15.12.1977
Sameinað þing: 32. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1331 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

133. mál, gagnkvæmar fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. vil þakka hv. 3. landsk. þm. fyrir ræðu hans hér og þann skilning sem hann leggur í þessi mál, sem er réttur, að það er ekki síður fyrir okkur gert en okkar nágranna varðandi það að sýna hvað við höfum sjálfir meint með þeirri baráttu sem við höfum háð á Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Með því að afgreiða mál með þessum hætti erum við auðvitað að sýna bæði strandríkjum heims og öðrum, að við kunnum að fara með það vald sem okkur er veitt samanborið við þau frv. sem fyrir liggja að nýjum hafréttarsáttmála. Hitt er svo annað mál og er í öðru lagi, að það er auðvitað okkur skylt eð skilja enn frekar vanda og erfiðleika smáþjóðar og grannaþjóðar, eins og er gert bæði með þessum samningi og eins og Færeyingar gera af fúsum og frjálsum vilja með því að breyta þeim samningi sem er í gildi á milli okkar og þeirra varðandi fiskveiðar. Um leið og við minntumst á það við þá að lækka þorskveiðikvótann um 1000 tonn vegna þeirra aðgerða, sem við erum að gera gagnvart íslenskum sjómönnum og útgerðarmönnum, sögðust þeir skilja til hlítar hvernig staða okkar væri í þessum efnum. Þeirra staða er nú mjög erfið vegna mikilla erfiðleika í samningum sérstaklega við Efnahagsbandalagið, en fiskveiðipólitík Efnahagsbandalagsins er að mörgu leyti mjög óljós enn þá og ekki samræmd innan bandalagsins. Því er staða Færeyinga mjög veik um þessar mundir.

Það, sem ég legg aftur mikla áherslu á og kom raunar fram í framsögu hæstv. utanrrh., er að þetta eru gagnkvæmir samningar. Þó að við höfum ekki notað nema um 30% af þeim aflakvóta, sem er í gildi, á þessu ári erum við þó flestir nokkuð bjartsýnir á að sá kvóti, sem verður samkv. þessum samningi sem væntanlega verður staðfestur, verði notaður hlutfallslega betur. En það, sem mestu máli skiptir, er að í framtíðinni geta okkar nótaveiðiskip notað að fullu og öllu þennan kvóta af kolmunna við Færeyjar. Eins og menn vita er loðnuveiðum á vetrarvertíð lokið í marslok eða um það bil sem kolmunninn er innan lögsögu Færeyja, svo að með þessu gæti útgerð skipa okkar orðið samfelld. Síðan, þegar líða tekur, á sumarið, kemur kolmunninn að Austurlandi og sömuleiðis á Dohrnbanka, mjög mikið magn. Það er líka mjög mikils virði við þessar umr. að treysta enn betur böndin um rannsóknir á þessu sviði, bæði hvað kolmunnann snertir og ekki síður síldarstofninn, sem við höfum kallað norsk-íslenska síldarstofninn, en Færeyingar vilja kalla aftur Norður-Atlantshafssíldarstofninn, sem er sennilega miklu réttara orð, því að síldin þarf að fara þessa leið og koma við á umráðasvæði Færeyinga sem og á alþjóðlegu umráðasvæði. Þess vegna er mjög mikils virði að auka og efla samstöðu þessara þriggja þjóða, Færeyinga, Norðmanna og Íslendinga, og svo sömuleiðis Ráðstjórnarríkjanna þegar lengra er komið í þessari rannsókn.

Mér fannst rétt að þetta kæmi nokkru skýrar fram, og ég endurtek þakkir mínar til hv. 3. landsk. að hafa bent á þetta mikilvæga atriði.