15.12.1977
Neðri deild: 30. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1288 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

132. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1978

Eðvarð Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Það er eitt atriði þessa frv., sem hér er til umr., sem ég ætla sérstaklega að gera að umtalsefni. Ég hef stillt mig um að taka til máls um þau frv. sem rædd hafa verið hér í kvöld, þótt raunar hefði verið ærin ástæða til þess, einkum þó þau frv. sem varða skattaálögur sem að mínum dómi brjóta mjög í bága við það sem ríkisstj. lýsti yfir í sumar þegar samningamál verkalýðshreyfingarinnar voru til afgreiðslu. Ég ætla ekki að fara að fullyrða neitt um þau efni núna, það gefst tækifæri til að ræða þau mál síðar, en aðeins vildi ég vona að ekki yrði nú haldið áfram á þeirri braut sem hér virðist vera farið inn á, þannig að til viðbótar öllum öðrum vanda í þjóðfélaginu ættum við von á verulegum átökum á vinnumarkaðinum áður en eðlilegur samningstími er útrunninn.

Í þessu frv. er í 3. gr. gert ráð fyrir því að skylda lífeyrissjóðina með lögum til þess að kaupa verðtryggð skuldabréf af stofnlánasjóðum fyrir minnst 40% af ráðstöfunartekjum sínum. Eins og fram kemur í grg. hæstv. fjmrh., sem hann flutti áðan og raunar fylgir frv., hefur með samkomulagi við lífeyrissjóðina verið sá háttur á, að þeir hafa á undanförnum árum keypt skuldabréf — verðtryggð skuldabréf — af stofnlánasjóðunum. Þetta helgast auðvitað verulega af því, að lífeyrissjóðunum er mikil nauðsyn að reyna að ávaxta fé sitt á sem allra tryggastan hátt, og segja má að vandamál lífeyrissjóðanna og lífeyriskerfisins í heild sé fyrst og fremst hin mikla verðbólga, sem við búum við, og margþætt vandamál, sem af því leiðir.

Á árinu 1974, í samningunum í mars 1974, gerði verkalýðshreyfingin, Alþýðusambandsfélögin, samkomulag við þáv. ríkisstj., að lífeyrissjóðirnir keyptu fyrir sem svaraði 20% af ráðstöfunartekjum hvers árs verðtryggð skuldabréf af Byggingarsjóði ríkisins. En á móti kom yfirlýsing og loforð ríkisstj. um að gera verulegt átak hvað varðar byggingu íbúðarhúsnæðis á félagslegum grundvelli. Sú ríkisstj., sem siðar tók við, síðari hluta sama árs, 1974, hefur endurnýjað tvívegis þessar yfirlýsingar um framkvæmdir í byggingum íbúðarhúsnæðis á félagslegum grundvelli og lífeyrissjóðirnir hafa fullkomlega staðið við sinn hluta, þ.e.a.s. að kaupa þessi skuldabréf af Byggingarsjóði.

Fyrir stuttu eða nú síðustu daga hefur verið útbýtt hér svari hæstv. fjmrh. við skriflegum fsp. hv. þm. Péturs Sigurðssonar um ráðstöfunarfé lífeyrissjóða. Þetta hafa þm. sjálfsagt litið yfir og það ber með sér m.a., að lífeyrissjóðir Alþýðusambandsins höfðu á árinu 1976 keypt þessi skuldabréf af Byggingarsjóði fyrir um 780 millj. kr. Þetta mun verða hærri upphæð á því ári sem nú er að liða. En samtals keyptu lífeyrissjóðirnir á árinu 1976 af fjárfestingarsjóðunum verðtryggð verðbréf fyrir röska 2 milljarða, þannig að það er engan veginn að lífeyrissjóðirnir hafi ekki lagt fram verulegt fjármagn til fjárfestingarsjóðanna og þar með til atvinnuveganna í landinu.

Ég sagði að lífeyrissjóðirnir hefðu fyllilega staðið við sín fyrirheit sem gefin voru 1974. En það verður því miður ekki sagt um þátt ríkisstj, og loforð hennar. Þar hafa litlar sem engar efndir orðið á.

Ég ætla að fara örfáum orðum um hvernig staða lífeyrissjóðanna er, hvernig þeir eru í stakkinn búnir til þess að verða við þeim ákvæðum sem felast í þeirri lagagr. sem ég er hér að ræða, hvaða möguleika þeir hafa til þess að verja svo stórum hluta af ráðstöfunarfé sínu til kaupa á þessum verðtryggðu skuldabréfum. Ég ætla þá fyrst og fremst að halda mig við sjóði Alþýðusambandsins, þ.e.a.s. þá sjóði sem að verulegu leyti voru stofnaðir með samningunum 1969 og urðu til frá 1. jan. 1970, en þó engan veginn með fullum iðgjöldum fyrstu þrjú árin.

Ég vil fyrst segja það, að almennt má segja að launafólk sætti sig við að greiða þennan skyldusparnað, skulum við segja, sem lífeyrissjóðsgreiðslurnar eru. Til þess eru aðallega tvennar ástæður. Yngra fólkið sættir sig við þetta vegna möguleika á lánum úr lífeyrissjóðunum. Eldra fólkið, og þá vil ég segja að það væru tæplega margir undir 50 ára, gerir það með hliðsjón af möguleikum á lífeyri þegar starfsaldri lýkur. Þannig er þetta í reynd. Ég ætla aðeins að lýsa hér þeim sjóði sem ég þekki best til og áreiðanlega stendur, eins og nú standa sakir, best að vígi til þess að geta varið fjármunum til kaupa á verðtryggðum skuldabréfum. Það er Lífeyrissjóður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar og Verkakvennafélagsins Framsóknar, en þessi félög hafa sameiginlegan lífeyrissjóð. Það er eitt atriði sem ég vil sérstaklega leggja áherslu á og menn máske gera sér ekki fulla grein fyrir, að lífeyrisgreiðslur úr þessum sjóðum, þótt ungir séu, eru að verða býsna miklar. T.d. greiðir þessi lífeyrissjóður, sem ég nefndi, nú á þessu ári sem svarar 25% af iðgjaldatekjum ársins í lífeyrisgreiðslur. Þessu valda þeir samningar sem gerðir hafa verið milli aðila vinnumarkaðarins og raunar með ríkisstj, sem þriðja aðila tvö undanfarin ár, þ.e.a.s. á árinu 1976 og svo aftur í vor, og þá fyrst og fremst útvíkkun lífeyriskerfisins og þó fyrst og fremst verðtrygging lífeyrisins. Ég bið menn að hafa í huga, að það eru lífeyrissjóðirnir sjálfir sem að fullu og öllu standa undir verðtryggingunni. Hún er ekki sótt í ríkissjóð hvað þessa sjóði varðar. Þegar síðan þessi sjóður er búinn að kaupa verðtryggð skuldabréf af Byggingarsjóði fyrir að vísu rösklega 20% á þessu ári og búið er að fullnægja lánaþörf sjóðfélaganna er öllu ráðstöfunarfé sjóðsins á þessu ári ráðstafað. Ég endurtek, að þetta er áreiðanlega sá sjóðurinn sem hvað besta aðstöðu hefur eins og sakir standa til þess að kaupa þessi verðtryggðu bréf. Hækkun úr þessum röskum 20% hvað þennan sjóð varðar og upp í 40% af ráðstöfunarfénu til kaupa á verðbréfunum hefur því aðeins eina afleiðingu. Hún er sú, að takmarka verður lánin til sjóðfélaganna. Það er alveg óhjákvæmileg afleiðing þess, ef lífeyrissjóðurinn á að hækka kaup sín svo á verðtryggðum bréfum sem hér er áætlað að gera. Það er hins vegar sjáanlegt, hvað það hefði síðan í för með sér.

Ég sagði að þetta væri sá sjóðurinn sem stæði hvað best að vígi. Aðrir sjóðir og ýmsir sjóðir, einkanlega þeir sem að langmestum hluta eru með sjóðfélaga, sem eru ungir að árum, og þarfir þeirra einkanlega varðandi íbúðabyggingar og húsnæðismál eru mjög miklar, — þeir sjóðir geta ekki nándar nærri á borð við þann sjóð sem ég hef nú talað um, Dagsbrúnar og Framsóknar uppfyllt umsóknir sjóðfélaganna um lán og vantar mikið á. Ég get nefnt t.d. einn sjóð, sem er þó með stærri sjóðunum. Þar er biðtími sjóðfélaganna til lána nú 18 mánuðir, og þessi sjóður er með t.d. þriðjungi lægri lán heldur en lífeyrissjóðir Dagsbrúnar og Framsóknar. Það er þess vegna augljóst, hvað er verið að gera gagnvart þeim sjóðum, sem svona er ástatt fyrir, með þeirri lagasetningu sem hér er fyrirhuguð.

Af því, sem ég nú hef sagt, lýsi ég fyllstu andstöðu í fyrsta lagi við að það skuli vera fyrirhugað að lögbinda meðferð fjármagns lífeyrissjóðanna, en með því er ríkisstj. að sölsa undir sig yfirráð yfir stórum hluta þess fjármagns sem lífeyrissjóðirnir hafa til umráða. Þetta er grundvallarafstaða. Ég álít að Alþ. eigi alls ekki að setja löggjöf varðandi lífeyrissjóðina á þennan hátt. Og ég vil í öðru lagi alveg sérstaklega mótmæla þeirri prósentutölu sem hér er um að ræða. Jafnvel þó að þessi leið væri farin er þetta allt of há prósenta og gerir lífeyrissjóðunum nærri ókleift að starfa. Með svona lagasetningu er verið að stórskerða völd stjórna lífeyrissjóðanna og þó kannske einkum og sér í lagi áhrif þeirra sem eigi þessa sjóði, þ.e.a.s. áhrif sjóðfélaganna sjálfra á stjórnun og meðferð fjármagns lífeyrissjóðanna.

Ég vil enn fremur taka það fram, að þetta ákvæði, sem er í þessu frv. varðandi lífeyrissjóðina, er sett án samráðs við lífeyrissjóðina. Það eru engir samningar við lífeyrissjóðina — og engan lífeyrissjóð svo að ég viti til — að baki þessu ákvæði í því frv. sem hér liggur fyrir. Það hefur tvívegis aðeins verið talað við mig einan persónulega af ráðh., en þá tölu sem um er að ræða í frv., hef ég ekki heyrt fyrr en síðdegis í dag. Þetta eru vinnubrögð, sem ég álít að eigi engan veginn að viðhafa.

Þegar mál eru sett fram og á að afgreiða þau á jafnskömmum tíma og ætlunin er með þessi frv, er auðvitað ekkert ráðrúm til gaumgæfilegrar athugunar á jafnviðkvæmu og vandasömu máli og hér er á ferðinni. Ég verð að treysta því, að sú þn., sem fær þetta mál til meðferðar, leggi nauðsynlega vinnu í athugun á málinu, flaustri því ekki af.

Ég er alveg sannfærður um að þessi lagasetning, ef af henni verður, mun á margan hátt torvelda störf lífeyrissjóðanna, og ég er alveg sannfærður um að það markmið, sem hæstv. ríkisstj. virðist ætla sér að ná með þessu frv., næst ekki. Lífeyrissjóðirnir geta þetta ekki og það er rétt að menn hafi það í huga. Þeir geta ekki gert þetta. Í öðru lagi er ég alveg sannfærður um að ef þetta ákvæði verður að lögum, muni það m.a. torvelda mjög innheimtu iðgjalda lífeyrissjóðanna. Og ég bið nú ráðamenn, embættismenn og ráðh., að hafa það í huga, að það eru ekki allir lífeyrissjóðir þannig settir eins og t.d. Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna, þar sem innheimta iðgjalda er ekki vandamál Margir af lífeyrissjóðum almennu verkalýðsfélaganna verða að byggja innheimtumöguleika sína á eftirliti sjóðfélaganna sjálfra. Og þegar áhugi þeirra til þess að greiða er farinn, þá verður minna fé í sjóðunum en ella.

Ég endurtek, að ég lýsi yfir fyllstu andstöðu við þessa grein í frv., sem hér er til umr., og legg mikla áherslu á að viðkomandi þn. athugi þetta mál mjög gaumgæfilega.