10.10.1985
Sameinað þing: 1. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Minning Axels Jónssonar

Aldursforseti (Stefán Valgeirsson):

Ég býð hv. alþm. og starfsfólk Alþingis velkomið til starfa. Þá verður minnst látins fyrrv. alþingismanns.

Axel Jónsson fyrrverandi alþingismaður andaðist laugardaginn 30. ágúst, 63 ára.

Axel Jónsson var fæddur í Reykjavík 8. júní 1922. Foreldrar hans voru Jón klæðskeri þar Björnsson bónda í Núpsdalstungu í Miðfirði Jónssonar og Lára Þórhannesdóttir bónda á Glæsivöllum og síðar á Melum í Miðdölum Gíslasonar. Um fermingaraldur fluttist Axel með móður sinni að Hvítanesi í Kjós. Veturinn 1937-1938 stundaði hann gagnfræðanám í Reykjavík. Rúmlega tvítugur að aldri reisti hann nýbýlið Fell í landi Blönduholts í Kjós og stundaði jafnframt bifreiðaakstur. Árið 1953 flyst hann til Kópavogs og er sundlaugavörður í Reykjavík til 1959 og síðan forstjóri Sundlauganna til 1961. Árin 1962-1968 er hann fulltrúi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, síðan fulltrúi hjá Almannavörnum ríkisins 1968-1971 og loks framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga í Reykjaneskjördæmi 1971-1978.

Axel Jónsson var löngum áhugamaður um félagsmál og þjóðmál og valinn til margs konar forustustarfa. Hann var formaður Ungmennafélagsins Drengs í Kjós 1946-1949, formaður Ungmennasambands Kjalarnesþings 1950-1956, í stjórn Ungmennafélags Íslands 1955-1957, í stjórn Íþróttasambands Íslands 1959-1964 og formaður Æskulýðssambands Íslands 1959-1960. Hann var kosinn í áfengismálanefnd 1964 og í stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs 1974-1978. Hann var í bæjarstjórn Kópavogskaupstaðar 1962-1982, sat lengi í bæjarráði og var forseti bæjarstjórnar 1976-1977. Í alþingiskosningunum 1963 var hann kjörinn varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjaneskjördæmi og átti sæti á öllum þingum til 1978, oft sem varaþingmaður en hlaut fast sæti á Alþingi 1965-1967 og 1969-1971 vegna fráfalls kjörinna þingmanna og var að síðustu landskjörinn alþm. 1974-1978. Alls átti hann sæti á 16 þingum.

Axel Jónsson stundaði íþróttir á unglingsárum og tamdi sér í góðum félagsskap drenglyndi í viðskiptum í hvívetna. Hann var ósérhlífinn og samvinnuþýður og ávann sér traust með störfum sínum. Árum saman vann hann að bæjarmálum í Kópavogi og átti bæjarfélagið farsælan og ötulan liðsmann í forustusveit þar sem hann var. Flokki sínum vann hann af alhug, stefnufastur, gætinn og hófsamur. Hátt í tvo áratugi átti hann við heilsubrest að stríða, en hélt áfram störfum svo lengi sem auðið var. Síðustu æviárin hlaut hann þó að draga sig í nokkurt hlé.

Ég vil biðja þingheim að minnast Axels Jónssonar með því að rísa úr sætum. - [Þingmenn risu úr sætum. ]