14.12.1977
Neðri deild: 29. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

126. mál, almannatryggingar

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér ekki hljóðs til þess að, taka þátt í deilum um það, hvort þetta gjald, sem fyrirhugað er að leggja á og hækka, sé réttlætanlegt eða ekki réttlætanlegt, né heldur, ef það er lagt á, hvaða leiðir eru til þess valdar. Um það má að sjálfsögðu deila. Ég hygg þó, að úr því að ákveðið er að stefna að því að leggja þetta gjald á sé skást að gera það á þann veg sem frv. gerir ráð fyrir vegna þess að þar næst einmitt til þeirra einstaklinga sem nefndir voru í ræðum tveggja hv. síðustu ræðumanna, til þeirra einstaklinga sem hafa sloppið við tekjuskatt til ríkisins, en greitt veruleg útsvör. Með því að leggja gjaldið á útsvarsstofn næst einmitt til þeirra einstaklinga miklum mun frekar en ef farið væri eftir sömu reglum og tekjuskatturinn er lagður á.

En ástæðan fyrir því, að ég kvaddi mér hljóðs, er sú, að ég vil biðja hv. þingnefnd, sem fjallar um þetta mál, að taka eitt atriði til athugunar. Eins og menn muna, voru lög um sjúkratryggingagjaldið sett í árslok 1975 og komu í fyrsta sinn til framkvæmda árið eftir, við álagningu sumarið 1976. Þá kom í ljós að Alþ. hafði sést yfir varðandi stöðu elli- og örorkulífeyrisþega. Til þess að leiðrétta það voru sett brbl. það sumar sem leiðréttu þessa hluti að verulegu leyti, en þó ekki alveg.

Við breytingu á þessum lögum frá 30. mars í fyrra var gert ráð fyrir því að nú yrði um ríkisinnheimtu að ræða, en ekki á vegum sveitarfélaganna, þannig að þessi gjaldtaka er engan veginn lengur á vegum sveitarfélaganna. Jafnframt var gert ráð fyrir því, að þeir, sem væru svo tekjulágir, að þeir næðu ekki útsvari, yrðu undanþegnir gjaldinu. Mátti ætla að í flestum sveitarfélögum, þar sem sveitarstjórnir gerðu ekki ráð fyrir að lagt yrði á elli- og örorkulífeyri, sbr. heimildarákvæði í lögum um tekjustofna sveitarfélaga, mundu elli- og örorkulífeyrisþegar yfir höfuð vera undanþegnir gjaldinu. Mér er hins vegar kunnugt um það — hef um það bein dæmi án þess að hafa í höndum nein gögn um hvernig niðurstaðan hefur orðið vítt og breitt um landið — að útkoman við álagningu í sumar hefur orðið þannig, að elli- og örorkulífeyrisþegar, sem hafa haft tiltölulega litlar tekjur umfram elli- og örorkulífeyri, hafa fengið sáralítið útsvar, þeir hafa nægilega miklar tekjur til þess að ná útsvarsgreiðslu, en lágmarksútsvarið eða sú upphæð, sem menn þurfa að fá i útsvar án þess að það sé endilega fellt niður, er tiltölulega lág, mig minnir að það séu 1500 kr. Hafi þeir náð þessari upphæð er sjúkratryggingagjaldið lagt á allan stofninn með fullum þunga, að vísu samkv. þeim frádráttarheimildum eða ákvæðum sem eru í frv. Ég veit að það eru dæmi til þess, að þetta fólk hefur fengið allmiklu hærra sjúkratryggingagjald en sjálft útsvarið nam.

Ég tel rétt, áður en frv. kemur aftur frá n. til þessarar d., að hún kanni þessi atriði, kanni hvort mikil brögð eru að slíkri álagningu, kanni hvort hægt er að bæta inn í frv. viðbótarákvæðum, þannig að því marki verði náð að ellilífeyrisþegar þurfi ekki að greiða sjúkratryggingagjald, þótt þeir hafi tekjur sem nemi allt að því eins miklu og sjálfar ellilífeyrisgreiðslurnar eru.

Ég held að það sé töluvert andstætt fólki, sem þurfti ekki að greiða almannatryggingagjaldið fyrrum, eftir að það hafði náð 67 ára aldri, og hefur auðnast að vísu líf og kraftar fram á þennan dag, hefur kannske búið við það í 15–20 ár að greiða ekki til trygginganna, ef það stendur frammi fyrir því í dag, með svipuð kjör og það hafði, að greiða nú allt í einu til þessara trygginga. Ég held það sé andstætt þeirri hugmynd sem er á bak við töku þessa gjalds og andstætt við þeirra eigin hugmyndir um að það eigi ekki að standa í slíkum greiðslum.

Herra forseti. Erindi mitt var sem sagt að koma þessu atriði á framfæri við n. Ég vona að hún taki það til athugunar.