23.01.1984
Sameinað þing: 36. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2257 í B-deild Alþingistíðinda. (1990)

Minnst látinna fyrrv. alþingismanna

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Föstudaginn 13. janúar létust tveir fyrrv. alþm. Magnús Jónsson bankastjóri og fyrrv. fjmrh. andaðist á heimili sínu í Mosfellssveit aðfaranótt þess dags, 64 ára. Guðbrandur Ísberg fyrrv. sýslumaður andaðist miðdegis í Héraðshælinu á Blönduósi á 91. aldursári.

Magnús Jónsson var fæddur 7. sept. 1919 á Torfmýri í Akrahreppi. Foreldrar hans voru hjónin Jón Eyþór Jónsson bóndi þar, síðar á Mel í Staðarhreppi, og Ingibjörg Magnúsdóttir. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1940 og lögfræðiprófi í Háskóla Íslands 1946. Á árunum 1946–1948 var hann ritstjóri Íslendings, blaðs sjálfstæðismanna á Akureyri. Fulltrúi í fjmrn. var hann 1948–1953, framkvæmdastjóri Sjálfstfl. 1953—1960 og bankastjóri Búnaðarbanka Íslands 1961–1965 og aftur frá 1971 til dánardags. Frá 8. maí 1965 til 14. júlí 1971 var hann fjmrh. Við alþingiskosningarnar 1949 var hann kjörinn varaþm. Eyfirðinga og tók sæti á Alþingi vegna forfalla aðalmanns í nóv. 1951 og var á þingi út kjörtímabitið. Síðan var hann þm. Eyfirðinga 1953–1959 og þm. Norðurl. e. 1959–1974, er hann gaf ekki kost á þingsetu vegna heilsubrests. Alls sat hann á 24 þingum.

Jafnframt aðalstarfi var Magnús Jónsson valinn til ýmissa starfa í félagsmálum og þjóðmálum. Hann var formaður sambands ungra sjálfstæðismanna 1949–1955, átti lengi sæti í miðstjórn Sjálfstfl. og var varaformaður 1973–1974. Hann var formaður íslensku þingmannanefndarinnar á stofnþingi Norðurlandaráðs 1952, átti síðan sæti í ráðinu sem varamaður til 1959 og aðalmaður til 1965. Hann sat þing Alþjóðaþingmannasambandsins 1961 og 1964 og var þá formaður Íslandsdeildarinnar. Árið 1949 var hann skipaður formaður nefndar til þess að rannsaka kaup og kjör starfsmanna ríkisins, skipaður 1950 í stjórn skuldaskilasjóðs útvegsmanna, skipaður 1954 og 1958 í nefnd til þess að athuga leiðir til sparnaðar í ríkisrekstrinum. Hann var í raforkuráði, síðar orkuráði 1954–1975 og formaður þess frá 1962. Í áfengisvarnaráði 1954–1965, kosinn í atvinnumálanefnd ríkisins 1955 og í milliliðagróðanefnd 1956. Hann var formaður úthlutunarnefndar atvinnuaukningarfjár 1959–1962 og formaður stjórnar atvinnubótasjóðs, síðan atvinnujöfnunarsjóðs 1962–1971. Í flugráði var hann 1961–1963. Árið 1961 var hann skipaður í endurskoðunarnefnd laga um stofnlán landbúnaðarins og 1962 í nefnd til þess að athuga um stofnun lífeyrissjóðs fyrir bændur. Hann var í stóriðjunefnd 1963–1965, var kosinn í áfengismálanefnd 1964 og varð formaður hennar. Í stjórn Kísiliðjunnar var hann 1964–1983, var formaður stjórnarinnar, og í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins 1972–1974. Árið 1972 var hann skipaður í nefnd til að endurskoða bankakerfið og í endurskoðunarnefnd laga um stofnlánadeild landbúnaðarins.

Magnús Jónsson ólst upp við sveitastörf og vann oft síðar á ævinni í sumarleyfum við heyskap á búi foreldra sinna í Skagafirði. Á námsárunum fékk hann í störfum sínum á sumrum nokkur kynni af atvinnuháttum við sjávarsíðuna. Hann var oft valinn til forustustarfa við lausn vanda í atvinnu- og byggðamálum og kom lífsreynsla hans og kunnugleiki að haldi þar og ekki síst í því aðalstarfi sem hann gegndi lengst, bankastjórastarfi í Búnaðarbanka Íslands.

Magnús Jónsson var alla ævi bindindismaður og áhugasamur um bindindismál. Hann var á skólaárum í stjórn sambands bindindisfélaga í skólum og 1955–1957 var hann formaður Landssambandsins gegn áfengisbölinu, auk þeirra starfa á því sviði sem áður er getið.

Magnús Jónsson hóf ungur afskipti af stjórnmálum og var, eins og áður er getið, valinn til forustu- og ábyrgðarstarfa af flokksbræðrum sínum. Í fimm ár vann hann í fjmrn. og átti síðan sæti í fjvn. þangað til hann tók við bankastjórastörfum og var formaður nefndarinnar á síðasta þinginu. Hann var því vel undir það búinn að taka við starfi fjmrh. Í því starfi beitti hann sér fyrir nýrri skipan við gerð fjárlaga og stýrði fjármálum ríkisins af þekkingu og glöggskyggni bæði í góðu og óhagstæðu árferði.

Magnús Jónsson vandaði til allra verka sinna. Hann vakti ungur athygli í ræðustól fyrir mælsku og rökfestu. Hann var heilsteyptur, sanngjarn og ósérhlífinn og naut trausts samstarfsmanna sinna á Alþingi og í öðrum stofnunum. Á góðum aldri varð hann fyrir alvarlegri heilsubilun og hlaut þá að létta af sér störfum. Með kjarki og þrautseigju og dyggum stuðningi komst hann fljótlega aftur til aðalstarfs síns, sem hann gegndi með eðlislægri samviskusemi og árvekni til síðasta ævidags.

Guðbrandur Ísberg var fæddur 28. maí 1983 í Snóksdal í Miðdalahreppi í Dalasýslu. Foreldrar hans voru hjónin Magnús bóndi þar Kristjánsson og Guðrún Gísladóttir. Árið 1916 tók hann sér ættarnafnið Ísberg. Hann lauk stúdentsprófi í Menntaskólanum í Reykjavík 1916 eftir þriggja ára nám þar. Um haustið fór hann til Kaupmannahafnar og tók að nema hagfræði í háskólanum þar. Á árunum 1917–1919 var hann jafnframt námi starfsmaður í íslensku stjórnarráðsskrifstofunni í Kaupmannahöfn. Haustið 1919 hóf hann lögfræðinám í Háskóla Íslands og lauk prófi 1923. Síðan rak hann málflutningsskrifstofu á Akureyri og stundaði jafnframt búskap á Möðrufelli í Hrafnagilshreppi. 1931–1932 var hann fulltrúi sýslumannsins í Eyjafjarðarsýslu og bæjarfógetans á Akureyri, bjó þá á nýbýlinu Litla-Hvammi í Hrafnagilshreppi. Haustið 1932 varð hann sýslumaður í Húnavatnssýslu og gegndi því embætti til 1960. Hann var í framboði fyrir Sjálfstfl. og var kjörinn þm. Akureyringa 1931 og átti sæti á Alþingi til 1937, sat á 8 þingum alls. Formaður yfirkjörstjórnar Norðurl. v. var hann 1959–1967.

Guðbrandur Ísberg var tveggja ára þegar móðir hans dó og sex ára missti hann föður sinn. innan fermingaraldurs fór hann að sjá fyrir sér sjálfur og vann á unglingsárum í sveit og á sjó. Hugur hans stefndi til mennta þegar aðstæður leyfðu. Hann nam í unglingaskóla í Hjarðarholti í Dölum og settist í 4. bekk Menntaskólans í Reykjavík tvítugur að aldri. Tæpa þrjá áratugi var hann sýslumaður og naut vinsælda í héraði. Hann stundaði lengi búskap jafnframt öðrum störfum, var áhugamaður um hestamennsku og átti góðhesta til æviloka. Á Alþingi átti hann fyrst sæti í sjútvn. og menntmn., síðar í landbn., allshn. og iðnn. Hann tók jafnan talsverðan þátt í umr. á þingi, var vel máli farinn og gagnorður. Á síðasta þingi sínu flutti hann að tilstuðlan forráðamanna Akureyrarkaupstaðar frv., sem varð að lögum, um virkjun Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Nú er hátt í hálfa öld síðan hann sá sér ekki fært að vera í framboði lengur vegna embættisanna og hvarf af Alþingi.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Magnúsar Jónssonar og Guðbrands Ísberg með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]