14.12.1977
Neðri deild: 29. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

132. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1978

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Í skýrslu ríkisstj. um lánsfjáráætlun 1978, sem lögð var fram á hv. Alþ. í gær, kom fram að flutt yrði frv. til laga um heimild til erlendrar lántöku, ábyrgðarheimildir og aðrar ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunarinnar 1978.

Ég mun nú gera grein fyrir því frv., sem hér er til umr. og er flutt til fullnustu þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið og gerð er grein fyrir í skýrslu ríkisstj. um lánsfjáráætlun.

Að því er ríkisframkvæmdir varðar er leitað heimildar til erlendrar lántöku að jafnvirði 4866 millj. kr. Í hliðstæðu frv. vegna lánsfjáráætlunar 1977 var gert ráð fyrir erlendri lántöku til ríkisframkvæmda að fjárhæð 6870 millj. og að auki 2 862 millj. vegna Framkvæmdasjóðs, sem ekki mun taka erlend lán vegna fjárfestingarlánasjóða á næsta ári. Samtals er því erlend fjáröflun til ríkisframkvæmda og fjárfestingarlánasjóða 9732 millj. á árinu 1977, þannig að um mjög verulegan samdrátt er að ræða í erlendum lántökum í þessu skyni eða nákvæmlega 50% lækkun í ísl. kr. Til viðbótar erlendri lánsfjáröflun er gert ráð fyrir að afla 5586 millj. kr, innanlands vegna ríkisframkvæmda eða samtals 10 452 millj, kr. Innlend lánsfjáröflun skiptist þannig, að 3100 millj. er sala ríkisskuldabréfa eða spariskírteina, og þarf því að hækka lántökuheimild fjárlagafrv. um 1100 millj. Sérstök fjáröflun til framkvæmda við þjóðarbókhlöðu er 170 millj. og innheimtufé eldri spariskírteina að frádreginni innlausn skírteina 2316 millj. kr.

Að öðru leyti felur frv. í sér ákvæði um kaup lífeyrissjóða á verðtryggðum skuldabréfum, m.a. bréfum Framkvæmdasjóðs og Byggingarsjóðs, lántökuheimildir vegna Landsvirkjunar og Hitaveitu Suðurnesja og heimild til að breyta skammtímalánum ríkissjóðs í lengri lán.

Tilgangur frv. í heild er að tryggja að markmiðum lánsfjáráætlunarinnar verði náð á næsta ári, en fyrir þeim gerði ég ítarlega grein í ræðu í Sþ. í gær, og vísa ég til skýrslunnar um lánsfjáráætlun, með leyfi forseta.

Ég mun þá fara nokkrum orðum um einstakar frvgr. og vík fyrst að 1. gr., þar sem ákvæðið er um lántöku að upphæð 4866 millj. kr., og 2. gr., að því fé skuli varið til framkvæmda í samræmi við ákvæði fjárl. fyrir árið 1978.

Í 3. gr. frv. er kveðið á um skyldu lífeyrissjóða til að ávaxta 40% ráðstöfunarfjár síns í verðtryggðum skuldabréfum. Tilgangur þessa ákvæðis er tvíþættur: annars vegar að treysta ávöxtun lífeyrissjóðanna til þess að þeir geti betur sinnt skyldum sínum við lífeyrisþega og einnig að tryggja fjáröflun til nauðsynlegra framkvæmda í landinu.

Á undanförnum árum hafa verið gerðir um það samningar milli fjmrn. og lífeyrissjóða, að lífeyrissjóðirnir keyptu verðtryggð skuldabréf Framkvæmdasjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs ríkisins fyrir tiltekinn hluta af árlegu ráðstöfunarfé sínu. Á þessu ári er stefnt að því, að skuldabréfakaup lífeyrissjóða frá þessum aðilum nemi samtals 30% af ráðstöfunarfé. Tilgangur þessara verðbréfakaupa hefur verið að tryggja þátttöku lífeyrissjóða í fjármögnun atvinnuvega og íbúðabygginga og jafnframt að gefa þeim kost á, að ávaxta verulegan hluta af ráðstöfunarfé sínu með fullri verðtryggingu. Framkvæmd samninganna hefur yfirleitt gengið vel, en þó hefur verið nokkur misbrestur á að allir lífeyrissjóðir keyptu verðbréf að umsömdu marki. Hefur þetta ekki aðeins skapað vandamál í framkvæmd greiðsluáætlunar, heldur hafa sumir sjóðir þannig naumast sinnt nægjanlega skyldu sinni að ávaxta fé sitt með sem hagkvæmustum hætti í þágu lífeyrisþega. því þykir ástæða til að setja nú í lög almenn ákvæði þess efnis, að öllum lífeyrissjóðum sé skylt að ávaxta tiltekinn hluta af heildarráðstöfunarfé með fullri verðtryggingu. Jafnframt þessu er sú kvöð lögð á fjmrn., að það hafi ætíð á boðstólum verðbréf með fullri verðtryggingu bæði eigin skuldabréf svo og bréf Framkvæmdasjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs ríkisins svo að lífeyrissjóðirnir geti ætið fullnægt þeirri lagaskyldu, sem hér er gerð till. um, að ávaxta a, m. k. 40% af ráðstöfunarfé sínu í slíkum bréfum.

Auk þess er gert ráð fyrir að aðrir stofnlána- og fjárfestingarsjóðir geti selt lífeyrissjóðum verðtryggð skuldabréf sín, enda fullnægi þau verðtryggingarákvæðum þessa frv. að mati Seðlabankans. Gert er ráð fyrir að sett verði nánari ákvæði um framkvæmd þessara skuldabréfakaupa í reglugerð. Þar verður m.a. skilgreint ráðstöfunarfé lífeyrissjóða, en til þess teljast vextir og afborganir að viðbættum gjaldatekjum, en frádregnum lífeyrisgreiðslum.

4. gr. frv. fjallar um heimild til lántöku erlendis vegna Landsvirkjunar. Um miðjan nóv.1977 lauk Landsvirkjun við að reisa 220 kw. háspennulinu milli spennistöðvar sinnar við Geitháls og spennistöðvar þeirrar sem nú er í byggingu á Brennimel við Hvalfjörð. Jafnframt var þá lokið samtengingu línu þessarar og byggðalínunnar og þar með hafinn rafmagnsflutningur í verulega auknum mæli frá orkuveitusvæði Landsvirkjunar til Norðurlands. Á næsta ári verður Landsvirkjunarlínan framlengd að járnblendiverksmiðjunni í Hvalfirði, en ráðgert er að rafmagnssala til verksmiðjunnar hefjist á árinu 1979. Vegna verksmiðjunnar hefði því ekki þurft að byggja línuna fyrr en 1978, en nú s.l. vor ákvað stjórn Landsvirkjunar, að höfðu samráði við ríkisstj., að flýta byggingu linunnar svo að unnt yrði að auka sem fyrst rafmagnsflutning til Norðurlands.

Kostnaður við byggingu Landsvirkjunarlínunnar ásamt hlutdeild Landsvirkjunar í spennistöðinni á Brennimel áætlast 1500 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Kostnaður þessi er að verulegu leyti þegar áfallinn og hefur hann verið fjármagnaður með erlendum lánum til skamms tíma. Ætlunin er að taka erlent lán til langs tíma til endurgreiðslu hlutaðeigandi lána og fjármögnunar kostnaðarins á árinu 1978. Ráðgert er að umrætt lán verði annaðhvort með ríkisábyrgð eða lán sem ríkissjóður tekur og endurlánar Landsvirkjun.

5. gr. fjallar um ábyrgðarheimildir vegna Hitaveitu Suðurnesja. Framkvæmdir hófust við Hitaveitu Suðurnesja árið 1975. Þær hafa staðið sleitulaust síðan og eru langt komnar. Í nóv. 1977 var vatni hleypt á dreifikerfi Grindavikur. Síðan hefur verið unnið að dreifikerfi fyrir Njarðvíkur og Keflavík og er áætlað að vatni verði hleypt á til Njarðvíkur fyrir áramót og til Keflavíkur í byrjun næsta árs. Framkvæmdum er haldið áfram og reiknað með að þeim ljúki á miðju ári 1979 fyrir allt Reykjanes utan Keflavíkurflugvallar. Ábyrgðarheimild, er veitt var með lögum nr. 100/1974, nam 2 milljörðum kr. Er nú talið nauðsynlegt að afla umræddrar viðbótarheimildar til að ljúka verkinu að þessu leyti, en hér er um mjög mikið þjóðþrifafyrirtæki að ræða.

6. gr. frv. fjallar um heimild til breytinga fyrir ríkissjóð á erlendum lánum, og er þar um nýmæli að ræða. Vegna ástands á erlendum fjármagnsmörkuðum undanfarin ár hefur yfirleitt ekki verið völ á erlendum lánum til nægjanlega langs tíma miðað við eðlilegan afskriftartíma þeirra mannvirkja sem með þeim hafa verið fjármögnuð. Veldur þetta óeðlilega örum afborgunum og þungri greiðslubyrði á næstu árum. Aðstæður á erlendum lánamörkuðum hafa farið batnandi að undanförnu og gæti því orðið hagkvæmt að taka lán til greiðslu lána sem greiða verður nú á skömmum tíma.

Í þessum tilvikum sýnist mér eðlilegt að fjmrn. hafi samráð við fjvn. um slíkar lánabreytingar, og er það lagt til í síðustu mgr. 6. gr.

Ég hef nú gert grein fyrir þessu frv. með tilvísun til þess sem ég sagði um skýrslu um lánsfjáráætlun í Sþ. í gær, og leyfi mér að leggja til að þessu máli verði að lokinni 1. umr. vísað til 2, umr, og hv. fjh.- og viðskn.