15.12.1977
Efri deild: 27. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1317 í B-deild Alþingistíðinda. (915)

113. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að vera stuttorður. Ég vil þó gera hér örfáar aths.

Í fyrsta lagi er mér ljóst, að það eru ýmsir styrkir á fjári. til orkumála í landinu. Það á þá sérstaklega við um það söluskattsstig, sem notað er í olíustyrkinn, og Orkusjóð að mjög miklu leyti, og þar kemur inn sveitarafvæðingin og fleira slíkt. En ég átti fyrst og fremst við það, og ég veit að ég hef ekki sagt það nógu skýrt, að hér væri verið að víkka út þetta svið mjög verulega. Mér er fullkunnugt um þau framlög sem ákveðin eru á fjárlögum.

Það skiptir út af fyrir sig ekki máli eins og mér fannst koma fram í máli hv. þm. Ólafs Þórðarsonar, hvaða skuldir hafi verið færðar á Vestfjörðum. Aðalmálið er það, að mér sýnist að eignir Rafmagnsveitnanna þar hafi verið 3.6 milljarðar í lok ársins 1976 og skuldir 2 milljarðar. Þessar skuldir hafa hækkað um 700 millj., eftir því sem hér hefur komið fram, og ég býst við, að eignir hafi hækkað tilsvarandi, þannig að þarna er um eignir upp á 4.3 milljarða að ræða. Þær hafa að vísu verið endurmetnar, það er alveg rétt. En ég vil líka benda á það, að skuldir Rafmagnsveitnanna, þó að ég hafi ekki kynnt mér reikninga Rafmagnsveitnanna gaumgæfilega, eru flestar eða mikið af þeim gengistryggðar og hækka jafnhliða eignunum að einhverju leyti. Það er út af fyrir sig hægt að tryggja hag Rafmagnsveitnanna á ýmsan hátt, með því að selja raforkuna mun dýrara og með því náttúrlega líka að fella niður skuldir, þannig að ég get ekki séð ástæðu til að gagnrýna það út af fyrir sig, að Rafmagnsveiturnar endurmeti eignir sínar. Þetta tíðkast hjá öllum orkufyrirtækjum í landinu. (Gripið fram í.) Nei, nei, enda skiptir það út af fyrir sig ekki máli.

En í sambandi við þetta mál í heild, þá er það alveg rétt, að það hefur verið rætt hér, hvort þm. hefðu getað kynnt sér það nægilega vel í upphafi. Það má oft deila um það. Þetta mál var lagt fram mjög seint á þinginu 1976, þegar miklar annir voru hér, og við vitum það, sem höfum tekið þátt í störfum Alþ. og erum bundnir í n., að við eigum mjög erfitt með að kynna okkur mál gaumgæfilega sem lögð eru fram hér á síðustu stundu, og að því leytinu til tel ég að það hefði mátt vera betra. Nefndin skilar áliti í mars 1976. Það eru samþykkt lög í maí 1976. Ég leyfi mér að draga í efa að það séu nægilega vönduð vinnubrögð. Ég vil á engan hátt kasta rýrð á vinnubrögð n. En n. er skipuð fyrst og fremst aðilum í þessum landsfjórðungi, og það þarf náttúrlega einnig að fara fram vinna í þessu sambandi í sjálfu rn. Það er rn. sem leggur þetta mál fram. Og ég vil leyfa mér að efast um að það sé eðlilegur tími frá því að n. leggur fram sínar till. og þar til lög eru samþykkt, að rn. hafi haft ráðrúm til að líta á áhrif þessa máls í heild sinni.

Það hefur komið hér fram, að það álit, sem kom fram á sínum tíma, hafi ekki verið álit Rafmagnsveitna ríkisins. Það er alveg rétt, að það kemur fram framan á kápu þess álits. En ég hef ekki séð álit frá Rafmagnsveitum ríkisins, og ég hef ekki séð álit nú við þessa afgreiðslu undirritað af stjórn Rafmagnsveitna ríkisins, þannig að ég vil leyfa mér að spyrja hvort stjórn Rafmagnsveitna ríkisins hafi samþykkt og gefið út álit á þessu máli nú.

Hv. þm. Þorvaldur Garðar gat þess, að ég teldi að hér væri verið að leggja niður Rafmagnsveitur ríkisins. Ég vil aðeins leiðrétta það. Ég sagði að hér væri verið að stíga fyrsta skrefið í því sambandi. Og varðandi virkjunarrannsóknir kemur það fram í lögum um Orkubú Vestfjarða, að fyrirtækið skal annast virkjunarrannsóknir — það er nú ekkert minna. (ÞK: Hvað stendur á eftir?) Og aðrar undirbúningsrannsóknir, eftir því sem ákveðið er hverju sinni. Hvernig eiga menn eins og ég að skilja þetta á annan veg en að Orkubúið eigi að annast þessar rannsóknir? Það er a.m.k. afskaplega erfitt fyrir mig að skilja það á annan hátt. Það ber út af fyrir sig að fagna því, að orkubúið ætli að hafa samstarf við aðra aðila í landinu sem hafa annast þessi mál fram að þessu, þeir ætli ekki að vera svo sjálfstæðir að þeir ætli að slíta sig úr tengslum við allt og alla í orkumálum.

Ég vil að síðustu aðeins taka það fram, að ég sagði áðan við umr. að ég teldi eðlilegt að fresta þessu máli. Það er ekki út af fyrir sig með Orkubú Vestfjarða í huga fyrst og fremst, heldur samhengið í þessu máli við önnur raforkumál í landinu. Það er komið hér fram frv. um virkjun Blöndu. Þar stendur: „Ríkisstj. er heimilað að fela væntanlegri Norðurlandsvirkjun eða öðrum aðila. „Kemur fram í þeim texta, að það er hugmyndin að stofna Norðurlandsvirkjun, og skal engan undra þótt menn hafi áhuga á því t.d. á Austurlandi, hvort það verði svo kannske eftir eitt ár að Rafmagnsveitur ríkisins verði ekkert annað en Rafmagnsveitur ríkisins á Austurlandi. Það þarf að vera samhengi hér á milli og menn þurfa að átta sig á þessu. Það er þess vegna sem ég tel að það beri að fresta þessu máli þangað til menn hafa fengið betri heildaryfirsýn yfir þess mál öll.