19.10.1977
Neðri deild: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

3. mál, íslensk stafsetning

Sverrir Hermannason:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð vegna þess sem fram kom hjá hv. þm. Gunnlaugi Finnssyni, 4. þm. Vestf. Það lá í orðum hans að ég hafi vikið orðum mínum að fjarstöddum ráðh. Það er svo með það, að það er ekki alltaf gott að henda reiður á ráðh., og þó maður víki aðeins að málum sem snerta þá, þá sé ég ekkert athugavert við það. Ég tók það fram að ég hygðist ekki ræða það mál sérstaklega nú og gerði ekki, hafði enda ekki kynnt mér nákvæmlega hvernig málið var vaxið. En tók eftir því í útvarpi einhvers staðar þar sem ég ók leiðar minnar, að hæstv. dómsmrh. hefði skipað n. til þess að endurskoða lög um prestskosningar og hann hefði sett n. þann veg fyrir, að hún skyldi taka mið af innihaldi þáltill. sem flutt var um þetta mál hér í þingi og fékk engan byr, þótt á væri leitað ár eftir ár. Ég tók ekki öðruvísi eftir þessu. En hafi ég misfarið með eitthvað í þessu, þá mun hið sanna koma í ljós, því að ég mun vitanlega nú strax verða mér úti um þessa ákvörðun sem birtist í tilkynningarformi frá dómsmrn., svo að við skulum ekki eyða tímanum í að þræta um þetta.

Ég verð að segja það, að ég hafði mjög mikið gaman af þessu sem ég hafði aldrei heyrt fyrr, að verzlun kynni að vera komið af orðinu vara, og þess vegna var það eitt út af fyrir sig nægilegt til þess að gera ræðu Magnúsar Torfa, hv. þm., merkilega. ef rétt reynist sem ég vil ekki draga í efa. (MÓ: Samstofna.). Samstofna, já, og þess vegna er þar ekkert tannhjólið og þess vegna hefði z-an ekki þurft að vera. Þar sjá menn hversu mikilvægt þetta er, að átta sig á því hvernig uppruni orðanna er, og hversu skemmtilegt þetta er, hversu stórkostlega skemmtilegt þetta er, að sjá alltaf nýja möguleika, hvað okkar mál er auðugt, margslungið og stórkostlegt. En annars sagði hann ekkert sem veigur var í.

Hann sagði að ég mætti ekki sproksetja embættismenn og ætti að hætta því. Við skulum taka okkur annan tíma til þess að ræða hvernig embættismannavaldið hefur færzt í aukana á þessu landi og hvernig hið háa Alþ. hefur látið draga burst úr nefi sínu árum saman. Það á að fara með völdin og á að ráða, og þeir eru framkvæmdastjórar, hæstv. ráðh., framkvæmdastjórar þingsins. En við höfum blómberanleg dæmi um það, hvernig embættislýðurinn hefur sölsað undir sig völdin í æ ríkara mæli. Og við þurfum að fara að taka okkur á, við þurfum að fara að taka okkur heldur betur á, því að við erum til þess kjörnir í frjálsum kosningum að fara með völdin. En það eru margar ástæður sem til þess arna liggja, m.a. það, að við erum allt of fámennir af ráðh., það er allt of fámenn stétt. Hverjum manni er ætlandi, þó að yfirtaks duglegur sé, að hafa bæði með höndum sjávarútvegsmál og heilbrigðis- og tryggingamál á íslandi og ætla þeim manni að ná þann veg tökum á málunum að hann geti stjórnað þeim eins og þyrfti að vera, sem umboðsmaður alls Alþingis? Það er auðvitað augljóst mál, að við getum ekki haft þeim mun hlutfallslega færri ráðh. en önnur þjóðfélög, vegna þess að þetta þjóðfélag, þótt fámennt sé, er alveg jafnmargbrotið tækniþjóðfélag og þau. En gáið að því, að þegar mynduð er stjórn og menn eru að fitja. upp á því að nú þurfi að fjölga ráðh., þá kemur heldur betur hljóð úr horni. Það þarf að spara. Það er hægt að stofna Seðlabanka sem verður fjölmennari á fjórum árum að starfsliði en allt stjórnarráðið, og þá þarf ekki að spara. En ef Alþ. ætlar að velja sér fleiri starfsmenn og framkvæmdastjóra fyrir sig, sem eiga að ráða og verða að ráða, þá er rokið upp til handa og fóta og sagt að við höfum ekki efni á því. Og hverjir haldið þið að stjórni þeim áróðri sem hrífur? Það eru embættismennirnir sem vilja hafa bara einn ráðh. yfir allri súpunni sem kemur helst ekki öðru við en að skrifa nafnið sitt eftir því hvernig þeir rétta að þeim málin. Þetta er stórkostlega athugavert, og ég verð að segja það, að í þessu máli, stafsetningarmálinu okkar, hefur mér virst vera draugagangur embættismanna sem riðið hefur húsum. Ég get ekki að því gert Og af því að mér finnst þetta, þá hef ég orð á því. Ég segi frá því af því að það er skoðun mín að vænn maður eins og hæstv. menntmrh., sem sjálfur hefur látið í það skína æ ofan í æ að hann vilji sættir í þessu máli, hefur ekki fengið að ráða sínum næturstað hvað það snertir. Þetta er skoðun mín, ég get ekki dulið hana og kæri mig ekkert um það.

En svo sagði hinn prúði maður, Magnús Torfi Ólafsson, hv, þm , að það væru þeir, sem hafa staðið gegn og beitt sér gegn breytingum frá 1973, sem hafa valdið því, eins og hann orðaði það, ef hrærigrautur ríkir í stafsetningarmálum. Ég satt að segja skal engum getum að því leiða, hvað veldur þeim hugarruglingi sem grínið hefur þennan hv. ágæta mann í þessu máli. En hvílíkur öfugsnúður, hvílík öfugmæli eru þetta ekki! Hverjir bera ábyrgð á þeirri feiknalegu þrætu, sem er upp risin um þetta mál, nema þeir sem hófu að breyta stafsetningarreglunum gersamlega að ófyrirsynju og ekki nálægt því að nægjanlega athuguðu máli? Við hljótum, ef við metum málið af sanngirni og yfirvegað, að sjá að að þeirri breytingu var ekki staðið með sómasamlegum hætti, þó að ekki sé meira sagt. Og a.m.k., þó að þeir beri ekki alla ábyrgðina, þá veldur sá miklu sem upphafinu veldur.

En ég enda þessi orð mín nú á því að minna á þetta sem var aðalinntak minnar ræðu, að skora á þm. að ganga nú með opnum huga til sátta í málinu, ef þess er nokkur kostur. Ég minni á það, sem var það bitastæða sem fram kom á ráðstefnunni sem hæstv. menntmrh. beitti sér fyrir, till. formanns endurskoðunarnefndarinnar um stafsetningu, Halldórs Halldórssonar, að sættir yrðu reyndar á þessum grundvelli, einvörðungu að varðveita z-una í stofninum, sem er höfuðmálið ef við viljum byggja og treysta uppruna málsins okkar. Þetta var það þegar upp var staðið á þeirri ráðstefnu. Og við getum að öðru leyti stytt mál okkar í þessu efni en hver og einn ættum við að velta fyrir okkur: Er þetta sá kostur sem við eigum á því að sættir náist, því að allt annað leiðir til öngþveitis og stóraukinna erfiðleika alveg í náinni framtíð? Ég hygg, eftir því sem ég hef kynnt mér málíð betur og borið undir fleiri málsmetandi menn, að þá sé þetta möguleiki. Ég sagði áðan, að ég teldi mig beygja mig djúpt og teygja mig langt með því að fallast á að menn héldu sig einvörðungu við stofn orðanna. En samt sem áður vil ég kosta því til, því að ég vil flestu til kosta að sættir megi takast, svo að við þurfum ekki að búa við þessa upplausn áfram.