri deild: 29. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í B-deild Alþingistíðinda. (861)

130. mál, skyldusparnaður og ráðstafanir í ríkisfjármálum

Benedikt Gröndal:

Virðulegi forseti. Alþfl. gerir ekki ágreining við hæstv. ríkisstj. um hin yfirlýstu meginmarkmið hennar að ná jöfnuði í rekstri ríkissjóðs, draga úr verðbólgu og minnka greiðsluhallann. Hins vegar fer ekki á milli mála, að það er ærin ástæða til að deila um þær aðferðir, sem ríkisstj. beitir, og þær till., sem hún hefur látið rigna yfir alþm. undanfarna tvo daga eða sérstaklega undanfarnar klukkustundir.

Það er nú loks á allra vitorði, að kjarni þess vanda, sem við er að glíma á fjárhagssviðinu, er að ríkisútgjöld muni hækka um 18.3 milljarða, en á móti því er sagt að almennar tekjur ríkisins muni líka hækka um 10.2 milljarða. Þetta fjalla menn yfirleitt um sem einhvers konar jólagjöf, þetta dragi úr því hve vandinn sé gífurlega mikill.

Ég vil vara við þeim hugsunarhætti og biðja menn að gera sér grein fyrir að í raun og veru verður landsfólkið að standa undir 18.3 milljörðum — einhvers staðar verður það fé tekið. Sem dæmi get ég nefnt nokkur atriði, sem falla inn í útkomuna, að almennar tekjur ríkissjóðs hækki um 10.2 milljarða. Þar með er talið það bragð, að kukla við skattvísitöluna og haga henni á þann hátt að tekjuskattar hækka nm rúmlega 2 milljarða. Þetta eitt er ekki lítil ný skattlagning, og ég tel, að það sé gáleysi sem jaðrar við blekkingu að tala um að þetta sé eðlileg, almenn hækkun á ríkistekjum. Þessi tala ætti að vera hreinlega viðurkennd sem nýjar álögur á greiðendur tekjuskatts, og munu þeir verða fáir sem sleppa við einhvern hluta af þeirri upphæð.

Við höfum fengið að heyra í gær og í dag, að fram fari mikill niðurskurður á ríkisútgjöldum og þykir það í sjálfu sér alltaf góðra gjalda vert, eins há og fjárl. eru nú orðin. Sumt af þessu kemur þó dálítið einkennilega út. Ég rak augun í litla fyrirsögn í einu stjórnarblaðinu í dag, þar sem stendur: „Lyfjakostnaður ríkisins lækkar.“ Þetta hljóðar býsna vel. Þarna eru sparnaðarmenn á ferð. En það hefði alveg eins mátt segja sannleikann og hafa fyrirsögnina: „Lyfjakostnaður fólksins hækkar.“

Það er ekki merkilegur sparnaður í ríkisrekstri að flytja væntanlega nokkur hundruð millj. af kostnaði við lyf af herðum almennings og yfir á þá sem verða að nota lyfin. Stundum er talað um að lyfjanotkun sé orðin allt of mikil og verði að gera fjárhagsráðstafanir til að reyna að draga úr henni. Það er búið að reyna þetta með brennivínið í marga áratugi með litlum árangri, og ég efast um að það takist með lyfin, en í öllu falli er ekki um neitt slíkt að ræða, slíkar afsakanir eru ekki færðar fyrir þessu í dag. Það er hreinlega til að koma við svokölluðum „niðurskurði“, sem þessi útgjöld eru færð yfir á þá sem þurfa að kaupa lyf, og við vitum öll hversu þungur baggi lyfin eru t.d. fyrir gamla fólkið.

Verulegur liður af niðurskurðinum er einnig það sem kallað er lækkun eftirvinnu. Ekki skal ég hafa á móti því ef hægt væri að draga úr henni, því að hún er allt að því þjóðarböl hér á Íslandi. En ég verð að segja, að mig grunar að þetta geti reynst tálvonir því að það hafi oft áður orðið minna um efndir en óskir í þessum efnum. Þá liggur nærri að spyrja í sambandi við upplýsingar sem nýlega voru gefnar hér á Alþ.: Á að skera niður fastar eftirvinnugreiðslur til launahæstu embættismanna ríkisins? Trúir því nokkur, að það verði snert við slíkri eftirvinnu? Ætli það verði ekki litla fólkið í lágu launaflokkunum sem fyrst og fremst verður svipt þeirri eftirvinnu sem það kann að hafa fengið?

Það, sem gerist í þessum málum þegar litið er á þau sem heild, og ég er sammála hv. 2. þm. Austurl. um að það verður að líta á þau sem eina heild, er m.a. að opinberar framkvæmdir eru dregnar saman, en á hinn bóginn á einkaneyslan sífellt að aukast, Fer ekki á milli mála að það er meginstefna a.m.k. Sjálfstfl. og raunar ríkisstj. allrar, því að framsóknarmenn mótmæla ekki, að draga úr hinum félagslega bætti í þjóðlífinu, en auka einstaklingsþáttinn. Við getum litið á einstök dæmi og séð hvernig þetta kemur út, Við greiddum atkvæði um fjárl. í dag við 2. umr., og við vitum, að framkvæmdafé til skóla, sjúkrahúsa, barnaheimila, íþróttamannvirkja og annars slíks var skorið svo við nögl, að það mun verða kvartað sáran í öllum landshlutum, En einkaneyslan eykst stórkostlega, bæði í milljörðum og prósentum, og hún þýðir að verslunarhöllin, skýjakljúfurinn mikil, og aðrar verslunarbyggingar halda áfram að rísa. Þetta eru þær þjóðfélagsbreytingar, sem sjálfstæðismenn dreymir um, í mjög einföldu dæmi,

Mig grunar að menn muni átta sig á þessu, þó að hitt sé öllum ljóst, að takmörk eru fyrir því. hve skattheimta geti verið mikil. Það er dálítið forvitnilegt að Framsfl.-menn skuli sigla með í þessari ferð, þeir sem ávallt hafa talið sjálfa sig í hugsjónaflokki félagshyggjumanna, en það virðist nú vera algjörlega gleymt.

Þegar sagt er að æskilegra hefði verið að ríkisstj. hefði valið aðrar leiðir en almennt eru farnar í þeim frv., sem við höfum nú til meðferðar, og í fjárlagafrv., þá er fyrst á að benda að tekjuskattar og aðrir skattar á einstaklinga eru hækkaðir um milljarða, en ekki lagt neitt á veltu fyrirtækjanna og félaganna í landinu, þó að vitað sé að hundruð fyrirtækja fara ótrúlega vel út úr skattheimtu hins opinbera, þannig að vafasami er að sambærileg dæmi séu til í nágrannalöndum.

Í öðru lagi bólar ekki á því nokkurs staðar, að skorið sé í báknið sem svo er kallað. og vantar þó ekki að það sé básúnað út — sérstaklega af Sjálfstfl. — að það þurfi að koma bákninu burt. Það virðast aðeins vera framkvæmdirnar sem skornar eru niður.

Það er viðurkennt meira eða minna af öllum flokkum, að gerð fjárl. sé þvinguð, að ekki sé meira sagt, vegna þess hve mikið af útgjöldum eru lögbundið. Margt af því er þess eðlis, að skattpeningar almennings eru teknir og settir í útlánasjóði til að koma upp mannvirkjum. Þessi stefna hefur verið rekin í 30–40 ár og sífellt aukin, þannig að það er minna og minna, sem þingið sjálft getur ákveðið, vegna fyrri ákvæða. En það virðist ekki hafa orðið samkomulag um að gera neinar breytingar á þessum hlutum.

Loks má minna á að núv. ríkisstj, hefur hvað eftir annað lofað stórfelldum umbótum á skattakerfinu. Í fyrravetur lofaði sjálfur hæstv. forsrh. að slíkt frv. skyldi afgreitt fyrir jól, en veturinn dugði ekki og enn bólar ekki á því. En með umbótum á skattakerfinu ætti að vera hægt að draga stórkostlega úr skattsvikum og tryggja þannig nýjar tekjur upp á mörg hundruð milljónir, auk þess sem kerfið yrði gert mun réttlátara, þannig að þjóðin mundi una betur við.

Fleiri leiðir mætti nefna, sem hæstv, ríkisstj. hefur ekki viljað fara, en í stað þess seilist hún til að leggja nýjar álögur á almenning.

Í því frv., sem nú er til umr., er skyldusparnaðurinn að sjálfsögðu meginatriði, þó að hann sé ekki einn af veigamestu liðum í aðgerðunum þegar litið er á þær í heild. Ég mun ekki andmæla honum, nema í ljós komi að framkvæmd hans muni fara of langt niður eftir tekjustiganum. Þegar vandi er við afgreiðslu fjárl. er ekki óeðlilegt að líta til hátekjugjaldenda og sjá, hvort þeir geti ekki borið örlítið meira til þess að þurfa ekki að leggja á allan almenning.

Nú er ætlunin að tvöfalda flugvallagjald, og það er vafalaust vinsæl hugmynd, Það hefur loðað lengi við og var svo til skamms tíma, að ferðir til útlanda voru taldar vera lúxus hér á Íslandi. Þótti því ekki óeðlilegt, að þær væra skattlagðar, bæði með flugvallagjaldi og jafnvel við gjaldeyrissölu til ferðamanna. En ég vil minna á þá þróun sem hefur orðið á síðustu árum, að skipulagðar hópferðir til annarra landa eru orðnar þáttur í lífi alls almennings í landinu. Fólkið, sem tekur þátt í þessum hópferðum, er fólk af því tagi, sem í íslensku þjóðfélagi fyrir 10–20 eða 30 árum hefði aldrei komist út fyrir pollinn né fengið að njóta orlofs í sól einu sinni. Ég geri töluverðan mun á þessum ferðamönnum og þjónum eða gæðingum kerfisins sem fara oft til útlanda á hverju ári og nálega alltaf á kostnað einhvers annars — oft skattgreiðenda eða fyrirtækja. Ég tel það allt annað viðhorf að taka aukið flugvallagjald af slíku flugi heldur en að leggja það á orlofshlunnindi, sem eru mikill þáttur í bættum lífskjörum alls almennings hér á landi síðustu árin.

Um bensíngjaldið mætti flytja langt mál, eins og hv. síðasti ræðumaður kom inn á, um samband þess við vegaframkvæmdir, um söluskattinn af því o.fl. En ég ætla að henda á eitt atriði í þessu sambandi. Ég undrast að það skuli koma fram frv. með grein um bensíngjöld og að það skuli ekki vera lagt neitt sérstakt gjald á þær bifreiðar sem eyða óhóflega miklu eldsneyti, Það eru slík frv, sem fara nú í gegnum þjóðþing nálega allra nágrannaríkja okkar. Lög þar refsa mönnum fyrir að nota bifreiðar sem eyða óhóflega miklu gjaldi, en hafa auðvitað fyrst og fremst fyrirbyggjandi áhrif og hindra að slíkar bifreiðar séu yfirleitt keyptar til landsins. Það þarf ekki nema líta á einhverja götu eða einhvern vegarspotta hér á landi til að sjá að það er fullkomin ástæða til að við tökum upp hið sama og allir aðrir hafa gert, af orkusparnaðarástæðum ekki síður en til fjáröflunar. Ég skal ekki segja hvort það mundi vega þungt í dæminu okkar stóra, en engu að síður mundi það vera aðgerð af því tagi sem allur almenningur mundi telja skynsamlega og horfa í rétta átt.

Hvað sem sagt er um vegakerfi og þörf fyrir stórfelldar aðgerðir á því sviði skulum við ekki gleyma því, að bíllinn hefur þó orðið almenningseign hér á landi á síðustu árum. Við skulum gæta þess að þrýsta ekki rekstrarkostnaði smárra og hóflegra bifreiða svo upp að venjulegir launamenn þurfi að neita sér um að eiga bifreiðar.

Um jöfnunargjald á sælgæti, brauðum og öðru slíku hef ég fátt að segja og get gjarnan samþykkt það. Hins vegar vekur það athygli, þegar frv. um slíkt gjald kemur fram, vegna þess að oft hefur verið talað um hvers vegna ríkisstj. beitti ekki meir hagstjórnartækjum af þessu tagi til að reyna að draga úr óhagstæðum verslunarjöfnuði. Því er að sjálfsögðu borið við, að við séum þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi um viðskipti og getum því ekki skorið okkur úr með því að hlaða upp einhvers konar höftum. Þetta er að sjálfsögðu rétt, og sú hætta er fyrir hendi, ef of langt yrði gengið á þessari leið, að við gætum fengið á okkur mótaðgerðir varðandi okkar eigin afurðir í öðrum löndum. Engu að síður hygg ég að nálega hver þjóð komist upp með að gera töluvert miklu meira, eftir því sem henni finnst hún sjálf þurfa, heldur en við höfum gert hér.

Herra forseti. Um ríkisútvarpið nýja ætla ég ekki að ræða, fyrr en það kemur á dagskrá, og frekari grein fyrir afstöðu Alþfl, til þessara mála mun að sjálfsögðu koma fram við 2. umr. eða í nál.