08.03.1978
Sameinað þing: 54. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2814 í B-deild Alþingistíðinda. (2057)

Minnst látins fyrrverandi alþingismanns

Forseti (Ásgeir Bjarnason) :

Karl Kristjánsson fyrrv. alþm. andaðist í gær, þriðjudaginn 7. mars, í Borgarspítalanum eftir nokkurra mánaða sjúkralegu, hátt á 83. aldursári. Til þessa fundar er boðað til að minnast hans.

Karl Kristjánsson var fæddur í Kaldbak við Húsavík 10. maí 1895. Foreldrar hans voru Kristján bóndi þar, síðast í Eyvík á Tjörnesi Sigfússon bónda í Sultum og á Bangastöðum í Kelduhverfi Sigurðssonar og kona hans Jakobína Jósíasdóttir bónda og sjósóknara í Kaldbak og viðar Rafnssonar. Hann stundaði nám í unglingaskóla í Húsavík veturinn 1909–1910, hóf gagnfræðanám á Akureyri haustið 1914 og lauk gagnfræðaprófi vorið 1916. Næstu árin vann hann á búi foreldra sinna, en var jafnframt barnakennari í Tjörneshreppi veturna 1916–1920. Á þeim árum var hann valinn til forustu í félagsmálum sveitar sinnar. Hann var formaður Ungmennafélags Tjörnesinga 1916–1930, og deildarstjóri í Tjörnesdeild Kaupfélags Þingeyinga varð hann árið 1918. Á árinu 1920 hóf hann búskap í Eyvík og á næsta ári, 1921. var hann kosinn í hreppsnefnd Tjörneshrepps og átti sæti í henni þar til hann lét af búskap og fluttist til Húsavíkur árið 1935. Oddviti var hann frá 1928 og sýslunefndarmaður frá 1931. Hann var annar af tveimur gæslustjórum Kaupfél. Þingeyinga 192-'25 og var kosinn í stjórn Kaupfélagsins árið 1925. Forstjóri Sparisjóðs Kaupfélags Þingeyinga var hann frá 1932–1965. Honum var falin framkvæmdastjórn Kaupfélags Þingeyinga á þrengingatímum þess 1935–1937, og hann var kosinn í hreppsnefnd Húsavíkurhrepps og var oddviti hennar 1937–1949. Við upphaf Húsavíkurkaupstaðar í ársbyrjun 1950 var hann kjörinn í bæjarstjórn og átti sæti í henni til 1910. Jafnframt var hann fyrsti bæjarstjóri Húsavíkur til hausts 1950. Forseti bæjarstjórnar var hann 1950–1954 og 1955–1962.

Karl Kristjánsson var kjörinn alþm. Suður-Þingeyinga árið 1949, var síðan þm. Norðurlandskjördæmis eystra og átti sæti á Alþingi samfellt til vors 1967, sat á 19 þingum alls. Hann var alla sína þingmannstíð skrifari í Ed., var á tímabili varaforseti Sþ. og aldursforseti síðustu árin. Hann átti löngum sæti í fjvn. og fjhn. Árið 1939 var hann skipaður formaður endurskoðunarnefndar löggjafar um sveitarstjórnarmál. Hann var skipaður í endurskoðunarnefnd löggjafar um skattamál árið 1952. Um þær mundir átti hann sæti í stjórnarskrárnefnd og lagði þar fram till. sínar í stjórnarskrármálinu í ársbyrjun 1953. Árið 1957 var hann skipaður í endurskoðunarnefnd vinnulöggjafarinnar og á sama ári formaður endurskoðunarnefndar lagaákvæða um skattamál hjóna. Þingkjörinn endurskoðandi Útvegsbankans var hann 1959–1971. Hann var skipaður í samninganefnd um kísilgúrverksmiðju árið 1965 og átti sæti í stjórn kísilgúrverksmiðjunnar og síðar Kísiliðjunnar 1966–1971.

Karl Kristjánsson var mikill félagsmaður. Hér hefur verið drepið á ýmislegt af störfum hans að félagsmálum og þó eigi nærri allt talið. Ungur var hann talinn til foringja fallinn. Um hálfa öld var hann forustumaður í sveitarstjórnarmálum heima í héraði. Hann var einn forgöngumanna að stofnun Sambands ísl. sveitarfélaga og átti sæti í fulltrúaráði þess frá stofnun sambandsins til þess er hann lét af sveitarstjórnarstörfum vegna aldurs. Var hann þá kjörinn heiðursfélagi sambandsins. Hann gjörþekkti sögu sveitarmálefna á heimaslóðum sínum, og bæjarstjórn Húsavíkur fól honum að draga saman efni í sögu sveitarfélagsins. Var það aðalstarf hans síðustu æviárin, og vann hann að því verki svo lengi sem starfskraftar entust.

Karl Kristjánsson var samvinnumaður og gegndi margs konar forustustörfum í Kaupfélagi Þingeyinga. Naut það mannkosta hans lengi og vel, og var hann kjörinn heiðursfélagi Kaupfélagsins á 90 ára afmæli þess.

Karl Kristjánsson var atgervismaður. Hann var góðbóndi um skeið, hafði gott fjárbú og naut hestamennsku bæði þá og síðar, var ágætur tamningamaður. Hann kunni margar aðrar íþróttir, var rammur að afli, stundaði glímu og var alla tíð áhugamaður um glímuíþróttina. Orðsins list var honum töm. Hann var ljóðelskur, skáldmæltur og hagorður, orti fleygar stökur og ritaði íslenskt mál með glæsibrag. Hann var listaskrifari, vandaði allt sem hann lagði hönd að. Ræðumennska hans var gjörhugsuð og rökföst. Í einni vísu sinni líkti hann lífi mannsins við ástæður þess manns, sem fer á skóg með eina ör, á þessa leið:

„Dauðinn kemur, dýrt er fjör,

dagsins stutt að njóta,

sá, sem hefur eina ör,

ei má gálaust skjóta.“

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Karls Kristjánssonar með því að risa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]