15.12.1977
Efri deild: 27. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1299 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

113. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. 3. þm. Vestf., Þorv. Garðars Kristjánssonar, formanns iðnn. þessarar hv. d., varð n. sammála um að leggja til að frv. yrði samþykkt, en ég undirritaði nál. með fyrirvara um það að ég mundi flytja brtt. sem er svofelld: „Síðari efnismgr. 1. gr, frv. orðist .svo:

Verðjöfnunargjaldinu skal varið til að bæta fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða, en fjvn. Alþ. skipti fénu milli þessara aðila svo að jafnrétti verði.“

Greinin í lagafrv, orðast svo, þessi 1. gr. sem ég legg hér til að breytt verði, hún orðast svo í frv.:

„Greiða skal 13% verðjöfnunargjald í Orkusjóð af seldri raforku á síðasta stigi viðskipta, þ.e. sölu til notenda, en notandi telst sá, sem endurselur ekki raforkuna.“

Þessi mgr. er samhljóða þeim sem samþykktar hafa verið árlega hér að undanförnu. Síðan kemur hin síðari efnismgr., sem er svona:

„Verðjöfnunargjaldinu skal varið til að bæta fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða. Rafmagnsveitur ríkisins skulu fá svo sem svarar 80% af tekjum af verðjöfnunargjaldi, en Orkubú Vestfjarða 20%.“

Ég legg sem sagt til, að ekki verði kveðið á í lögum um hlutföllin í þessum skiptum milli Orkubús Vestfjarða og Rafmagnsveitna ríkisins, heldur verði fjvn. Alþ. falið að skipta fénu milli þessara aðila svo að jafnrétti verði, þannig að Vestfirðingar fái þann hlut sem þeim ber til jafns við aðra landsmenn, svo sem þeir hafa áður fengið.

Ástæða fyrir því, að ég vil ekki að kveðið verði á um þetta hlutfall í lögunum, er í fyrsta lagi sú, að frv. fylgja ekki sannfærandi rök fyrir því að þessi hlutföll séu rétt. Í öðru lagi færi ég fram þá ástæðu, að eignaskiptin á milli Orkubús Vestfjarða og Rafmagnsveitna ríkisins hafa enn ekki verið lögð fyrir Alþ., svo sem eðlilegt er þegar um svo mikla eignatilfærslu er að ræða og breytingu á fyrirkomulagi, sem áður hefur verið, að vilja Alþingis.

Nefndarformaður sagði frá því, að iðnn. kvaddi sér til ráðuneytis formann og framkvæmdastjóra Rafmagnsveitna ríkisins og ráðuneytisstjóra í iðnrn., sem kom á fund n. Þótt ég gengi allhart eftir því fékk ég það ekki upp úr formanni og framkvæmdastjóra Rafmagnsveitna ríkisins, að þeir teldu eðlilegt eða sjálfsagt að kveðið yrði á í lögum um þessi hlutföll, þessi föstu hlutföll á skiptingu verðjöfnunargjalds á milli Rafmagnsveitna og Orkubús Vestfjarða, Niðurstaðan af þeim upplýsingum, sem n. fékk hjá þessum hv. fulltrúum Rafmagnsveitnanna, er sú, að ef miðað er við yfirtöku á skuldum og eignum RARIK á Vestfjörðum í sambandi við Orkubúið, þá væri eðlilegt að Rafmagnsveiturnar fengju 80% af verðjöfnunargjaldinu, Orkubúið 6%, en ríkið 14%, ef miðað væri við skiptingu skuldanna og eiguanna. Rafmagnsveitur ríkisins skulda nú um það bil 12 milljarða kr., þar af námu skuldirnar vegna Vestfjarða 2.7 milljörðum kr. Eins og hv. formaður iðnn, gerði grein fyrir, þá var með bókun í ríkisstj. hinn 25. okt, kveðið á um það, að eðlilegt væri, miðað við ástandið 1975, að Orkubú Vestfjarða tæki að sér 500 millj. kr. skuld af rösklega 1400 millj. skuld Rafmagnsveitnanna vestra. Þessar skuldir framreiknaðar til ársins í ár verða aftur á móti, eins og ég sagði áðan, 2.7 milljarðar, þar af er Orkubúi Vestfjarða ætlað að taka við 700 millj., en 2 milljarðar af þessari skuld lenda á ríkinu. Í bókun ríkisstj, frá 25 okt. 1977 er þannig gerð grein fyrir því, hvernig þessum tveimur milljörðum skuli séð farborða: Vextir og afborganir, segir þar, af skuldum Rafmagnsveitnanna vegna Vestfjarða fram yfir þær 500 millj., framreiknaða.r yfir í 700 millj, núna, sem Orkubú Vestfjarða yfirtekur með þeim hætti sem að ofan greinir, skulu greiðast af Orkusjóði og/eða öðrum tekjustofnum orkumála.

Eins og lýðum er ljóst var Orkusjóði ekki með lögunum ætlað að taka að sér skuldir á borð við þessar. Orkusjóður hefur ekki bolmagn til þess af eigin rammleik að greiða vesti og afborganir af þessum tveimur milljörðum, sem hér á að færa yfir á hann, og/eða aðrir tekjustofnar orkumála voru til annars ætlaðir heldur en þess að taka við áföllum af skillitlum ráðstöfunum af hálfu forustumanna orkumála í sambandi við eignaskipti eins og þessi.

Það er rétt, sem hv. formaður iðnn. sagði áðan, að heimildarlög um Orkubú Vestfjarða voru samþykkt hér á Alþ. og í þessari hv. d, með ákveðnum fyrirvörum og aðvörunum varðandi einmitt framkvæmd hinnar efnahagslegu hliðar. Einmitt af þeim sökum var frv. breytt í þessari hv. d. í heimildarlög í þeirri von að hæstv. ríkisstj, mundi taka tillit til ábendinga sem komu fram hér í d. um hina efnahagslegu hættu sem stafaði af ýmsum vanköntum, ýmiss konar vansmið á frv. Þm. samþykktu frv. vegna þeirrar kláru hugsunar sem það var byggt á í grundvallaratriðum að ýmsu leyti, e.t.v. í fyrsta lagi vegna fyrirætlana um að sameina í einni stofnun umfjöllun orkumála, jafnt hitaorku sem raforku, og í öðru lagi vegna mjög svo viðfelldinnar og ég vil segja klárrar hugsunar sem bjó að baki ákvæðunum um eignaskiptin vestra, þar sem eignum skyldi nú skipt í þessu fyrirtæki vestra með tilliti til fólksfjölda, en eignirnar í hinum einstöku byggðarlögum strikaðar út. Aftur á móti bentu þm. í þessari hv. d., maður eftir mann, á það, hversu illa væri hugsað og séð fyrir þeim hlutum er lutu að skiptum á eignum og skuldum Rafmagnsveitna ríkisins þar vestra, og á það, að þar virtist hugsunin alls ekki vera eins klár.

Nú ítreka ég það enn, að ég stefni ekki að því með þessari brtt., sem ég ber hér fram, að Vestfirðingar fái ekki sinn hlut úr verðjöfnunargjaldinu, svo sem þeir hafa áður gert, sinn réttláta skerf. Það er hitt, sem ég vara við að við lagasetningu núna verði kveðið á um hlutföll á þessari skiptingu áður en Alþ. hefur fengið að fjalla um hin endanlegu skipti eigna og skulda á milli Rafmagnsveitna ríkisins og hins fyrirhugaða Orkubús, vegna þess að ef Alþ. samþykkti nú þetta hlutfall, þá væri það búið að binda sig í þetta mál án þess að hafa fengið að fjalla um það, þ.e.a.s. eignaskiptin, á eðlilegan hátt. Við skulum aðeins hugleiða hvað gerst hefur í sambandi við þessi eignaskipti fyrir vestan með tilliti til hagsmuna landsmanna í öðrum byggðarlögum á öðrum orkuveitusvæðum, við skulum segja á starfssviði fyrirhugaðrar Norðurlandsveitu og Austfjarðaveitu, við skulum jafnvel nefna Suðurlandsveitu, að við tölum ekki um Orkubú Reykjavíkur, ef til slíks kæmi.

Við spurðum þá í n., formann og framkvæmdastjóra RARIK, hvaða áhrif það hefði haft á raforkuverð á svæði Rafmagnsveitna ríkisins, ef þessum tveimur milljörðum, sem hér á að létta af Vestfjarðasvæðinu, af Orkubúi Vestfjarða, hefði verið létt af skuldum RARIK á landinu yfirleitt, þ. á m. á Vestfjörðum, á orkuveitusvæði RARIK. Þeir svöruðu okkur því til, að ef skuldir RARIK hefðu verið strikaðar út í einu lagi um þessa tvo milljarða, þá hefði það þýtt 10% lækkun á raforkuverði. Þá stöndum við frammi fyrir því hvernig fara muni ef Norðlendingar, Austfirðingar, Sunnlendingar og Reykvíkingar tækju sig nú til á sama hátt og stofnuðu sín orkubú og nytu sama réttar sem íbúar þessara svæða vitaskuld ættu, og nú skulum við vera svo sanngjarnir að taka ekkert tillit til íbúafjölda í þessu tilliti, ekkert tillit til þeirrar staðreyndar, að íbúafjöldi á Norðurlandi er margfaldur á við þann sem er fyrir vestan, að íbúafjöldi á Austurlandi er meiri, á Suðurlandi miklu meiri, og sleppum þá að minnast á Reykjavík. Skuldir RARIK eru, eins og ég sagði áðan, um það bil 12 milljarðar, Ef aflétta ætti af Norðlendingum, af baki Norðlendinga tveimur milljörðum, Austfirðinga tveimur milljörðum, Sunnlendinga tveimur og þá af fyrirhuguðu Orkubúi Reykjavíkur tveimur milljörðum kr., þá stæði ekki eftir nema tveggja milljarða skuld, hitt væri allt saman komið yfir á ríkið, þá yfir á Orkusjóð og/eða aðra tekjustofna orkumála, eins og hér er kveðið að orði. Mér skilst samkv. sama útreikningi, að með þeim hætti væri hægt að lækka orkuverð á öllu svæðinu talsvert mikið.

Ég mæli ekki gegn, því að Vestfirðingar fái raforku á sama verði og aðrir landsmenn. Þeir eiga að fá raforku á sama verði og aðrir landsmenn, En sú klára hugsun, sem bjó að baki hugmyndarinnar um Orkubú Vestfjarða, er ekki jafnklár lengur þegar komið er að útfærslunni sem hér hefur átt sér stað, og því fer víðs fjarri, að þessir reikningar, þessi plögg, séu með þeim hætti að sæmilegt sé að Alþ. setji stimpil sinn á þetta uppgjör án þess að fá sérstakt tóm til að fjalla um þessi eignaskipti. Annað nær ekki nokkurri átt, bókstaflega nokkurri átt.

Ég tel að hér sé vaðið áfram af lítilli fyrirhyggju af þeim sem séð hafa um útfærslu á hugmyndinni um Orkubú Vestfjarða og sú klára hugsun, sem ég var að tala um áðan og hrósa áðan frumkvöðlunum fyrir, hafi korgast eilítið á leið sinni í gegnum aðra grautarhausa.