19.10.1977
Neðri deild: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

3. mál, íslensk stafsetning

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þetta frv. fjallar ekki um það, hver skuli vera stafsetning íslenskrar tungu. Það fjallar um það eitt, með hverjum hætti skuli skipa stafsetningarmálum hér á landi. Meginefni þess er það, að menntmrh. skuli setja reglur um það, hver skuli vera stafsetning íslenskrar tungu, að fengnum till. nefndar sem sett er saman með ákveðnum hætti, og síðan skuli þessi ákvörðun menntmrh. lögð fyrir Alþingi til staðfestingar.

Á þessi meginatriði frv. get ég fyrir mitt leyti fallist. Ég hef ávallt verið þeirrar skoðunar, að sú regla, sem þáverandi menntmrh., Jónas Jónsson, beitti 1929, að setja með einföldu ráðherrabréfi nýjar reglur um stafsetningu, hafi verið óeðlileg. Ég hef getið þess áður í umr. um þetta mál, að valinkunnir lögfræðingar hafa tjáð mér að það hefði með réttu mátt draga í efa lögmæti þess ráðherrabréfs sem um var að ræða, en þar sem enginn hefði gert það væri enginn vafi á því, að ráðherrabréfið stæðist, enda var því fylgt í 40 ár.

En í þau 15 ár, sem ég gegndi starfi menntmrh., bárust mér aldrei nein tilmæli frá neinum samtökum, hvorki samtökum kennara né samtökum málvísindamanna eða áhugamönnum um þau mál, um að breyta stafsetningunni frá 1929. Ef mér hefðu borist slík tilmæli og ef ég hefði talið rétt að verða við þeim eða ef þau hefðu verið frá þess konar aðilum í þjóðfélaginu, svo áhrifamiklum aðilum að ég teldi sjálfsagt að taka tillit til þeirra, þá hefði ég haft aðferð sem svipar til þeirrar sem hæstv. menntmrh, nú leggur til, að leggja til að sett yrði löggjöf um það, með hverjum hætti breyting á íslenskri stafsetningu skyldi ákveðin, í stað þess að gera það upp á eigin spýtur.

Með þessu er ég ekki að draga í efa rétt hæstv. fyrrv. menntmrh., Magnúsar Torfa Ólafssonar, til þess að gera breytingu á íslenskri stafsetningu sem hann gerði með ráðherrabréfi á sínum tíma. Þó ég hafi verið henni efnislega ósammála, þá tel ég að hann hafi haft venjubundinn, hefðbundinn rétt til þess að fara að eins og hann fór að. Ég hef aldrei dregið í efa réttargildi þeirra reglna sem hann á sínum tíma gaf út, og það er alveg óháð efnisinnihaldi reglnanna, sem kunnara er en frá þurfi að segja að ég er ekki sammála.

Ég tel rétt að til séu lög um það, hvernig stafsetningu íslenskrar tungu sé skipað, og grundvallarhugsunum í þessu frv. er ég því sammála, að því þó frátöldu að ég er ekki ánægður með hvernig ráðgjafarnefndin skuli skipuð. í þeim efnum er ég fylgjandi þeim hugmyndum sem síðasti hv. ræðumaður, Sverrir Hermannsson, lýsti í boðaðri brtt. við þetta frv.

Ég skal líka taka fram, að ég tel ekki eðlilegt að sjálfri stafsetningunni sé skipað með lögum. Í því efni er ég sammála hæstv. ráðh. og hv. síðasta ræðumanni, þótt ég eins og hann hafi talið mig neyddan til þess fyrir tveim árum að flytja frv. um lögfestingu stafsetningarinnar frá 1929 af því að útséð virtist um að það mál næði fram að ganga með öðrum hætti. Þessa lausn, sem hér er um að ræða, tel ég mun heppilegri, þó þannig, að samsetningu ráðgjafanefndarinnar verði breytt.

Hæstv. ráðh. gerði að umtalsefni fjölmenna ráðstefnu sem haldin var á Hótel Sögu um stafsetningarmálin fyrir einu ári.

Ég tók þátt í störfum þessarar ráðstefnu, og ég held að nauðsynlegt sé að það komi fram hér, að mér virtist svo að hún skiptist í tvo jafna hluta. Af þeim, sem tóku til máls, voru nokkurn veginn jafnmargir fylgjendur stafsetningarinnar frá 1929 og þeir sem voru fylgjendur stafsetningarinnar frá 1974.

En það má athuga í þeirri skýrslu eða frásögn af umr. á ráðstefnunni sem þm. hafa fengið, hvort þetta mat mitt er ekki rétt.

Einmitt þetta varð til þess, að sjálfur formaður þeirrar n. sem var ráðgefandi fyrir hæstv. fyrrv. menntmrh., Halldór Halldórsson prófessor, í lok umr., þegar hann sá hversu skoðanir manna voru gersamlega skiptar um málið, varpaði fram þeirri tillögu sem hv. síðasti ræðumaður, Sverrir Hermannsson, gat um í máli sínu. Efni síðustu ræðu hans, alveg undir lok ráðstefnunnar, var í aðalatriðum það, að þetta mál væri komið í fyllsta óefni, það væri ríkjandi ringulreið í stafsetningarmálum, sem ekki væri viðunandi, og það yrði að leita sátta í málinu, þannig að allar kennslubækur, öll opinber skjöl og öll blöð yrðu rituð með sömu stafsetningu. Og hann varpaði fram ákveðinni hugmynd í þeim efnum, sem hv. þm. Sverrir Hermannsson lýsti í aðalatriðum, þeirri að varðveita z í stofni, en sleppa henni í miðmyndarendingum. Þetta er hugmynd formanns þeirrar n. sem undirbjó það ráðherrabréf sem fyrrv. hæstv. menntmrh. gaf út fyrir nokkrum árum.

Og það eru orð að sönnu, sem prófessor Halldór Halldórsson sagði sem sín lokaorð á þessari ráðstefnu, að það er ríkjandi fullkomin ringulreið á þessu sviði. Þetta frv. ræður ekki bót á þeirri ringulreið, enda er því ekki ætlað að gera það. Það fjallar um annað efni. Það fjallar um formshlið málsins, en ekki efnishlið þess. Ringulreiðin kemur m.a. fram í því, að dagblöð nota sitt hvora stafsetninguna, þá sem er nú lögskipuð og þá frá 1929. Bækur eru gefnar út með báðum stafsetningunum. Og sjálft stjórnarráðið notar báðar stafsetningarnar. Við svo búið má að sjálfsögðu ekki lengur standa.

Ég fyrir mitt leyti mun fylgja allri viðleitni til að koma á sáttum í þessu máli, sem er mikilvægt, mjög mikilvægt. Þó að sú rödd hafi heyrst hér að um smámál og hégómamál sé að ræða, þá er mjög mikilvægt að Íslendingar stafsetji tungu sína allir með einum og sama hætti. Ég fyrir mitt leyti mun fylgja því, að reynt verði að ná sáttum í þessu máli, og get eins og hv. síðasti ræðumaður sætt mig við þá málamiðlun sem felst í þeirri hugmynd sem prófessor Halldór Halldórsson varpaði fyrstur fram opinberlega á ráðstefnunni á Sögu og gerð hefur verið að umtalsefni.

Áður en ég lýk máli mínu langar mig til þess að víkja örfáum orðum að þeim rökum sem fram komu í máli hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar, að þetta mál skipti litlu máli, — ég tel það skipta mjög miklu máli, — og þeim ummælum hans að stafsetning eigi að vera sem líkust talmáli.

Engin stafsetning, sem notar stafróf, hefur það að meginmarkmiði að líkjast talmáli, — engin. Stærstu þjóðtungur vestrænna þjóða, enska og franska, beita, eins og allir vita sem nokkuð þekkja til þessara mála, stafsetningu sem er víðs fjarri því að reyna að líkjast talmáli. Samt sem áður hefur engin alvarleg hreyfing verið uppi meðal enskumælandi þjóðum né heldur með frönskumælandi þjóðum að breyta stafsetningu þeirra, sem er mjög erfið, margfalt erfiðari en íslenska stafsetningin frá 1929. Það hefur engin hreyfing verið uppi með þessum þjóðum um að breyta stafsetningunni til þess að auðvelda hana í þá veru að gera hana líkari talmáli. Það er af því að þær miklu menningarþjóðir, sem þessar tungur tala og skrifa, enskumælandi þjóðir og frönskumælandi þjóðir, bera þá virðingu fyrir uppruna tungu sinnar og fyrir þeirri hefð, þeirri aldahefð sem hefur skapað ritmál þeirra, að hringla ekki með stafsetninguna eins og því miður hefur orðið raun á hér hjá okkur Íslendingum.