14.12.1977
Neðri deild: 29. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

126. mál, almannatryggingar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. er um breyt, á lögum nr. 9 12. apríl 1977, sbr, lög nr. 95 31. des. 1975, um breyt. á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að á árinu 1978 verði lagt á sjúkratryggingagjald, eins og það er kallað, hliðstætt því sem hefur verið lagt á á árinu 1976 og á árinu 1977. Sú breyting er gerð á þessum lögum, að í stað 1% sjúkratryggingagjalds af gjaldstofni álagðra útsvara verði það á næsta ári 2%, en áætlað er að þessi hækkun færi ríkissjóði nálægt 1900 millj. kr, auknar tekjur á árinu 1978.

Veruleg kostnaðaraukning við sjúkratryggingar er fyrirsjáanleg og þá ekki síst vegna launahækkana starfsfólks sjúkrahúsa, sem hafa verið mjög miklar á þessu ári vegna tilfærslna á launaliðum. Það mun vera meira en meðaltalshækkun á hinu almenna kaupi, en launatengd gjöld í sjúkrahúsa- og heilsuhælarekstri eru nálægt 70% af öllum rekstrarútgjöldum. Áætlað er að daggjöld á sjúkrahúsum og vistheimilum hækki um 1500 millj. kr. umfram það, sem gert er ráð fyrir í því fjárlagafrv. sem fyrir liggur, auk þess sem búast má við allverulegri kostnaðaraukningu á öðrum liðum sjúkratrygginganna. Útgjaldahækkun vegna útgjalda sjúkratrygginganna er því nálægt 3420 millj, kr. eða rúm 68.2% frá fjárl. þessa árs, og í heild er áætlað að aukning kostnaðar sjúkratrygginganna nemi um 4720 millj. kr, frá fjárl. yfirstandandi árs, eða nálægt 70%.

Þá er gerð nokkur breyting frá gildandi lögum varðandi það, að samkv. núgildandi lögum eru þeir gjaldfrjálsir sem ekki er gert að greiða útsvar. Þar sem útsvarshlutfallið er mismunandi eftir sveitarfélögum hafa þau mörk verið breytileg sem sjúkratryggingagjaldið hefur verið lagt á eftir og minnst hefur verið á. Í sveitarfélagi, sem hefur 10% í útsvar, hafa hjón sloppið við greiðslu sjúkratryggingagjalds vegna útsvarsleysis ef útsvarsstofn hefur verið 165 300 kr. eða lægri, en í sveitarfélagi með t.d. 3% útsvar sleppa hjón við sjúkratryggingagjald ef útsvarsstofn þeirra hefur verið um 605400 kr. eða lægri. Samsvarandi tölur fyrir einhleyping voru 120 900 kr. og 443 þús. kr. Því er lagt til í þessu frv., að þeir verði gjaldfrjálsir sem ekki hefðu greitt útsvar væri það 10% af gjaldstofni útsvara. Er það til þess að jafna þennan mismun sem verið hefur eftir einstökum sveitarfélögum, sem er að mínum dómi réttlátt að gera. Eins er nú lagt til að gjaldið verði lagt á af skattstjórum á öllu landinu, en ekki af álagningaraðila útsvars. Ég held að það sé réttara að gjald þetta sé lagt á af sama embættismanni yfir allt landið, en fari ekki eftir því, hvort það eru skattstjórar sem leggja útsvörin á í hinum einstöku sveitarfélögum, eða viðkomandi hreppsnefndir eða sérstakar niðurjöfnunarnefndir.

Ef við lítum á fjárlagafrv., sem fyrir liggur og var afgreitt í dag til 3. umr., var heildarkostnaður við sjúkratryggingarnar samkv. fjárl. ársins 1977 10 milljarðar 862 millj., en samkv. frv. fyrir árið 1978 14 milljarðar 84 millj., og er það um 3 222 millj. kr. hækkun á milli ára. En á þessu getur orðið nokkur breyting vegna þess að þessar tölur voru áætlaðar í sumar þegar fjárlagafrv, fór í prentun. Ef litið er á hækkun einstakra liða sjúkratrygginga kemur í ljós, að daggjöld á sjúkrahúsum og vistgjöld á hælum hækka um 1660 millj. frá síðustu fjárl. vegna hækkunar daggjalda á sjúkrahúsum, þ.e.a.s. frá 1. apríl um 4.5% að meðaltali og frá 1. júlí um 10.3% að meðaltali. Þá var í frv. gert ráð fyrir hækkunum í sama hlutfalli og gildir um hækkun launa fyrir síðari hluta þessa árs og hækkun launa á árinu 1978. Hér mun vera um eitthvað of lága áætlun að ræða sem verður vafalaust leiðrétt fyrir 3, umr., vegna þess að vistgjöld hækkuðu verulega frá 1. nóv., eða um 20% að jafnaði, sem olli um það bil 248 millj. kr, útgjaldaaukningu í des. En það þýðir ekki að sú útgjaldaaukning sé hlutfallslega jafnmikil á árinu 1978, vegna þess að í þessum ákvörðunum um daggjöld fyrir síðustu tvo mánuði þessa árs — eða fyrir nóvember og desembermánuð — eru aukagjöld og hallagjöld af rekstri sjúkrahúsa, sem vantalin voru fyrr á árinu. Mig minnir að þessi útgjöld séu á árinu 1978 eitthvað 2 milljarðar kr.

Í þessu sambandi er einnig rétt að minna á að lífeyristryggingarnar hafa hækkað mjög verulega frá fjárl. ársins 1977, eða úr 12116 millj. í 16 milljarða 387 millj., sem er næstum því 4.3 milljarðar á milli ára, og nú nýlega hafa allar lífeyristryggingar hækkað um 20% og auk þess nýjar tryggingar, sem upp voru teknar og voru gerðar í samræmi við samkomulag um lausn vinnudeilnanna á s.l. sumri. Hin svokallaða heimilisuppbót sem þá var um samið, 10 þús. kr., hefur nú einnig hækkað í 12 þús, kr.

Heildaraukning kostnaðar við lífeyristryggingar er þannig næstum því 4400 millj. kr. eða 35% hækkun frá fjárl. yfirstandandi árs. Þar af koma 3 780 eða 86% í hlut ríkissjóðs og 615 millj. eða 14% í hlut atvinnurekenda. Ástæður fyrir þessari hækkun lífeyristrygginga, auk eðlilegrar mannfjölgunar í hverjum bótaflokki, eru fyrst og fremst tvær: Í fyrsta lagi hafa orðið bótahækkanir frá samþykkt síðustu fjárl., þ.e. 8% frá 1. mars og 27.5% frá 1. júlí og svo nú 20% hækkun frá 1. des. Auk þess er áættað fyrir bótahækkunum til samræmis við þar forsendur sem fjárlagafrv, er byggt á hvað varðar hækkun launa. Þetta gjald, sem frv. gerir ráð fyrir og er ætlað að gefi ríkissjóði um 1900 millj. kr., er því ekki nema lítill hluti af þeim gífurlegu hækkunum sem orðið hafa á sjúkratryggingunum og lífeyristryggingunum. Lífeyristryggingarnar hafa hækkað í fullu samræmi við meðaltalshækkun launa samkv. lögum á hverjum tíma, en á sjúkratryggingunum hafa hækkanirnar orðið mun meiri af þeim ástæðum sem ég gat um áðan.

Nú má segja að það megi fara ýmsar aðrar leiðir í þessum efnum, það megi fara yfir í einhverja aðra og nýja skattlagningu, það megi taka upp persónugjald, eins og var hér lengst af, til almannatrygginga. Það var fellt niður á tímabili fyrrv. ríkisstj. Það má einnig segja að taka megi upp takmörkuð daggjöld á sjúkrahúsum til þess að vega eitthvað upp á móti þessum kostnaði. Allt þetta kemur mjög til greina og til athugunar. En þegar við litum á þessar leiðir allar, þá er hér lagt til að þetta gjald verði lagt á eftir tekjum manna, skattskyldum tekjum, þannig að þeir, sem hæstar tekjurnar hafa, beri hlutfallslega mest af þessu gjaldi, en það er ekki tekinn upp nefskattur, Hins vegar er nú mun betur fyrir því séð eftir reynslu af þessu gjaldi á árinu 1976, að það nær ekki til þeirra sem litlar sem engar tekjur hafa og þurfa ekki að greiða útsvar. Fyrir því er séð með orðalaginu sem er á þessu frv. núna.

Herra forseti, Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr, og hv. heilbr.og trn.