16.12.1977
Neðri deild: 32. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (989)

94. mál, læknalög

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það var alveg óþarfi af hv. síðasta ræðumanni að taka fram, að lækniskennslan væri bæði bókleg og verkleg. Ég hugsa að allir þm. viti það. En það hefur farið fram hjá honum — kannske hefur hann ekki tekið betur eftir en svo — sem ég sagði. Ég sagði að það færi ekki saman að vera háskólaprófessor og jafnframt stjórnandi deildar á sjúkrahúsi. Það breytir ekki því, að verkleg og bókleg kennsla í læknisfræði fer fram á háskólasjúkrabú sum og Landsspítalinn er aðalháskóla sjúkrahúsið, en það eru þó kenndar greinar í tveimur öðrum aðalspítölum landsins, eins og allir vita. Það, sem ég átti við og tek fram að ég tel óeðlilegt, er að þegar prófessor er skipaður við læknadeildina, þá sé hann jafnframt yfirlæknir á stórri deild og stjórni henni algjörlega með sinni kennslu. En þau tengsli verða alltaf að vera á milli heilbrigðisstjórnar og læknadeildar, að aðstaða sé fyrir prófessora og aðra kennara við læknadeildina í verklegu námi. Þetta dettur engum í hug að efast um og við þurfum ekkert að efast um það. En það var eitt atriðið, stjórnunaratriðið. Ég tel, eftir því sem deildirnar stækka og sjúkrahúsin verða stærri, að það eigi að vera heilbrigðisstjórnarinnar að ákveða yfirlækninn, en auðvitað menntmrn. að ákveða stöðu prófessora og annarra kennara. Hins vegar verður auðvitað að vera samstarf á milli þessara aðila í sambandi við öll kennslusjúkrahús. Þetta vildi ég láta koma fram, því að um algjöran misskilning var að ræða hjá hv. þm. Ég vil enga breytingu í þá átt, sem hann talaði um, en þessa breytingu vil ég.