14.12.1977
Neðri deild: 29. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (878)

131. mál, jöfnunargjald af sælgæti, brauðvörum o.fl.

Lúðvík Jósepsson:

Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni alveg nýtt frv. Maður hefur ekki séð neitt þessu líkt í langan tíma, og hér er ríkisstj. sýnilega að fara inn á nokkuð nýja braut. Við þekkjum það, að mjög hefur verið haft í frammi að ekki væri hægt að sýna Íslenskum iðnaði neina tillitssemi í sambandi við breytingar á aðlögunartíma samkv. EFTA-samkomulagi, vegna þess að það kynni að brjóta í bága við það samkomulag, en svo kemur hér frv. sem gerir ráð fyrir að taka upp sérstakt verndargjald fyrir sælgætisiðnað m.a. Mér er ómögulegt að sjá annað en að hér sé raunverulega verið að taka sælgætisiðnaðinn alveg út úr og ætla honum sérstök hlunnindi, greinilega umfram það sem ættast er til og gert var ráð fyrir í sambandi við EFTA-samkomulagið, því þó að það ákvæði hafi komið síðar til. að það mætti leggja á gjald af þessari tegund, eins og fram kemur í grg. með þessu frv., þar sem um væri að ræða mjög breytilegt gjald í hinum ýmsu löndum, sem eiga aðild að EFTA eða EBE, varðandi hráefni úr landbúnaðarvörum, þá á það ekki við nema að sáralitlu leyti við okkar sælgætisframleiðslu. Ég held t.d. að ekki verði talið til hráefnisvöru úr landbúnaði sem neinu nemur það sem fer í lakkrís- og sykurvöruframleiðslu, brjóstsykur og sælgætistöflur, tyggigúmmíi og karamellur og annað af þessu tagi. Ég held, að það geti ekki verið að þessi iðnaður byggi framleiðslukostnað sinn að nokkru teljandi ráði á hráefni frá landbúnaði. (Gripið fram í.) Já, nema að því leyti til, að sykurinn er landbúnaðarvara, en það á ekki við hjá okkur. Hins vegar er það rétt, að efalaust getur að einhverju leyti komið inn í vissar greinar brauðframleiðslu hjá okkur, að þetta væri hægt. En ég efast ekki heldur um það, að við gætum gert hliðstæðar ráðstafanir fyrir aðrar greinar okkar iðnaðar til jafnvægis við það sem önnur lönd, sem eru aðilar að EFTA, hafa gert í ýmsum tilfellum.

Ég minnist þess líka, að þegar samkomulagið við EFTA var gert var verið að aumkast alveg sérstaklega yfir sælgætisiðnaði okkar og hann fékk alveg sérstaka meðferð. Hann var ekki talinn fær um það að keppa við erlendan sælgætisiðnað og fékk því lengri aðlögunartíma og betri meðferð en annar iðnaður. Enn reynist þetta þannig. Sem sagt: þar sem neyðin er stærst er hjálpin auðvitað næst. Það er enginn vafi á því, að fljótlega er hlaupið til í þessu tilfelli þar sem er um vissar greinar iðnaðar að ræða, eins og sælgætisiðnaðinn þarna, en hins vegar er öllu borið við þegar þarf að glíma við vandamál í öðrum greinum okkar iðnaðar.

Hér er líka sagt í grg., auðvitað alveg berum orðum, sem rétt er: „Hingað til hefur ekki verið talið fært að standa við þá skuldbindingu gagnvart EFTA og EBE að afnema innflutningshöft á sælgæti, en jöfnunargjaldið á að gera það kleift að svo verði gert.“ Það á sem sagt að fullnægja samningnum með því að setja annað gjald sem þarna á að koma í staðinn.

Hér er um minni háttar mál að ræða að mínum dómi, og það verður að sjálfsögðu skoðað í þeirri n. sem fær málið til meðferðar, hvort þetta samrýmist fremur þeim reglum, sem talið er að við séum bundnir af, en aðrar breytingar. En það, sem ég vildi sérstaklega vekja athygli á, er að í sífellu er verið með alls konar fyrirslátt og sagt að ekki sé hægt að verða við beiðni þess iðnaðar okkar, sem á í vök að verjast og hefur mikið gildi í okkar efnahagsstarfsemi, en þegar vissir, tilteknir aðilar, sem hafa sáralítið gildi í okkar atvinnulífi, mæta einhverjum vanda er fljótlega komið með frv. af því tagi sem þetta er.