16.12.1977
Neðri deild: 32. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1370 í B-deild Alþingistíðinda. (988)

94. mál, læknalög

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs fyrst og fremst til þess að láta í ljós undrun mína yfir ræðu hæstv. heilbrrh. og andmælum hans við þeirri sjálfsögðu breytingu, sem ég tel að n. hafi gert á því frv. sem hér er um að ræða, sem sé að veita leyfi til þessarar tegundar af læknisstörfum að höfðu samráði við læknadeild Háskólans. Það er auðvitað alveg sjálfsagt, þegar jafnmikilvæg réttindi og hér eru veitt, að þeir aðilar séu kvaddir til ráðuneytis sem augljóslega hafa til að bera mesta sérfræðiþekkingu á þessu sviði, og það hlýtur að vera læknadeild Háskólans. Ég veit ekki betur en að almenn lækningaleyfi séu háð umsögn læknadeildar Háskólans, eins og sjálfsagt er. Hví í ósköpunum ætti það þá ekki að gilda um leyfi til þess starfa, sem hér er um að ræða? Ég tel breytinguna því sjálfsagða og hefði talið mjög hæpið að afgr. frv. eins og það var upphaflega lagt fram, þ.e.a.s. án þess að um nokkurn umsagnaraðila væri að ræða.

Það var annað atriði í ræðu hæstv. ráðh. sem ég tel nauðsynlegt að leiðrétta. Hann minntist á það, að á dögum viðreisnarstjórnarinnar voru sett ný háskólalög, háskólalögin endurskoðuð frá grunni, og hann minnti á að það hefði ekki verið gerð breyting á þeirri hefðbundnu skipan, að sumir prófessorar í læknadeild séu jafnframt yfirlæknar á tilteknum deildum á Landsspítalanum. Þetta taldi hann vera orðið úrelt og þessu ætti að breyta, m.ö.o.: láta prófessorana annast eingöngu kennslu, en yfirlæknana vera eingöngu yfirlækna. Þannig skildi ég orð hans. En þessari skoðun er ég algerlega andvigur og tel satt að segja furðulegt að þurfa að hlusta á þessa skoðun af vörum sjálfs heilbrrh, landsins. Honum hlýtur að vera ljóst, eins og öllum öðrum, að læknanámið er aðeins að hluta til bóklegt, en að verulegum hluta verklegt, þ.e.a.s. fólgið í því að sinna störfum á sjúkrahúsum. Verulegur hluti hins 7 ára langa náms læknanema fer fram á spítölunum, á sjúkrahúsunum. Það er fólgið í verklegri kennslu á sjúkrahúsunum sjálfum. Það hefur því verið og er alls staðar með þeim hætti, að kennslustörf eru tengd sjálfum læknisstörfunum. Það er ekki hægt að kenna lækningar eingöngu af bók. Þær verður að kenna með sýnikennsluhætti, ef svo mætti segja. Sú kennsla verður að vera að verulegum hluta verkleg og það er auðvitað ástæðan til þess, að læknakennari getur ekki aðeins kennt í kennslustofu á grundveili bóka, heldur þarf hann að kenna á vinnustað, sem er sjúkrahúsið, og leiðbeina nemendum sínum verklega á þeim stað, þar sem við sjúkdóma er glímt.

Það var engan veginn af misgáningi, íhaldssemi eða vanrækslu sem þessari skipan var haldið þegar háskólalögin voru endurskoðuð í minni menntmrh.- tíð, enda kom þá engin hugmynd fram um að gera slíka breytingu á skipulagi læknadeildarinnar annars vegar og Landsspítalans hins vegar, sem að verulegu leyti er háskólaspítali. Væntanlega þekkir hæstv. ráðh. hugtakið háskólaspítali. Það eru þær stofnanir sem eru kennslustofnanir fyrir háskólana. Í sambandi við alla háskóla, sem annast læknakennslu, eru háskólaspítalar, háskólasjúkrahús. Landsspítalinn á Íslandi er aðalháskólasjúkrahúsið hér á landi. Það væri því tvímælalaust stórt spor aftur á bak ef tekin verður upp sú skipan að greina algjörlega á milli bóklegu kennslunnar annars vegar og sjúkrahúskennslunnar hins vegar. Að þessu leyti eru því háskólalögin eðlileg og ríkjandi skipulag læknakennslunnar fullkomlega eðlilegt, enda nákvæmlega hliðstætt því sem er í öllum nálægum löndum.