19.10.1977
Neðri deild: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

3. mál, íslensk stafsetning

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Hæstv. forseti. Ég vil fylgja þessu frv. úr hlaði með nokkrum orðum.

Ég minni fyrst á, að það kom fljótt í ljós þegar Íslendingar fóru að skipa stafsetningarmálum sínum með opinberum auglýsingum, að landsmenn yfirleitt létu sig þau mál miklu varða. Nægir að minna á að það liðu áratugir frá útgáfu auglýsingar 1929 þar til t.d. öll dagblöð landsins höfðu tekið þá stafsetningu upp sem þar var notuð. Menn voru alls ekki sáttir við hana fyrst lengi vel. Svo fór um síðir að allur þorri landsmanna tók upp þessa stafsetningu og batt raunar við hana allmikla tryggð, eins og síðar hefur komið á daginn.

Einstök atriði stafsetningarinnar frá 1929 sættu þó gagnrýni að sjálfsögðu, svo er um flest mannanna verk. En nærri hálf öld leið þó áður en til breytinga kæmi af opinberri hálfu.

Breytingar, sem gerðar voru 1973 og 1974, vöktu mikið umtal, miklar deilur má raunar segja. Þær voru gagnrýndar harðlega af sumum, en nutu ákveðins stuðnings annarra. Kom þar enn glöggt í ljós mjög mikill og almennur áhugi á þeim þætti íslensks máls er stafsetninguna varðar og e.t.v. miklu meiri áhuga en ýmsa hafði órað fyrir.

Mér virðist þeir atburðir eða þær umr., sem orðið hafa í tengslum við breytingarnar 1929 og svo aftur 1974, benda eindregið til þess, að það sé ósk hins almenna borgara, ef svo mætti segja í þessu tilfelli, að sem mestur stöðugleiki sé í stafsetningarmálum okkar. Einn alþm., Ingi Tryggvason, komst svo að orði fyrir nokkru, að það væri hæfilegt að breyta íslenskri stafsetningu einu sinni á öld. Ég veit ekki hvort þessi hv. þm. hefur meint þetta bókstaflega. En mér er satt að segja nær að halda, að þeir séu ekki svo fáir sem innst inni hugsa eitthvað á þessa leið. — Ég skal játa það hreinskilnislega, að ég hallast frekar á þá sveifina.

S.l. vetur efndi menntmrn, til allfjölmennrar ráðstefnu um íslenska stafsetningu hér í Reykjavík í samræmi við ábendingar frá Alþ. vorið áður, og hv. þm. fengu á sínum tíma fundargerð þessarar ráðstefnu. Þessi ráðstefna var mjög vel sótt. Þar mættu málvísindamenn og móðurmálskennarar fyrst og fremst, nokkrir alþm. og fleiri áhugamenn um þessa hluti. Í byrjun þessarar ráðstefnu lagði ég fram hugmynd að eins konar málamiðlun um þau atriði sem mest hefur verið deilt um. Lærðir menn og ágætir íslenskumenn ræddu síðan þær hugmyndir og þó miklu fremur málið almennt, ég vil fullyrða bæði af vitsmunum, mikilli þekkingu og mikilli hófsemi. Í framhaldi af þessari ráðstefnu ræddi ég svo stafsetningarmálin í þrengri hópum með málvísindamönnum og móðurmálskennurum einkum. Það kom glöggt í ljós, að menn voru síður en svo sammála um einstök atriði, ekki heldur þeir aðilar sem yfirgripsmesta og traustasta þekkingu höfðu á þessum málum, á íslensku máli. Nokkrir vildu hverfa alfarið til stafsetningarinnar frá 1929, eins og raunar er kunnugt, m.a. af umr. hér á Alþ. Aðrir vildu enga breytingu gera frá því sem komið var, en í þeim hópi virtust kennarar fjölmennir. Og mörg önnur sjónarmið komu fram, bæði á ráðstefnunni og í þessum viðræðum sem ég var að nefna. Og satt að segja man ég ekki eftir neinu afmörkuðu, veigamiklu atriði sem allir væru sammála um, liggur mér nú við að segja. Það er kannske heldur djúpt tekið í árinni, en ekki fjarri lagi. En eins og ég sagði áðan, held ég að það leiki ekki á tveimur tungum, að mjög margir, sem þarna lögðu orð í belg, og ég vona að enginn alþm. dragi það í efa, voru og eru ágætlega vel að sér um íslenskt mál og málnotkun. Má nærri geta, fyrst það eru svona skiptar skoðanir hjá þessum hópi manna, að mönnum með mína menntun, mína móðurmálskunnáttu eða ámóta, þeim situr kaka við rass að gerast dómarar og segja til um hvað rétt sé og hvað rangt í einstökum tilvikum stafsetningarinnar. Og ég get tekið mér í munn orð viðmælanda Jóns Indíafara á knæpunni í Kaupmannahöfn og sagt: „Það má Óðinn gera, en ég aldrei.“

Þó virðist mér augljóst eftir ráðstefnuna og eftir þær umr, sem fylgdu í kjölfar þessarar ráðstefnu, að sú breyting, sem flestir aðhylltust, var að taka aftur upp fyrri reglu og venjur um hversu rita skuli stóran staf og lítinn, og þá á ég við það sem gilt hafði frá 1929. Ég gat ekki fundið að það væri hörð andstaða gegn breytingum í þá stefnu. En þessi orð ber þó ekki að skilja svo, að um þetta væru allir málvísindamenn og móðurmálskennarar sammála, sbr. það sem ég áður sagði.

Að þessari niðurstöðu fenginni ákvað ég sem sagt að breyta með auglýsingu reglum um stóran og lítinn staf til samræmis við fyrri háttu, nokkurn veginn nákvæmlega, og auglýsing um þetta efni var gefin út 28. 6. 1977 í svipuðu formi og á sama hátt og áður hefur verið gert.

Það er mín skoðun að nú sé alveg tvímælalaust tímabært að hugleiða í fullri alvöru meðferð stafsetningarmálanna í framtíðinni og taka ákvarðanir um það, hvernig þeim málum verði skipað framvegis. Mér sýnist að óánægjan frá árinu 1929 og svo aftur 1973 og 1974 gefi það til kynna, að það sé æskilegt að breyta nokkuð aðferðum við töku ákvarðana um íslenskt ritmál, íslenska stafsetningu.

Þetta atriði var nokkuð hugleitt í menntmrn. veturinn 1975–1976, m.a. í framhaldi af þál, sem afgreidd var frá Alþ. árið áður. Varð þá og þar, í rn., til frv. til l. um setningu reglna um íslenska stafsetningu. Fyrstu drög þessa frv. gerðu þeir að beiðni minni Árni Gunnarsson deildarstjóri og Runólfur Þórarinsson fulltrúi. Síðar fjölluðum við Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri og raunar fleiri einnig um þessi frv: drög. En það frv., sem þá varð til í rn. á þennan hátt, var svo lagt fram á Alþ. 1975–1976. Það var ekki grundvöllur fyrir því að flytja það sem stjfrv., því að ráðh. voru ekki allir á einu máli um það. Ég flutti þá frv. sem menntmrh., eins og hv, þm. reglur minni til. Þetta frv. fór ekki langt í þinginu, en nokkrar umr. urðu þó um það og mér fannst alþm. út af fyrir sig ekki taka frv. illa. Mætti segja að þeir hafi tekið frv. sæmilega. Einkum var gagnrýnd skipun eða samsetning þeirrar n. sem vera skyldi rn. til aðstoðar og leiðbeiningar við ákvarðanatöku þegar og ef til breytinga kæmi. En þm. töldu skipun þessarar n. helst til þrönga.

Nú er best að segja hverja sögu eins og hún gengur. Þrátt fyrir nokkra yfirvegun hefur mér og okkur félögum þarna í menntmrn. ekki tekist að bæta um búnað frv. sem ég áðan nefndi, eins og ég segi, þrátt fyrir nokkra yfirvegun, því að við höfum dálítið rætt þetta mál í okkar hópi og raunar við fleiri, svo að ég flyt hér frv. óbreytt og að öllu með sama hætti og fyrr.

Ég vil nú leitast við að gera örlitla grein fyrir efni frv.

Eins og fyrirsögn þess ber með sér: Frv. til l. um setningu reglna um íslenska stafsetningu, er hér um að ræða fyrirmæli um verklag, en ekki um það, hversu rita skuli einstök orð.

Í 1. gr. frv. er kveðið á um að menntmrn. setji reglur um íslenska stafsetningu, Þar er skilgreint gildissvið slíkra reglna, og ég hygg að þar sé í engu vikið frá því, sem nú gildir varðandi gildissviðið.

Í 2. gr. frv. er svo kveðið á um skipun n. sem leita skal tillagna frá áður en stafsetningarreglum er breytt. Í þessari n. skulu sitja menn með sérþekkingu á íslenskri tungu og með reynslu í kennslu móðurmálsins. Einn nm. skal tilnefndur af deildarráði heimspekideildar Háskóla Íslands og vera úr hópi fastra kennara Háskólans í íslenskri málfræði. Einn skal skipaður af Íslenskri málnefnd úr hópi nm. sem yfirleitt eru málvísindamenn. Og loks tilnefnir stjórn Félags ísl. fræða þriðja nm. og skal hann vera úr hópi móðurmálskennara á grunnskóla- og framhaldsskólastigi.

Þegar þetta frv. lá hér fyrir Alþ. í fyrstu var, eins og ég áðan gat um, skipun þessarar n. nokkuð gagnrýnd og einkum að hún skyldi ekki vera fjölmennari. Ég hef nokkuð hugleitt þetta atriði sérstaklega, en niðurstaða mín varð sú að breyta ekki þeirri tilhögun sem hér er lagt til að höfð verði. Þá er hvort tveggja, að ég tel skipan þessarar n. þannig undirbyggða í frv., að hún ætti að tryggja nokkra breidd í viðhorfum. Inn í n. koma fulltrúar frá málvísindamönnum og svo frá kennurum, og tel ég grundvallaratriði að fá þessa tvo aðila beint inn í þessa n. Einnig er svo hitt, að í lok 2. gr., síðari mgr., er að því vikið og óbeint hvatt til þess að rn. leiti „umsagnar um till. n. hjá öðrum sérfróðum aðilum um íslenska tungu og móðurmálskennslu“, eins og þar segir. Ég tel þess vegna að auðvelt ætti að vera að koma á framfæri flestum eða öllum sjónarmiðum í gegnum störf þessarar n. En svo sem af sjálfu leiðir, þá er það auðvitað á valdi Alþ. að hafa hér annan hátt á og breyta ákvæðum 2. gr.

Í 3. gr, segir, að „við framkvæmd laga þessara skal þess gætt að stuðlað sé að æskilegri festu í stafsetningu og reglum ekki breytt örar en nauðsynlegt þykir til samræmis við eðlilega þróun“. Hér er lögð áhersla á að festa sé æskileg í stafsetningu og í greininni er ákvæði sem er ætlað að tryggja að þeirra sjónarmiða verði gætt við framkvæmd laganna. Og ég álít, eins og ég áðan drap á, að einmitt þetta sé í samræmi við skoðanir alls þorra manna.

Loks er svo í 4. gr. ákvæða um það, að áður en settar eru stafsetningarreglur eða gerðar breytingar á þeim, þá skuli afla heimildar Sþ. til breytinganna í formi þál. Með þessu ákvæði er því slegið föstu, að þær stafsetningarreglur eða breytingar á stafsetningarreglum, sem menntmrn. hyggst gefa út að fengnum till. sérfræðinganna, verði hverju sinni lagðar fyrir Sþ. sem fskj. með till. til þál. um heimild til útgáfu þeirra.

Ég hef þessi orð þá ekki miklu fleiri, held ég. En ég legg á það megináherslu að með þessu frv. er reynt að tryggja æskilega festu í stafsetningunni og að tryggja hvort tveggja, að sjónarmið sérfræðinga fái að njóta sín, sérfræðinga og móðurmálskennara, en verði þó ekki gerð gildandi nema Alþ. hafi kynnt sér og samþykkt.

Ég legg svo til, hæstv. forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til menntmn.