14.12.1977
Neðri deild: 29. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

126. mál, almannatryggingar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Út af orðum hv. síðasta ræðumanns, 4. þm. Vestf. er í þessu frv. breytt frá gildandi lögum um sjúkratryggingagjald á þann veg, að nú gætir fyllsta samræmis við álagningu gjaldsins, en þess gætti nokkuð, þegar fleiri en einn aðili lögðu þetta gjald á, að það var ekki alls kostar lagt á með sama hætti. Ég tel að með þeim undantekningum, sem um er getið í 2. tölul. 1. gr., komi slíkt ekki fyrir, því að gjaldið skal nema 2% af gjaldstofni álagðra útsvara 1978 — eingöngu álagðra útsvara. Þetta orkar því ekki tvímælis, eins og má segja að hafi gert fyrst og fremst eftir útgáfu brbl., sem voru gerð að mjög vandlega athuguðu máli, en náðu þó ekki, eins og hv. þm. bent á, í öllum tilfellum tilgangi sínum. Nú hefur þetta verið leiðrétt. Ég hygg að á þessu sé ekki hætta, enda var það aldrei tilgangur þessara laga.

Hv. 5. þm. Vestf. hafði fremur hátt í ræðu sinni — það kemur sennilega engum í hv. þd. á óvart — og talaði í nafni verkalýðshreyfingarinnar, eins og hann hefði einn allsherjarumboð fyrir hana. Það má segja að þar talaði sá sem valdið hefur. En ég ætla ekkert að elta ólar við hann í þeim efnum. Menn geta verið misjafnlega ánægðir með sig — og hví mega menn ekki vera ánægðir með sig?

Það er alveg rétt sem ég sagði 1975 í sambandi við álagningu þessa gjalds, að það var ekki hugsað nema til eins árs. En það hefur orðið, eins og margir fleiri slíkir skattar, langlífara en það átti að vera. Til þess að geta lagt niður einhverja skatta eða einhver tiltekin gjöld verður auðvitað að verða sú breyting á, að fjárþörf ríkisins fari minnkandi, en ekki vaxandi.

Ég er ekki á sama máli og hv. 2. þm. Austurl., að það hafi verið alveg hárrétt stefna, að afnema nefskattinn á sínum tíma. Það hafa margir viljað líta svo á, að þessi nefskattur hafi verið nokkurs konar iðgjald sem hver og einn borgaði. Ég er hins vegar alveg sammála því, að slíkan nefskatt eiga ekki öryrkjar að borga eða fólk sem komið er á ellilaun. En það eru líka til þó nokkuð stórir hópar í þessu landi sem hreinlega hugsa um að hafa eiginlega aldrei tekjur, þannig að þeir borgi aldrei til sveitarfélaga og því síður ríkis. Ég veit ekki hvort það er eðlilegt, sjálfsagt og sanngjarnt að þetta fólk, ef það hefur fulla heilsu, eigi að sleppa árum saman. Ég er ekki alveg tilbúinn að láta þá skoðun í ljós.

Í sambandi við gjald á sjúkrahúsin, þá held ég að við eigum ekki að slá algjörlega striki yfir það og segja að ekkert slíkt komi til greina. Ég vorkenni hvorki mér né öðrum, ef við þurfum að leggjast inn á sjúkrahús, að borga eitthvert eðlilegt gjald, eins og fæðisgjald á sjúkrahúsum. Yfirleitt er það nú þannig orðið með fólk sem hefur fasta vinnu og leggst inn á sjúkrahús, að bæði hefur það fullt kaup og algjörlega frítt uppihald að öllu leyti. Um hitt er ég alveg sammála hv. 2. landsk. þm., að ekki á með þessu að taka upp bandaríska kerfið. Það er fjarri mér að vilja það. Ef slíkt verður tekið upp verður auðvitað að miða við einhvern hámarks dagafjölda á ári og þyrfti hann að vera a.m.k. innan við mánuð, jafnvel þrjár vikur, hálfan mánuð eða eitthvað þess háttar. Líka þyrfti að undanþiggja allt tekjulaust fólk slíku gjaldi, eins og öryrkja, ellilífeyrisþega og börn. Það væri hugsanlegt að hafa slíkt gjald eingöngu á þeim sem kæmu inn skamman tíma, væru á fullu kaupi og nytu fulls kaups á meðan þeir væru á sjúkrahúsum. Ég tel þetta ekkert fjarstæðukennt.

Ég vil biðja menn að athuga að sjúkratryggingarnar og lífeyristryggingarnar hækka a.m.k. um 8 þús. millj, frá árinu á undan. Hér er um að ræða tekjupóst fyrir ríkissjóð sem er upp á 1900 millj., þannig að þau verða alveg örugglega á sjöunda milljarð, aukaútgjöldin fyrir ríkissjóð vegna þessa. Það er auðvitað ákaflega gott að finna út, að hægt sé að spara í rekstri Tryggingastofnunarinnar, eins og 5. þm. Vestf. gat um. Kannske ætlaði hann að spara 8 milljarða í rekstri Tryggingastofnunarinnar eða meira en rekstur hennar kostar að öllu leyti, og þá mundu greiðslurnar sennilega koma bara af sjálfu sér til ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega. Svona þýðir auðvitað ekki að tala. Þetta er svo fjarri sanni. Það hefur ekki verið leyfð ein einasta stöðuheimild í Tryggingastofnuninni. Beitt hefur verið þar eins miklu aðhaldi og frekast hefur verið kostur. En ég er ekki þar með að segja að það megi ekki spara. Við höfum aldrei lokað augunum fyrir því. En þetta er auðvitað svo mikið tekið upp í sig, að engan veginn fær staðist að segja slíkt.

Tveir ræðumenn sögðu að þetta væri fyrst og fremst skattur á láglaunafólk. Það er alls ekki rétt. Þetta er auðvitað fyrst og fremst skattur á þá sem hæstu tekjurnar hafa. Það eru þeir sem verða að greiða mest af þessum skatti, þeir sem hafa hæstu tekjurnar,

Það kom að sumu leyti nokkuð á óvart, sem hv. 2. landsk. þm. sagði, að hann hefði heldur viljað taka þennan skatt í formi tekjuskatts. Það finnst mér vera snögg breyting frá því að vilja leggja tekjuskattinn alveg niður fyrir einu ári. Menn geta skipt um skoðun og er ekkert athugavert við það. En mér finnst bara miklu eðlilegra að taka þetta af þessum tekjustofni, af sama tekjustofni og stjórn, sem hv. 2. þm. Austurl. átti sæti í, markaði á sínum tíma með lögunum um tekjustofna sveitarfélaga. Við erum að leggja þennan skatt á sama tekjustofn og í hlutfalli við tekjur.

Sannleikur málsins er sá, að ríkissjóður stendur frammi fyrir því, að hann verður að leggja nýja skatta á. Það eru hvorki svik við verkalýðshreyfinguna né aðra. Þegar bætt er stórfelldum útgjöldum á ríkissjóð, eins og hefur verið gert nú á þessu ári, verður hann einhvers staðar að fá tekjur á móti. Lausn á síðustu deilu, deilu opinberra starfsmanna sem kostaði ríkissjóð óskaplega mikið fjármagn, verður auðvitað ekki mætt nema með því að auka tekjur ríkissjóðs jafnframt því að skera niður. Það er ekki hægt í sömu andránni að taka undir allar kröfur, allar launahækkanir, allar framkvæmdir í landinu og segja svo um leið: Við viljum ekki auka tekjur ríkissjóðs eða við viljum a.m.k. ekki hafa þetta svona og ekki svona og ekki svona. Við hljótum þó, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, að hafa þær skyldur að sjá um fjárhag ríkissjóðs, að fjárl. séu afgreidd greiðsluhallalaus, því að nóg er samt.

Ég held t.d. að ekki sé hægt að segja að það sé hægt að leggja þessar hækkanir á atvinnureksturinn í landinu og undanskilja útflutningsatvinnuvegina. Mér skilst á iðnaðinum að hann telji sín ekki neitt of sælan. Þegar kemur fram einhver barlómur er alltaf tekið undir það, að ríkið eigi að koma til móts við hvern og einu sem segist vanta peninga. Ég sá í blöðum og ríkisfjölmiðlunum, þegar frystihúsin báru sig illa í sumar, að þar var tekið undir alveg á stundinni. Allir heimtuðu aðgerðir ríkissjóðs. En svo þegar ríkissjóður aflar tekna vilja flestir vera stikkfríir, og þá er ég ekkert að sneiða að einum frekar en öðrum.

En aðeins um þá grein eða það atriði sem hv. 2. þm. Austurl. benti á varðandi 5. lið 1. gr. um þátttöku sveitarfélaga í kostnaði sjúkrasamlaganna. Þetta var rætt töluvert þegar lögin voru til umr. hér á síðasta þingi, að hér yrði gífurlegur munur á milli hinna einstöku sjúkrasamlaga sem yrði sumum óbærilegur og það yrði fyrst og fremst aukinn kostnaður við fámennari sveitarfélög. En reglugerð, sem ég gaf út 30, sept. að till. forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins, framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga og fleiri aðila, sem voru í þeirri nefnd sem kannaði málið, er á þann veg, að það sjúkrasamlag, sem lægsta prósentuna ber, er með 11.98%, sem er Sjúkrasamlag Þingeyjarsýslu, en sjúkrasamlagið, sem hæst ber, er Sjúkrasamlag V.-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu með 16.86%. Þessi munur varð ekki meiri en þetta. Aðeins til fróðleiks skal ég geta þess, að Reykjavík er með 16.53%. Þar er langstærsta sjúkrasamlagið. Þetta bil varð í reynd að dómi þessara manna mun minna en þm. almennt óttuðust, og ég var einn í hópi þeirra sem héldu að þetta bil yrði meira. En þarna kemur auðvitað margt til, eins og menn eflaust geta getið sér til um.