16.12.1977
Neðri deild: 32. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (985)

94. mál, læknalög

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Við fjöllum hér um málefni sem varða öryggissjónarmið, heilsufar borgaranna í landinu. Þess vegna var það, að ég studdi heils hugar þá breytingu sem lagði enn frekari áherslu á það atriði en jafnvel var gert í orðalagi frv. sjálfs í upphafi. Að sjálfsögðu geng ég út frá því, að landlæknir hafi fyrst og fremst hliðsjón af sjónarmiðum þeirra sem hafa með höndum umsjón læknafræðslunnar í landinu. En undanþágan, sem þetta frv. fjallar um, þ.e.a.s. veiting takmarkaðs lækningaleyfis, á að vera háð meðmælum landlæknis, að höfðu samráði við læknadeild Háskóla Íslands. Það er ljóst að þessi undanþága verður fyrst og fremst að byggjast á því, að viðkomandi einstaklingur sé talinn hafa nægilega þekkingu til að bera til að stunda þau störf sem leyfisveitingin veitir honum heimild til. Það hefur í öllum löndum verið viss ótti við svonefndar skottulækningar, allt frá því að menn viðurkenndu að verulega þekkingu þyrfti til þess að stunda lækningar. Þetta er sjálfsagt, enda felur þetta frv. ekki í sér nein frávik frá því. Það er einungis þetta, að þegar um mál er að ræða, sem kynnu að vera umdeild í læknastétt, tel ég það mikinn stuðning fyrir yfirstjórn heilbrigðismála að hafa á bak við sig álit þeirra sem hafa læknafræðsluna í landinu með höndum, þar sem er læknadeild Háskóla Íslands. Með því að sinna tilmælum Læknafélags Reykjavíkur, Læknafélags Íslands og læknadeildar Háskóla Íslands að þessu leyti tel ég að við tökum tillit til þess og viðurkennum að þarna verður þekkingin að vera framar öllu öðru.

Ég get ekki varist því að vekja athygli á því í sambandi við þetta mál, að menn mega ekki á þessu fremur en á öðrum sviðum óttast þekkinguna. Víð eigum einmitt að reyna að notfæra okkur sem allra best þá þekkingu, sem fagmenn á ýmsum sviðum hafa yfir að ráða, ekki síst þegar um er að ræða heilsu og öryggi borgaranna í landinu. Þess vegna hefði ég ekki verið því mótfallin að tilmælum læknadeildar og læknafélaganna væri alfarið sinnt og það hefði verið skýrt tekið fram, að meðmæli þeirra þyrftu einnig til að koma. En við nánari athugun og við ábendingar meðnm. minna sá ég að þessi breyting, sem við leggjum til að gerð verði, hlaut að vera nægileg, því að það er vitanlega sjálfsagt og liggur í augum uppi, að ekki færi landlæknir að mæla með leyfisveitingu sem hann teldi að færi í bág við álit þeirra sem telja má dómbærasta um þá þekkingu sem læknar þurfa að hafa til að bera til að sinna sínu starfi.

Ég tel sem sagt, að með brtt. n. sé gengið til móts við þetta sjónarmið á þann veg, að fullnægjandi sé, og tel í raun að það muni ekki breyta þeirri niðurstöðu sem ella hefði fengist hjá þeim aðilum sem um málið fjalla, bæði landlækni og heilbrrh., því að ég veit að ekki vilja þeir ganga gegn því sjónarmiði, að fullnægjandi þekking sé á bak við störf manna í heilbrigðisþjónustunni, síður en svo. Þeir munu vissulega, að ég held, fullnægja því sjónarmiði og fara eftir því.

Ég vildi aðeins taka þetta atriði fram. Með þeim röksemdum, sem form. n. og frsm. gat hér um áðan, og tilvísun til þeirra umsagna, sem hann las upp úr, get ég fallist á þá brtt. sem öll n. stendur að og raunar kemur fram í því, að við skrifum öll sameiginlega undir þetta nál.

Ég ráðfærði mig við landlækni um þetta atriði, er ég hitti hann hér í þinghúsinu í gær, og taldi hann við fljótlega athugun að þessi niðurstaða n. væri rétt.