16.12.1977
Efri deild: 28. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (946)

116. mál, Lífeyrissjóður bænda

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur haft frv. til l. um breyt. á l. um lífeyrissjóð bænda til athugunar. Eftir samkomulag launþega og vinnuveitenda 22. júní s.I. um málefni lífeyrissjóða gerði stjórn lífeyrisjóðs bænda athugun á því, hvaða ráðstafanir væri nauðsynlegt fyrir bana að gera til þess að lífeyrisþegar Lífeyrissjóðs bænda fengju sambærileg kjör og þar er gert ráð fyrir. Staða Lífeyrissjóðs bænda er mjög veik vegna þess að fjöldi þeirra, sem fá greiðslur úr Lífeyrissjóði bænda, er mjög mikill eða milli 1200 og 1300, miðað við aðeins 5 þús. sem greiða í sjóðinn. En hjá flestum öðrum lífeyrissjóðum er þetta hlutfall ekki yfir 10%.

Í aths. með þessu frv. segir að þeir lífeyrissjóðir, sem gerðu samkomulagið 22. júní, hafi að nokkru leyti samstarf með sér til þess að deila með sér útgjöldum, þannig að þau jafnist á milli sjóðanna, og hefur þetta í för með sér að þeir þurfa aðeins að greiða 13–14% af iðgjaldatekjum sínum til þessara uppbótargreiðslna. En Lífeyrissjóður bænda hefur enga slíka samtryggingu og er áætlað að bein útgjöld til lífeyrisgreiðslna hjá honum verði 260 millj. kr, á árinu 1978 af þessum sökum, og það eru 46% af iðgjalda- og framlagatekjum, eins og þær eru áætlaðar á næsta ári. Stjórn Lífeyrissjóðs bænda taldi því nauðsynlegt að reyna að styrkja eitthvað stöðu sjóðsins um leið og lífeyrisgreiðslur eru auknar í samræmi við fyrrnefnt samkomulag. Fjallar efni þessa frv. um það, enda þótt það nægi hvergi nærri til þess að gera stöðu hans eins góða og annarra lífeyrissjóða.

Í 1. gr. frv, er ákvæði um að hundraðshluti búvöruframleiðslunnar, sem mótframlag við greiðslu bænda reiknast af, skuli breytast úr 3/4 í 4/5.

Í 2. gr. er fyrst ákvæði um að skilagrein um búvöruframleiðslu sjóðfélaga skuli hafa borist innan 6 mánaða frá lokum almanaksárs til þess að geta reiknast með í stigum þeim er mynda grundvöll lífeyrisréttinda hans á árinu á undan. En þessi mörk eru í núgildandi lögum níu mánuðir.

Í síðari hluta 2. gr. frv. er sú breyting enn fremur gerð á 8. gr. laganna, að í stað 10% álags á dagvinnukaup bónda og húsfreyju, sem er grundvöllur stigaútreiknings hvers almanaksárs, komi heimild til að hafa það allt að 20%.

Í 3. gr. frv. eru síðan ákvæði um að hin sérstaka uppbót á lífeyri, sem greidd hefur verið á árinu 1976 og 1977, skuli einnig greiðast á árinu 1978 og 1979.

Fjh: og viðskn, leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.