14.12.1977
Neðri deild: 29. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (862)

130. mál, skyldusparnaður og ráðstafanir í ríkisfjármálum

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Nú er kominn sá tími hér á hv. Alþ., að frv, og þar með bjargráðum hæstv. ríkisstj. rignir yfir þingheim, svo að vart gefst tími til að lesa mikið af þessum plöggum.

Um það frv., sem hér er til umr., skal ég ekki vera langorður. Aðalatriðið, að því er mér virðist, í þessu frv, er skyldusparnaðarákvörðun. Ég fyrir mitt leyti er ekki andvígur þeirri ráðstöfun. Það er að vísu alltaf spurning hvar eigi að setja mörk, bæði að því er varðar tekjuupphæðina og eins hitt, sem er spurning í mínum huga, hvort æskilegra hefði verið að hafa breytilega prósentu eftir því sem tekjur hækka. Þetta er í mínum huga ekkert meginatriði, en vel mætti athuga það, Ég vil strax við þessa 1. umr. taka fram, að ekki er um að ræða varðandi þetta frv. neinn sérstakan ágreining, að því er ég fæ séð. Miklu frekar er um að ræða ágreining og spurningar sem svara þarf í þeim frv. sem hér verða til umr. á eftir væntanlega, þ.e.a.s. frv. um sjúkratryggingagjaldið og frv. um vörugjaldið, hið margumtalaða tímabundna vörugjald. Nú er þetta vörugjald búið að standa líklega í þrjú ár og á að standa hið fjórða. Svo er einnig væntanlega til umræðu á eftir hækkun á bensíngjaldi.

Ég vildi þó strax við þessa 1, umr., þar sem þannig er nú háttað, að við eigum ekki fulltrúa í þeirri n. sem þetta frv, fer væntanlega til, gera grein fyrir þeirri afstöðu okkar, að við erum ekki ósammála hæstv. ríkisstj. um meginatriði frv. Ekki hef ég því ástæðu til þess að fara mörgum orðum um það. En auðvitað er það rétt, að þessi frv. öll eru að meira eða minna leyti þannig samofin, að kannske er ástæða til að ræða þau öll í samhengi, Ég ætla þó að geyma mér frekari umr. um það mál þar til seinni frv. koma til umr. síðar á fundinum,