01.02.1965
Sameinað þing: 23. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2340 í B-deild Alþingistíðinda. (2101)

Minning látinna manna

forseti (BF):

Eftir þinghléið, sem nú er að ljúka, söknum við eins fulltrúa hér á Alþingi. Óafur Thors fyrrv. forsrh. andaðist í Landakotsspítala 31. desember, tæpra 73 ára að aldri.

Hann var elztur okkar að árum og átti lengsta þingsetu að baki, nær fjóra tugi ára. Hann gegndi störfum aldursforseta í upphafi þessa þings, en varð að láta af þingstörfum sökum veikinda 27. okt. s.l. og átti ekki afturkvæmt til þingsetu.

Skömmu eftir andlát Ólafs Thors barst önnur harmafregn. Thor Thors ambassador Íslands í Bandaríkjunum og fulltrúi landsins á þingi Sameinuðu þjóðanna andaðist 11. janúar á heimili sínu í Washington, 61 árs að aldri. Vil ég leyfa mér að minnast þessara mikilhæfu og víðkunnu bræðra, áður en horfið verður að öðrum verkefnum þingsins.

Ólafur Thors var fæddur 19. jan. 1892 í Borgarnesi. Foreldrar hans voru Thor Jensen kaupmaður þar, síðar þjóðkunnur athafnamaður og kona hans, Margrét Þorbjörg Kristjánsdóttir bónda í Hraunhöfn í Staðarsveit Sigurðssonar. Hann lauk stúdentsprófi frá menntaskólanum í Reykjavik 1912 og heimspekiprófi frá háskólanum í Kaupmannahöfn 1913. Árið 1914 varð hann framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Kveldúlfs og hafði það starf með höndum í áratug. Ævistarf hans var eftir það að langmestu leyti unnið á vettvangi stjórnmála og landsstjórnar og þar hefur hann markað þau spor, sem lengi mun getið í sögu Íslendinga. Hann tók sæti á Alþingi snemma árs 1926 og átti hér setu óslitið síðan, á 48 þingum alls. Formaður Sjálfstfl. var hann frá 1934 –1961, er hann kaus að láta af því starfi sökum vanheilsu. Hann var dómsmrh. um skeið síðla árs 1932, atvmrh. frá vori 1939 til vors 1942, síðan fors.- og utanrrh. fram undir árslok 1942. Fors.- og utanrrh. var hann á ný frá hausti 1944 fram í febr. 1947, því næst forsrh. frá því í des. 1949 fram í marz 1950, síðan atvmrh. fram á sumar 1953. Forsrh. var hann enn á ný frá miðju ári 1953 til miðs árs 1956. Loks var hann forsrh. frá því í nóv. 1959, þar til hann sagði af sér að læknisráði í nóv. 1963. Af öðrum störfum Olafs Thors að opinberum málum skulu þessi nefnd: Hann var skipaður í gengisnefnd 1925 og átti sæti í samninganefnd um kjöttoll við Norðmenn 1932. Í landsbankanefnd var hann 1928–1938 og í bankaráði Landsbankans 1936–1944 og frá 1948 til dánardags. Í dansk-íslenzkri ráðgjafarnefnd átti hann sæti 1937–1938 og um skeið í orðunefnd og í stjórn Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda.

Ólafur Thors kynntist í foreldrahúsum stórhug og miklum framkvæmdum í atvinnulífi þjóðarinnar. Hann hvarf rúmlega tvítugur frá skólanámi að stjórnarstörfum í öflugu og vaxandi útgerðarfélagi með föður sínum og bræðrum. Þegar hann settist á Alþingi, tók hann í fyrstu sæti í sjútvn., en átti síðar lengi sæti í fjhn. og utanrmn. Á Alþingi lét hann þegar mikið að sér kveða og samflokksmenn hans sáu fljótt, að hann mundi vel fallinn til forustu. Ólafur Thors var um áratugi formaður stærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar og hafa flokksmenn þess flokks jafnan rómað mjög forustuhæfileika hans, þótt að sjálfsögðu hafi stundum verið deilt um stefnu og leiðir að settu marki. Hann átti oft og lengi sæti í ríkisstj. af hálfu flokks síns, lengst af í samstarfi við aðra stjórnmálaflokka og var forsrh. í fimm ríkisstj.

Um stjórnmálastefnu og störf Olafs Thors hefur löngum verið deilt hart, eins og vænta má um slíkan forustumann. Hann var mælskur og markviss andstæðingur í kappræðum, mikill málafylgjumaður og harðsækinn baráttumaður. En hann var einnig manna sáttfúsastur og góður samstarfsmaður andstæðinga sinna í stjórnmálum, ef til þurfti að taka. Hann var gæddur ríkum hæfileikum til að tala menn á sitt mál með hispursleysi, húmör og smitandi fjöri. Einnig var hann fljótur að átta sig á málavöxtum og fús til að hlíta góðum ráðum annarra og að þessu samanlögðu var hann dugmikill og óviðjafnanlegur samningamaður. Hann var bjartsýnn hugsjónamaður á tímum mikilla breytinga og framfara í íslenzku þjóðlífi, djarfur og framtakssamur. Undir forustu hans voru teknar margar örlagaríkar ákvarðanir í þjóðmálum. Sjávarútvegs- og fiskveiðimál voru honum jafnan hugleikin og hann átti ríkan þátt í veigamiklum ákvörðunum og aðgerðum á þeim sviðum. Hann vann ötullega að stofnun lýðveldis á Íslandi á árinu 1944 og í samskiptum og samningum við aðrar þjóðir stefndi hann jafnan af heilum hug að því, sem hann taldi þjóð sinni fyrir beztu. Hann var á þeim vettvangi sem annars staðar aðsópsmikill, virðulegur og einlægur fulltrúi þjóðar sinnar og þess málstaðar, sem hann barðist fyrir.

Ólafur Thors var í viðkynningu og samstarfi hvers manns hugljúfi, kátur, orðheppinn og gáskafullur, drenglundaður, hjálpsamur og góðgjarn. Hann var höfðinglegur og svipmikill í fasi og kunni vel að slá á þá strengi, sem við áttu hverju sinni. Við fráfall hans söknum við alþm. góðs félaga og samstarfsmanns, flokksmenn hans harma missi mikils og giftudrjúgs foringja og þjóðin öll á á bak að sjá miklum stjórnmálamanni. Með honum er horfinn af Alþingi svipmikill og einstæður persónuleiki, — maður, sem var dáður af samherjum sínum, mikilisvirtur og viðurkenndur af öllum andstæðingum.

Thor Thors var fæddur 26. nóv. 1903 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Thor Jensen og Margrét Þorbjörg Kristjánsdóttir. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1922 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands í ársbyrjun 1926. Síðan stundaði hann framhaldanám í hagfræði erlendis fram á árið 1927. Hann var framkvæmdastjóri Kveldúlfs 1927– 1934 og forstjóri Sölusambands ísl. fiskframleiðenda 1934–1940. Í ágúst 1940 var hann skipaður aðalræðismaður Íslands í New York, en í okt. 1941 var hann skipaður sendiherra Íslands í Bandaríkjunum og ambassador þar 1955. Jafnframt var hann sendiherra og síðar ambassador í Kanada, sendiherra í Argentínu, Brasilíu og á Kúbu. Hann var formaður sendinefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum frá upphafi, 1948, og skipaður fastur fulltrúi Íslands þar sumrið 1947. Á námslárum og starfsárum sínum hér heima var hann valinn til forustu í félagsmálum, bæði í hópi stúdenta og innan þess stjórnmálaflokks, sem hann skipaði sér í. Á þeim árum og þó einkum síðar, er hann var tekinn við störfum í utanríkisþjónustu landsins, fór hann víða um heim í viðskiptaerindum og til þátttöku í alþjóðaráðstefnum. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna voru honum falin margs konar trúnaðarstörf, var framsögumaður stjórnmálanefndar 1954—1953, formaður hinnar sérstöku pólitísku nefndar 1954, formaður kjörbréfanefndar 1958 og 1961 og einn af varaforsetum allsherjarþingsins 1963. Hann var þm. Snæfellinga 1933–1941, sat á 9 þingum alls, en kom ekki til þings á árinu 1941 sökum dvalar sinnar og starfa vestan hafs. Sæti átti hann í mþn. um hlutdeildar– og arðskipti fyrirkomulag í atvinnurekstri 1937 og var formaður sýningarráðs Íslands á heimssýningunni í New York 1939. Á árinu 1944 var hann kjörinn heiðursdoktor í lögum við Rider College í Trenton.

Thor Thors var mikill námsmaður, lauk lögfræðinámi á óvenjulega skömmum tíma með mjög glæsilegu prófi. Að námi loknu sinnti hann á annan áratug stjórnarstörfum í umfangsmiklum fyrirtækjum á sviði sjávarútvegs og utanríkisviðskipta. Jafnframt námi og aðalstarfi stefndi hugur hans til þátttöku í stjórnmálum. Um þrítugt tók hann sæti á Alþingi. Hann átti vísan frama á sviði stjórnmála, ef hann hefði helgað þeim krafta sína og hæfileika áfram. En hann hvarf af þingi og af landi burt rúmlega hálffertugur að aldri til trúnaðarstarfa fyrir land sitt og þjóð í annarri heimsálfu og þar vann hann sér fljótt það traust, sem mannkostir hans stóðu til.

Thor Thors kynnti sér af gjörhygli og kostgæfni hvert það mál, sem hann þurfti um að fjalla. Hann var vel máli farinn, rökvís, vígfimur og einbeittur, en prúður í málflutningi. Hann var athafnasamur alþm., átti aðild að ýmsum stórmálum, er vörðuðu alþjóð og vann ötullega að framfaramálum kjördæmis síns, meðan hann átti setu á Alþingi. Hann var frábær fulltrúi þjóðar sinnar erlendis og leysti af hendi með miklum ágætum mjög vandasöm störf á erfiðum tímum. Hann var virðulegur í framkomu, skapmikill, en hlýr í hjarta og traustur drengskaparmaður. Starfsmaður var hann mikill og ósérhlífinn, hjálpfús, ef aðstoðar var þörf og höfðingi heim að sækja. Í málflutningi sínum fyrir hönd þjóðarinnar á þingi Sameinuðu þjóðanna var hann hófsamur, en ákveðinn, talaði máli sátta og sanngirni og ávann sér og þjóð sinni traust á alþjóðavettvangi. Við fráfall hans um aldur fram á íslenzka þjóðin að sakna góðs og mikilhæfs sonar.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast þessara merku manna, bræðranna Ólafs Thors og Thors Thors, með því að rísa úr sætum. – [Þingmenn risu úr sætum.]

Meðan á þinghléinu stóð, lézt í Bretlandi einn mesti þingskörungur þessarar aldar, Sir Winston Churchill. Forsetar Alþingis sendu í því tilefni forseta neðri málstofunnar brezku svo hljóðandi símskeyti:

„Í nafni Alþingis látum við í ljós innilegustu samúð í tilefni af fráfalli hins mesta þingskörungs vorra tíma, Sir Winstons Churchills.“

Undirskrift: Forsetar Alþingis.

Svo hljóðandi svar hefur borizt til þingsins:

„Neðri málstofan er yður mjög þakklát fyrir samúðarkveðju Alþingis vegna fráfalls Sir Winstons Churchills. Er oss styrkur að því að fregna, að Alþingi harmar ásamt oss það tjón, sem vér höfum beðið. Kveðja yðar mun um aldur varðveitast í gerðabók þingsins.

Harry Hylton-Foster, forseti.“

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast þingskörungsins Sir Winstons Churchills með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]