19.10.1977
Neðri deild: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

3. mál, íslensk stafsetning

Magnús T. Ólafsson:

Hæstv. forseti. Ég kem fyrst og fremst hingað í ræðustól til þess að láta í ljós ánægju mína og fögnuð í tvennum greinum. Í fyrsta lagi vil ég láta í ljós ánægju mína að hér sér á ný dagsins ljós frv. hæstv. menntmrh. sem áður hefur legið fyrir Alþ. og ég lýsti þá fylgi við og taldi æskilegt að að lögum yrði, og vona ég að svo fari nú. En fögnuð sérstakan vil ég láta í ljós út af því, að tveir blindaðir í þessum sal hafa loksins fengið opin augu og eru horfnir af miklum villigötum á réttari veg. Þar vil ég tilnefna hv. 3. þm. Austurl. og hv. 9. þm. Reykv. sem á þeim tæpur tveimur árum sem liðin eru síðan þeir börðust eins og ljón fyrir því að sett yrðu hér á Alþ. í þessum sal lög um stafsetningu íslenskrar tungu, lög um hvert og eitt stafsetningaratriði út af fyrir sig, hafa séð að þetta, sem þeir töldu þá hið eina sanna hjálpræði, er hin mesta fásinna, það að ætla sér að skipa stafsetningarmálum með beinni lagasetningu Alþ. um hvert og eitt stafsetningaratriði. Ég tel það fagnaðarefni að meira að segja þessir þm. skuli hafa á ekki lengri tíma en þetta gert sér grein fyrir í hverja ófæru þeir voru að reyna að etja Alþ. og spöruðu hvorki til þess kapp né stór orð. En ég vil láta í ljós þá von, að þessi bati þeirra haldi áfram, að þeir sjái einnig að sér í öðrum greinum þar sem þá vantar enn nokkuð til að komast niður á jörðina í þessum efnum.

Ég vil einkum mega vænta þess, að hv. 3. þm. Austurl. venji sig af þeim sið að sproksetja hér á Alþ. einstaka embættismenn sem veitt hafa ráðh. aðstoð við undirbúning og meðferð mála. Slíkt er hvorki sæmandi honum né öðrum þm. Þá vil ég einnig vísa því gersamlega á bug, að n. sú, sem undirbjó till. um breytingar á stafsetningu 1973 og 1974, eigi skilið að heita felunefnd eða hún hafi á nokkurn hátt farið laumulega með hlutverk sitt. Og það er alrangt, sem hv. þm. heldur fram, að sú n. hafi orðið til næstum af engu, hún hafi verið skipuð líklega af kenjum mínum í þá daga. Þvert á móti er sú nefndarskipun til komin eftir að fjölmenn ráðstefna kennara, sérstaklega móðurmálskennara, hafi fjallað um stafsetningarmálin, bent þar á ákveðin atriði sem þessir kennarar töldu nauðsynlegt að hugað væri að, og í erindisbréfi n. voru einmitt þessi atriði sett efst á blað. Og því fór svo fjarri að nefndarskipun væri falin, að um hana var gefin út opinber fréttatilkynning og um erindisbréfið.

Ég vil lítillega víkja að því sem hv. 9. þm. Reykv. nefndi um það sem fram fór á ráðstefnu hæstv. menntmrh. um stafsetningarmál. Þar finnst mér ástæða til að geta þess, að það kom fram í þeim umr.hv. 9. þm. Reykv. hafði, þegar hann var menntmrh., a.m.k. leitt hugann að því og var jafnvel af sumum ráðstefnumönnum talinn hafa gefið ádrátt um að breyta z-reglunni á þann veg sem alvara var gerð úr 1973, þótt hann hyrfi frá því ráði. Og ég vil sérstaklega minna á ummæli Baldurs Jónssonar lektors á þessari ráðstefnu. Hann lýsti sig upphaflega í mörgum greinum fráhverfan þeim stafsetningarbreytingum sem gerðar voru 1973 og 1974, en hélt mjög skilmerkilega tölu á stafsetningarráðstefnunni og kvaðst vera kominn að þeirri eindregnu niðurstöðu, að það, sem brýnast væri í stafsetningarmálum þjóðarinnar, væri það að slá skjaldborg um þá stafsetningu, sem ákveðin var 1973 og 1974, og hindra að þeir, sem berðust gegn þeim stafsetningarbreytingum af kappi miklu, en lítilli forsjá, færu að hræra í þeim málum. Það eru einmitt þeir sem hafa valdið því, ef hrærigrautur ríkir í hugum einhverra um stafsetningarmál.

Það er svo rétt eftir öðru þegar hv. 3. þm. Austurl. kemur hér í ræðustól ekki aðeins í gervi siðameistara ráðh. og Alþingis, sem hann hefur slegið yfir sig margsinnis, heldur í gervi sáttasemjara og betrumbætis málfars Austfirðinga. Ekki er nú lítið færst í fang, að kenna Austfirðingum að tala móðurmálið, og mátti ekki seinna vera að hv. þm. leitaði á þær slóðir frama og mannvirðinga. Þegar hann tekur að telja hér dæmi um nauðsyn þess að z fái þó að haldast í stofni orða og tilfærir dæmi, verður hann svo seinheppinn að taka þar sem sérstaklega þýðingarmikið dæmi orðið verslun. Ég veit ekki hverju það sætir, að næstum í hvert skipti sem hv. þm. tekur að ræða þetta mál og vill færa sem vönduðust rök að máli sínu, þá reynast þau hálmstrá ein og hjóm og reykur, eins og þetta merka orð verslun. Ég þarf ekki að tilfæra fyrir þingheim það sem hv. þm. sagði um þýðingu þess að þetta orð væri stafsett með z, svo fram kæmi rækilega að það væri komið af orðinu verð, þarna mætti nú tannhljóðið alls ekki missa sig. Að vísu gat hann þess, að hugsanlegt væri að orðið væri af því komið að verja fé sínu, en vék algerlega frá sér svo ómerkilegri hugmynd og óviðurkvæmilegri. En mergurinn málsins er sá, að niðurstaða merkra málvísindamanna er, að það hafi verið fyrir algeran misskilning fyrri manna að farið var að skrifa verslun með z, verslun sé alls ekki komin af verð, heldur því að verja fé sínu og eigi því ekki að vera með neinni z, þar sé ekkert tannhljóð í stofni. Og það, sem sker úr um þetta, er einmitt orðið vara. Það er til orð sem heitir vara. Hvar er tannhljóðið í því, orðinu vara, sem er samstofna við verslun og að verja? Hvar finnst tannhljóðið í því orði? Hét það, sem nú er nefnt vara, kannske upphaflega varða eða varta? Því aðeins fær z-an í verslun staðist að svo sé í pottinn búið.

Ég ætla ekki að elta ólar frekar við fjarstæður hv. þm., en vil fagna því, að hann er á batavegi, og vona að hann haldi áfram á þeirri braut.