14.12.1977
Neðri deild: 29. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

129. mál, fjáröflun til vegagerðar

Lúðvík Jósepsson:

Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Ég vísa líka til þess, sem ég hef sagt áður í umr, um hin dagskrármálin sem hér hafa verið rædd. Mér sýnist að samkv. þessu frv. sé ekki einasta gert ráð fyrir því, að bensíngjaldið til Vegasjóðs verði hækkað um 13.22 kr. á lítra, heldur einnig því, að síðan megi búast við frekari hækkun á þessu bensíngjaldi þegar líður fram á árið, því í aths. við 2. gr. frv. er beinlínis sagt, að sú sé ástæða fyrir því að hafa samkv. þessu frv. hinn svonefnda þungaskatt af þeim bifreiðum, sem nota annað eldsneyti en bensín, nokkru hærri en sem samsvarar bensínhækkuninni, að það gjald sé ákveðið fyrir allt árið, en hins vegar geti komið til frekari hækkunar á bensíni síðar á árinu, eða eins og segir þarna í umsögninni um 2. gr.: „Hækkun hans er heldur meiri en hækkun bensíngjaldsins og stafar það af því, að ekki kemur til frekari hækkunar þessa skatts á árinu.“ Þungaskattsins sem sagt. Maður getur því búist við því, að heimildir verði notaðar til að auka þetta bensíngjald síðar.

Mér sýnist líka að það sé nokkuð augljóst, að þar sem ríkissjóður tekur fullan söluskatt af útsöluverði á bensíni fái hann af þessari hækkun, þegar bensíngjaldið til Vegasjóðs hækkar um 13.22 kr. á lítra, nokkurn veginn örugglega af þeirri hækkun 350 millj, kr. miðað við árssölu, svo framarlega sem hann tekur söluskattinn af þessu eins og gert hefur verið. Það er einmitt þetta sem ég hef verið að finna að, að framlag til Vegasjóðs eftir þessari leið skuli um leið vera notað sem beinn tekjustofn fyrir ríkið, en auðvitað ætti að líta allt öðrum augum á það mál.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða frekar um efni þessa frv. Ég hef sagt það áður, að ég tel að það hefði vel komið til greina að hækka gjaldið til Vegasjóðs miðað við stöðu hans, en það er fyrst og fremst hitt, sem ég tel óeðlilegt, að þetta færi ríkissjóði allar þær tekjur sem það gerir, bæði hækkun sú, sem nú yrði, og þær hækkanir, sem á undan eru komnar.