14.12.1977
Neðri deild: 29. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (869)

129. mál, fjáröflun til vegagerðar

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er flutt í tengslum við afgreiðslu fjárlagafrv. Með frv. þessu er lögð til. nokkur aukning á fjáröflun til vegagerðar, en þó er sú aukning um 300 millj. kr. lægri en gert var ráð fyrir. Hef ég þegar gert grein fyrir þessari breytingu í framsögu minni fyrr í kvöld með frv. um skyldusparnað og ráðstafanir í ríkisfjármálum. Auk tekjuákvæðanna er að finna í frv. ákvæði sem ætlað er að kveða skýrar á um nokkur atriði er að innheimtu þessara gjalda lúta og ljós ákvæði skortir um í gildandi lögum.

Bensíngjald er nú 23.28 kr, á hvern lítra. Samkv. lagaheimildum má um næstu mánaðamót hækka gjald þetta upp í 29 kr. Frv. gerir ráð fyrir að heimild fáist til að bæta 7.50 kr. á hvern lítra umfram 29 kr.

Lagt er til að árlegur þungaskattur dísilbifreiða verði hækkaður. Hækkun hans er heldur meiri en hækkun bensíngjaldsins og stafar það af því, að gjöld af dísilbifreiðum vilja jafnan dragast aftur úr gjöldum af bensínknúnum ökutækjum, þar sem örðugt er að breyta þungaskattinum jafnhlíða breytingum á byggingarvísitölu.

Ákvæði gildandi laga um viðurlög eru gerð skýrari með þessu frv. en verið hefur. Er þá sérstaklega við það miðað, að ákvæði um dagsektir fyrir að færa eigi bifreiðar til mælaálesturs verði virk, en að undanförnu hefur dagsektum ekki verið beitt vegna réttaróvissu.

Þá er tekið inn í frv. þetta ákvæði um dráttarvexti sambærilega þeim sem nú eru í lögum um tekjuskatt og eignarskatt og lögum um tekjustofna sveitarfélaga.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, leggja til að þessu frv. verði eins og hinum, sem ég hef mælt hér fyrir, vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. fjh: og viðskn.