06.04.1929
Efri deild: 38. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2731 í B-deild Alþingistíðinda. (1564)

115. mál, íbúð í kjöllurum

Flm. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Frv. þetta um íbúð í jarðhúsum (kjöllurum), er jeg flyt hjer ásamt hv. 5. landsk., hafa hv. dm. nú átt kost á að kynna sjer ásamt grg. þess, svo jeg þarf ekki að halda langa ræðu að þessu sinni. Þó vil jeg fylgja því úr hlaði með örfáum orðum. Mál þetta, sem í eðli sínu er bæði menningar- og heilbrigðismál, er flutt í þeim tilgangi að reyna að bæta úr því algerlega óþolandi ástandi, er nú tíðkast hjer að því er jarðhúsaíbúðir snertir. Eru í 1. gr. frv. talin upp þau atriði, sem teljast verða nauðsynleg skilyrði þess, að nota megi jarðhúsaíbúðir. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Í kaupstöðum, sem hafa yfir 100 íbúa, má því aðeins gera íbúðir í jarðhúsum, að eftirfarandi skilyrðum sje fullnægt“. En þau eru: 1. að jarðhúsið sje ekki dýpra í jörðu en 1 m. á þeim hluta, er íbúðarherbergi eru; 2. að allir gluggar viti mót sólarátt, að eldhúsi og búri fráskildu; 3. að forgarður ekki mjórri en 6 m. greini húsið frá götunni, og í 4. lagi, að öll íbúðin sje rakalaus, með sæmilegri hitun og umgengni.

Með þessum skilyrðum er það meiningin að bæta úr því óþolandi ástandi í þessum efnum, er á sjer stað hjer í Reykjavík og víðar. Þetta er sú gr. frv., sem mestu máli skiftir, en jeg vil Í sambandi við hana geta þess, að rjettara mundi ef til vill að breyta ákv. í 3. lið 1. gr., svo að þar komi 4 m. í stað 6 m. Hygg jeg það öllu framkvæmanlegra. Í 2. gr. er talað um það, að bæjarstjórnum og hreppsnefndum sje heimilt að banna íbúð í jarðhúsum, ef þær fullnægi ekki skilyrðum 1. gr. í 3. gr. eru ákvæði um það, að haldin skuli sjerstök skrá yfir allar jarðhúsaíbúðir í kauptúnum, og skal þar tekið fram, að hve miklu leyti þær fullnægja skilyrðum 1. gr. Þær íbúðir, er ekki fullnægja þeim, skal skoða árlega og leiðrjetta skrá þá, er fyr var getið, eftir því, hverjar breytingar hafa orðið á íbúðinni. 4. gr. kveður á um það, að við hver áramót skal bæjarstjórn velja úr þær jarðhúsaíbúðir, er lakastar eru, ekki færri en 1/30 af öllum jarðhúsaíbúðum kauptúnsins. Skal svo senda skriflega tilkynningu um bannið bæði til húseiganda og leigjanda. Er ætlun með þessu, að afnumdar verði á 30 árum allar þær íbúðir, er ekki fullnægja skilyrðum 1. gr., og væri þá mikið fengið. Loks segir í 5. gr., að skaðabóta verði ekki krafist, þótt bönnuð sje íbúð í jarðhúsi, nema hún fullnægi ákvæðum 1. gr.

Jeg veit nú, að í því, er jeg hefi nú sagt, felst ekki annað eða meira en það, er í frv. stendur, en nú skal jeg gera nánari grein fyrir skilningi okkar flm. á þessu máli.

Ef til vill finst nú einhverjum, að fullfast sje kveðið á um þetta í grg. frv., þar sem sagt er, að jarðhúsaíbúðir sjeu blettur á þjóðinni og hættulegar fyrir heilbrigði manna. En jeg get nú ekki litið svo á, því að jeg verð að álíta, að slíkar íbúðir sjeu bæði menningarskortur og mjög spillandi fyrir heilbrigði manna og sje því óhætt að segja, að þær sjeu bæði til skaða og skammar. Enda er það svo, að allar menningarþjóðir, er láta sjer ant um velferð þegna sinna, hafa sett ákvæði svipuð þessum í löggjöf sína, svo einstakir menn geti ekki notað sjer neyð annara til þess að leigja út og okra á svona íbúðum.

Helstu gallar jarðhúsaíbúðanna eru þeir, að þær eru alt í senn, loftillar, dimmar og rakasamar, og það oft í þeim mæli, að ómögulegt er að halda neinum hlutum óskemdum í þeim, ætu nje óætu. Af þessum ástæðum eru þær oft gersamlega óhæfir bústaðir fyrir ungbörn og gamalmenni, og enda fólk á besta aldri.

Þessar íbúðir hafa færst mjög í vöxt upp á síðkastið, enda þótt engu af skilyrðum þeim, er gert er ráð fyrir í 1. gr., hafi verið fylgt. En það, að altaf hafa fengist nógir til að búa í slíkum íbúðum, kemur vitanlega til af húsnæðisvandræðunum. Síðan hefir verið okrað á þessum íbúðum, og er nú ástandið í þessum efnum svo, að það er gersamlega óviðunandi.

Þó að jeg sje nú ekki sjerstaklega byggingarfróð, hefi jeg kynt mjer nokkuð þessi efni og veit, að rakahættan er mest í jarðvegi, sem mikið vatn er í, og afleiðing þess eru svo kaldir veggir. Þess vegna þarf í öllum þessum jarðhúsaíbúðum að fóðra veggina miklu betur en gert er. Hvað birtuna og sólina snertir er óhætt að segja það, að það er ekki síður selt hjer en annað, og hafa þeir þá mest, er ríkastir eru að aurum. Þeir fátæku verða að láta sjer lynda að dvelja í skugganum. Við þessu er nauðsynlegt að reisa einhverjar skorður, því allir verða að hafa jafnan rjett til þess á njóta sólarbirtunnar. Vonda andrúmsloftið stafar af mörgu, og þá fyrst og fremst af þeirri kolsýru, er safnast fyrir á rökum og dimmum stöðum. Verður þá af henni illur daunn. Í þessu sambandi er og rjett að geta þess, að vegna þess hve byggingarskipulagi bæjanna er ábótavant hefir ekki verið hægt að hafa forgarð framan við húsin, heldur hefir aðeins verið og er mjó ræma milli hússins og götunnar. Er því á slíkum húsum varla hægt að opna glugga, því óðara er alt orðið fult af ryki og öðrum óþverra. Auk þess verður að breiða fyrir gluggana, svo ekki sjáist mjög mikið inn, en af því leiðir aftur, að birtan verður ekki eins góð.

Ef því væri horfið að því að fullnægja ákvæðum eins og þeim, sem 1. gr. gerir ráð fyrir, mundi þetta alt batna. íbúðirnar yrðu bjartari, hollari og hlýrri.

Jeg gat þess fyr í ræðu minni, að 6 m. milli húss og götu væri ef til vill óþarflega langt og að það mundi nægja, þó bilið væri ekki nema 4 m. Þetta vil jeg biðja þá hv. n., er fær málið til meðferðar, að athuga.

Nú mun það svo, að varla er bygt nokkurt hús án þess að undir því sje jarðhús. Hefi jeg spurst fyrir um það, hvernig kostnaðarhlutföll við húsbyggingu verði, og hafa fróðir menn sagt mjer, að jarðhúsin sjeu síst ódýrari en aðrar hæðir hússins. Af því leiðir, að ekki er eins vel vandað til þeirra og þyrfti, og svo verður leigan af þeim eðlilega hærri að tiltölu. Líti maður svo sem 30 ár aftur í tímann, þá var það svo hjer, að jarðhúsaíbúðir voru mjög fáar. Hjer í Reykjavík man jeg aðeins eftir tveimur. Var önnur notuð fyrir skósmíðaverkstæði, en í hinni mun hafa verið búið. Svona var nú þetta þá, og skal jeg láta menn sjálfráða um það, hvort þeir álíta núv. ástand framför frá því. Komi maður til Bretlands, er það mjög fátítt, að maður sjái jarðhús, og eru Bretar þó ekki taldir óhagsýnni hvað byggingar snertir en aðrir.

Ef horfið verður nú að því ráði, er við hv. 5. landsk. leggjum til í þessu frv. okkar, er jeg ekki í vafa um það, að slíkt væri hið mesta menningarspor og mundi bæta heilbrigðisástand manna allverulega. Þá mundi fólkið flytjast úr hinum ljelegu jarðhúsum í betri híbýli, á 1. eða 2. hæð. En ef hjálpa á öllum til þess að komast upp úr jörðinni, verður það einungis gert með lagaboði, því altaf verða nógu margir, sem reyna að hagnast í því að leigja út jarðhúsaíbúðir. Þingið þarf því að taka nokkuð föstum tökum á þessu máli, því þjóðin horfir þangað, sem löggjafinn er, og treystir því, að hann gefi út fyrirskipanir, er verða henni til heilla.

Þó ekki sje ef til vill hægt að segja, að þetta mál sje stórmál, þá vonast jeg samt eftir, að hv. dm. taki því með skilningi og vinsemd og bæti úr því, er ábótavant þykir við frv. En jeg skal strax taka það fram, að jeg mun verða mjög ófús til þess að slaka nokkuð til á þeim kröfum, er gerðar eru í frv.

Jeg vona, að hv. n. geri ekkert það, sem dragi úr þeim umbótum, sem frv. felur í sjer, á jarðhúsaíbúðum. Það er sagt, að í Reykjavík sjeu um 800 slíkar íbúðir, en eftir till. þeim, sem fram eru bornar í frv., ætti að fara svo, að eftir 30 ár yrðu allar slíkar íbúðir horfnar, og er þá vel farið.

Jeg ætla ekki að fjölyrða frekar um málið að þessu sinni. Jeg vona, að frv. verði vel tekið og að hv. n. sýni okkur flm. þá vinsemd að ráðgast við okkur um þau atriði, sem ástæða kynni að vera til að breyta til batnaðar. Jeg geri það að till. minni, að frv. verði vísað til allshn.