15.12.1977
Neðri deild: 30. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

132. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1978

Benedikt Gröndal:

Virðulegi forseti. Frv. þetta er samkvæmt fyrirsögn bundið við árið 1978, og það leynir sér ekki í 1. og 2. gr. og raunar síðar í frv., að það er tengt skýrslu um lánsfjáráætlun fyrir þetta eina ár.

Það kemur því mjög á óvart að sjá 3. gr., þar sem allt í einu eru settar almennar reglur fyrir lífeyrissjóði um það, hvernig þeir eigi að ávaxta ráðstöfunarfé sitt. Nú er það engan veginn lagalega ómögulegt, að þessi eina grein geti gilt áfram, nema það sé ætlun ríkisstj. að koma henni einhvers staðar annars staðar fyrir. En að setja ákvæði af slíku tagi inn í frv., sem er tengt ráðstöfunum bundnum við eitt ár, sýnir að ríkisstj. er komin í hreinustu vandræði og er ekki hægt að kalla vinnubrögð af þessu tagi annað en hreint fálm.

Það er sannarlega ekki verið að setja þessi mál inn í eins árs frv. af umhyggju fyrir lífeyrissjóðunum. Tilgangurinn er auðvitað að seilast meira en hingað til í fé sjóðanna og ná valdi á því. Það er merkilegt, hvað þessir fríhyggjumenn, sem alltaf eru að tala um athafnafrelsi, geta verið dæmalaust útsmognir við að finna nýjar leiðir til að tryggja ríkisvaldinu áhrifavald og stjórn yfir fjármagni og ráðstöfun þess. Ég held að þm. Sjálfstfl. mundu kalla þetta hreinan kommúnisma ef einhver önnur stjóra hefði lagt til það sem þarna er. Svo eru blöð og áróðursmenn þessa sama flokks sífellt að blása það út, hvað þeir séu miklir baráttumenn fyrir fríhyggju og athafnafrelsi. Þeir eru að stórauka ríkisvaldið. Nú er það að vísu ekki andstætt pólitískum skoðunum mínum í grundvallaratriðum, en mér finnst vera gengið nokkuð hart til verks. Ég tel að þegar sé rík reynsla fyrir því, sem ráðamenn ættu að þekkja, að það er engin leið að meðhöndla þetta mál öðruvísi en í fullu samkomulagi við lífeyrissjóðina. Það eru tvær ríkisstj. búnar að reyna að koma skipulagi á þessa hluti sem hentaði þeim betur en það sem er, en hefur hvorug getað það. Það er ekki vænlegt til árangurs að ætla sér að smeygja þessu inn í frv., þar sem slík ákvæði eiga alls ekki heima, á síðustu nóttum fyrir jólaleyfi.

Ég vil taka mjög undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, hv. 7. þm. Reykv., en hann hefur að sjálfsögðu af þessum málum miklu ítarlegri reynslu og þekkingu en ég eða nokkur annar hér inni.

Það er auðvitað orðið of seint að ræða um einstök atriði í sambandi við lánsfjáráætlunina og þetta fylgifrv. hennar. Ég ætla þó að reyna örlítið á þolinmæði hæstv. forseta með því að nefna aðeins eitt mál. Það eru vonbrigði yfir að í hvorugu þessu plaggi skuli vera minnst á framkvæmdir í sambandi við Hitaveitu Borgarfjarðar. Nú hygg ég að það séu e.t.v. engar framkvæmdir betri eða skynsamlegri, arðvænlegri eða frekar gjaldeyrissparandi heldur en hitaveiturnar. Um þetta hefur verið almennt samkomulag.

Um nokkurra ára bil hefur staðið yfir undirbúningur að Hitaveitu Borgarfjarðar, og forráðamenn hennar hafa mikinn hug á að geta byrjað framkvæmdir á næsta ári með áfanga sem ekki væri nema rúmlega 400 millj. kr., sem er ekki mikið í sambandi við framkvæmdir af þessu tagi.

Þar sem margyfirlýst stefna, ekki aðeins stjórnarflokkanna, heldur og stjórnarandstöðunnar og ég hygg allra, sem um efnahagsmál tala, er að við eigum að einbeita okkur að arðvænlegri og betri framkvæmdum en við höfum gert undanfarin ár, hélt ég að framkvæmd sem þessi mundi fá jákvæðari og betri undirtektir en hún hefur fengið. Það hefur að vísu verið skotið inn í áætlunina tveim eða þrem setningum um það, að til viðbótar við allt, sem í áætluninni er, sé eftir atvikum gert ráð fyrir sérstökum lántökum á vegum fyrirtækja ríkisins og sveitarfélaga vegna sérstaklega lánshæfra framkvæmda á vegum sveitarfélaga, svo sem hitaveituframkvæmda. En því miður hljómar þetta eins og innantóm orð, af því að í áætluninni eru margvíslegar framkvæmdir minni en þessi og ýmsar sem eru algjörlega hliðstæðar.

Ég nota þetta tækifæri til að minna á að þarna er um framkvæmd að ræða sem uppfyllir öll þau skilyrði, sem við getum gert til framkvæmda er eiga að verða arðvænlegar, mundu spara orkukaup og gjaldeyri í stórum stíl og ættu því að hafa fyllsta forgang. En það er eins og menn séu hinir ánægðustu með það ástand, sem nú er í landinu, að norður við Kröflu sé margra milljarða aflstöð, en engin gufa, en um allan Borgarfjörð fullt af gufu, en aflstöðina vantar.