15.12.1977
Sameinað þing: 32. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

133. mál, gagnkvæmar fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. bauð nú upp á langar umr., því þegar hann fer að tala um að leggja hin og þessi tæki til hliðar una borð í skipunum, ef það er ekki ástæða til að ræða málið alllengi og mikið, þá veit ég ekki hvað er ástæða. Það er enginn að tala um svona hugmyndir — ekki nokkur einasti maður.

Við ýmsir þm., sem stóðum að því að leggja til að flotvarpan yrði lögð til hliðar, orðuðum það aldrei að það væri eitthvert skaðvænlegt veiðitæki, að það færi illa með fisk og þar fram eftir götunum. Þetta er tilbúningur, þetta eru hreinir hugarórar. Það, sem við vildum, var að draga úr sókninni og jafna sóknina sem mest yfir árið, svo að til algjörrar stöðvunar í þorskinn kæmi ekki, og velja þar á milli. Hví leyfum við ekki flotvörpuna hvar sem vera skal við landið eða hringinn í kringum landið? Hví tökum við ekki nótina, sem er ódýrast og heppilegast veiðarfæri sem til er á þorskinn, með 45 mm möskva eða meira? bað er langódýrasta veiðarfæri sem til er til að veiða þorskinn. Ég get upplýst hæstv. ráðh., ef hann vill hlusta á mig andartak eða eina mínútu, að ég átti hlut að því sennilega að kaupa inn og teikna og búa til fyrstu nótina sem var tekin hér í notkun sem smáveiðarfæri á litla trillu fyrir rúmum 20 árum. En það voru margir öfundsjúkir og vildu stöðva það veiðarfæri. Það var í notkun í allmörg ár. Ég átti líka hlut að því að setja fyrst í skip þverskrúfur og nota dælu. En þegar við komum að landi, þá var sett aflabann á bátinn í fyrstu lotu. Það má rekja ýmislegt hér, ef við viljum. En við skulum halda okkur við staðreyndir lífsins, en ekki hugaróra. Það sem við viljum er að sóknin sé sem jöfnust og ekkert annað. Við getum líka sagt að við skulum róa árabátum sem allra mest, því það skilur mest eftir og svo fer minnst í veiðarfærakostnað, og nota seglin í staðinn fyrir olíuna sem kraft. Dæmið snýst einfaldlega ekki um það — alls ekki, Það er enginn að tala um slíkt.

Hæstv. ráðh. sagði hér í viðtali einu sinni: „Dagur kolmunnans kemur“. Hann kemur vegna þess að það eru nokkrir menn á Íslandi það bjartsýnir, að þrátt fyrir mótmæli og seinagang og þumbaldahátt hæstv. ríkisstj. og peningavaldsins í landinu mánuð eftir mánuð brutust þessir menn áfram til að kaupa skip sem eru viðeigandi í kolmunnann. Hæstv, ráðh, segir: „Dagur kolmunnans kemur“. Já, hann kemur vegna þess að það voru menn til sem höfðu þá trú á athafnafrelsi einstaklingsins, að þeir gáfust ekki upp þrátt fyrir þumbaldahátt ýmissa manna sem telja sig vera fulltrúa athafnafrelsis einstaklingsins.

Ég get rakið þessa sögu hér í löngu máli, en hún er ekkert skemmtileg fyrir ýmsa menn, og þó ég nefndi engin nöfn, þá mundi það skiljast. Það, sem við viljum, ýmsir hv. þm. úr öllum flokkum, er að gera okkur grein fyrir því, að það þarf bæði að fara varlega í sókn með flotvörpu og net til þess að fá þorskstofninn upp að nýju. Við skulum ekki blanda neinum öðrum hugarórum inn í það. En flotvarpan er leyfð á vissu hafsvæði undan Vestfjörðum. Það voru fyrir þrem árum aðeins fáeinir togarar sem höfðu útbúnað fyrir flotvörpu. Það vissu auðvitað allir, að fyrr eða síðar mundu menn komast upp á það á Íslandi að nota þetta veiðitæki með mjög góðum árangri, enda raunin orðin sú. Útbúnaður í flotvörpuna kostar marga tugi milljóna. Ég fullyrði að ekki einn einasti togari var keyptur til landsins þannig að hann notaði flotvörpuna eingöngu — alls ekki. Hún kemur sem viðbótarsóknartæki um borð í skipið, og það er það sem við erum að leggja til hérna, nokkrir menn, að við förum varlega í að nota, það er allt og sumt, fremur en að stöðva þorskveiðar á vissum stöðum á landinu að fullu og öllu og þar með atvinnu fyrir fólkið. Já, menn geta gert grín að þessu, þeir eru alveg frjálsir að því. En ég hef mína skoðun þrátt fyrir það og margir fleiri hv. þm. hér inni, að þetta er ekki rétt. En þetta er pólitísk ákvörðun, og hún verkar vel fyrir ýmsa ónefnda menn, það er alveg á hreinu, en ekkert skemmtilega fyrir heildarvinnubrögðin í landinu. Þess vegna tel ég óhjákvæmilegt að hæstv. ríkisstj. og Alþ. geri sér grein fyrir því, að við getum ekki þrátt fyrir mjög góðan vilja gagnvart Færeyingum haft þessa heimild ótímabundna handa Færeyingum, þó að við förum niður í 7 þús. tonn af þorski, vegna ríkjandi aðstæðna. Það er rangt hjá hæstv, ráðh., að það skaði okkur eitthvað í baráttu okkar í hafréttarmálum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, því þar er margsinnis undirstrikað gildi og skylda strandríkis að varðveita þá fiskstofna, þá lífandi stofna í hafinu, sem strandríki hefur innan sinnar lögsögu. Það er skylda strandríkisins og það eigum við að gera.

Það mætti nú halda því fram, að við værum ekki að gera það með of mikilli sókn, þrátt fyrir mjög harðar ráðstafanir í því efni núna sem ég þakka fyrir. Hæstv. ráðh. á þakkir skilið fyrir að setja harðar reglur um að bjarga þorskstofninum. En okkur greinir á um það, með hvaða hætti það skuli gert. Strandríki hefur skyldu í þessu efni, og við verðum að horfast í augu við skyldu okkar gagnvart þorskinum, því fari hann út hér í hafinu við Ísland, á hverju ætlum við að lifa þá? Þá er 100% óbyggilegt í þessu landi. Hvaða maður eða hvaða Alþ. eða hvaða ríkisstj. hefur vald til þess og ábyrgð að taka þessa áhættu? Ekki nokkur hvítur maður á Íslandi — ekki nokkur maður. Það er ekki til. Það hefur enginn heimild til þess né hefur verið nokkurn tíma kjörinn til þess að taka slíka áhættu. Það kann að lukkast að komast upp úr þessari lægð fyrr en síðar. Ég segi: Það kann að lukkast. En við siglum mjög óvarlega, það er mál allra manna, mjög óvarlega. Það er margstaðfest, að hrygningarstofninn er kominn niður fyrir 200 þús. tonn, hvað svo sem einhverjir pólitískir félagar mínir vilja halda fram. Það er margstaðfest. Þorskurinn er ekki til, og hann hefur farið minnkandi æ ofan í æ. Við skulum leggja til hliðar alla hugaróra og vitleysu í þessu sambandi.

Það er skylda okkar hér á Alþ., hvar í flokki sem við stöndum, að takast á við þann vanda að bjarga þorskstofninum. Við lifum ekki í þessu landi öðruvísi en að hafa góðan þorskstofn. Ég tel það ekki skynsamleg vinnubrögð að vita það, að á vissum stöðum berst svo mikið að að fiskurinn skemmist í landi og unnið er fram á kvöld og alla laugardaga, nærri allan ársins hring. Þetta eru staðreyndir og hægt að telja stað eftir stað. Ég skoðaði þetta sjálfur í sumar og einnig um daginn ásamt fleiri þm. Á sama stað er svo verið að loka og engin atvinna fyrir aðra. Er þetta rétt? Ég segi nei. Þetta er skökk sóknarstefna. Þetta er röng sóknarstefna og getur leitt af sér stórkostleg vandræði. En ég vona það, og við sjálfsagt gerum það allir og öll íslenska þjóðin gerir það, að við komumst upp úr þessari lægð með þorskinn sem allra fyrst. Við verðum þá svo drenglundaðir og mun ekki standa á neinum manni að samþ. það hér á hv. Alþ., að Færeyingar fái þá mörg þús. tonn í sinn hlut af þorskstofninum á Íslandsmiðum. En á meðan við erum gjörsamlega, ef svo má segja, með síðasta þorskinn — hrygningarþorskinn — í höndunum, þá verðum við að fara varlega. Það er sama hver í hlut á. Það er gjörsamlega sama hvaða þjóð á í hlut hér.

Nei, þetta er allt of alvarlegt mál til þess að vera að gera grín að því og tala um að við eigum að leggja hin og þessi tæki í land og minnka þannig sóknina. Þá skulum við allir fara á árabát eða smátrillu.

Ég veit ekki hvað margir tóku eftir því með afraksturinn eða reksturinn á fyrirtæki á Húsavík. Það var nýlega haldinn þar fundur og þeir samþ. 27.8 millj, kr. uppbót, um 13%, á fiskverð fyrir árið 1977. Bráðabirgðayfirlit sýnir að þeir höfðu um 49 millj. kr. í afrakstur á þessu ári. Uppistaðan var frá þessum litlu, góðu bátum. Til hvers þá að kaupa togarana? Hvar er önnur eins niðurstaða til? En ég fullyrði samt, þar sem ég hef róið bæði á litlum bát og byrjað á árabát og upp í stór skip, að ekki er búandi við þau lífsskilyrði, sem eru heimtuð nú, að róa á opnum bát að haustlagi fyrir Norðurlandi. Þess vegna er eðlilegt að gera mönnum betri búnað um borð og betri vist þegar menn eru langdvölum burtu.

Það þýðir ekkert annað en að hafa kjark í sér til að horfast í augu við staðreyndir lífsins, hvað varðar þorskinn og þau lífsskilyrði sem hann veitir Íslendingum. Við skulum ekki blanda neinu öðru inn í því efni, Við getum rætt lengi um notkun hinna og þessara veiðarfæra hér við land. Það er staðreynd, að það er óskynsamlegt að hafa flotvörpuna óhefta í dag. Það er óskynsamlegt. Ég skil þá skipstjóra mætavel sem vilja auðvitað fá að nota tækið, þetta stórvirka tæki, áfram fyrst þeir hafa byrjað á því. Það er mjög eðlilegt og sjálfsagt frá þeirra sjónarmiði. En á sama tíma og þeir fá það og á sama tíma og þeir heimta það, þá draga þeir úr möguleikum annarra manna hringinn í kringum landið að fá að starfa að þorskveiðum allt árið um kring, vegna þess að afkastageta þeirra togara, sem nota þetta veiðarfæri, er svo mikil að þeir fá vel sinn skammt.

Það hefur verið rætt um að setja kvóta á skip. Það hefur ekki náðst. Það var settur kvóti á skip á síldveiðum, eitt yfir alla í því efni, þrátt fyrir það að skipin væru mjög mismunandi stór. Sumir vildu þrískiptan kvóta, t.d. að skip fengi 150 lestir, annað 250 og enn eitt jafnvel 300, eftir stærð og útbúnaði. Það hefur ekki náðst slíkt samkomulag um togarana, Slíkt fordæmi er þó til viða erlendis. Sagt er: Við skulum veiða á vikunni ákveðið magn og ef vel tekst til og er gert á fimm dögum, þá er allri veiði lokið og frí næstu tvo daga. — Ég er ekki að mæla með því hér á Íslandi. Ég er miklu fremur að mæla með því, að eðlileg veiðarfæranotkun sé bæði um borð í togurum og línubátum og netabátum og við jöfnum þannig sóknarþungann næstu tvö árin meðan við erum að komast upp úr þessum öldudal með þorskinn.

Ég harma það, að hæstv. ráðh. skuli fara hér í hreina útúrsnúninga að mínu mati, og tel það ekki viðeigandi í sambandi við þessar umr. alls ekki. En ég ítreka það, að ég er á móti því að hafa gildistíma á þorskveiðikvóta til Færeyinga um óákveðinn tíma. Ég tel rétt að segja honum upp nú um þessi áramót og þeir viti það, að eftir 6 mánuði á næsta ári verði ekki fyrir hendi að veiða þorsk hér á Íslandsmiðum hina síðari sex mánuðina. Ef menn sjá fram á að þorskstofninn er að jafna sig, mjög skjótlega, sem við vonum allir, þá má veita þeim heimild fljótlega aftur. Það eiga þeir skilið og það verða menn almennt sammála um að gera.