10.04.1975
Sameinað þing: 61. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2854 í B-deild Alþingistíðinda. (2157)

218. mál, iðnþróunaráætlun

Flm. (Kristján Friðriksson) :

Herra forseti. Virðulega Alþ. Mér þykja að vísu fáir hér staddir, en mun þó flytja erindi mitt um þá till., sem hér liggur fyrir á þskj. 412 og Þórarinn Sigurjónsson, þm. Sunnl., er meðflm. að.

Þessi till., sem hér er flutt, er áskorun til iðnrh. um að hraðað verði gerð heildariðnþróunaráætlunar fyrir íslendinga, en hér er að sjálfsögðu um að ræða áskorun til yðar allra og þjóðarinnar í heild um að fara að huga nánar að uppbyggingu iðnaðar á Íslandi og því hvernig staðið skuli að þeirri uppbyggingu.

Flestir, sem um þessi mál ræða, viðurkenna að vaxtarbroddur íslensks efnahagslífs hlýtur að verða í iðnaðinum. En skoðanamyndun um þetta málefni virðist mér að hjá flestum nái ekki miklu lengra.

Ég mun ekki ræða stafliði till. í röð hvern fyrir sig, heldur allt í samhengi. Komið verður inn á hvað þegar hefur verið gert í því að vinna að iðnþróunaráætlun, einnig hvaða tegundir iðnaðar mér virðist að helst kæmu til greina fyrir íslendinga, og hef ég lauslegar till. um svo sem 40 tilgreind iðnfyrirtæki víðs vegar um landið, en tel reyndar að stefna þyrfti að myndun allmiklu fleiri slíkra. En svo verð ég að verja nokkurri stund í það að sýna fram á hin beinu og óbeinu tengsl iðnaðaruppbyggingar við hagnýtingu auðlinda hafsins, því að uppbyggingu efnahagslífs á Íslandi þarf að skoða sem eina heild fremur en aðgreinda málaflokka. Hlýt ég því að koma talsvert inn á uppbyggingu í sjávarútveginum vegna þessara tengsla.

Ég mun leitast við að sýna fram á, hvernig afglöp, sem ég tel að gerð hafi verið í uppbyggingu sjávarútvegsins, hafa hreint og beint hindrað skynsamlega uppbyggingu iðnaðar og munu halda áfram að hindra iðnaðaruppbyggingu og þar með uppbyggingu farsældarríkis á Íslandi nema róttæk og markviss stefnubreyting komi til. Þetta samhengi verður ekki skilgreint nema með því að gera sér grein fyrir afglöpunum í uppbyggingu sjávarútvegsins.

Ég segi afglöp — og þykist ekki taka of sterkt til orða, því að ég lít svo á að það þurfi að fara langt til baka í Íslandssögunni til að finna afglöp í efnahagsmálaforustu sem séu á borð við þau, sem á síðustu missirum hafa verið gerð í sjávarútveginum, að í sögunni þurfi jafnvel að fara aftur á 15. öld til að finna hliðstæðu, alveg aftur á daga Diðriks nokkurs Pinings, sem var hirðstjóri hér á landi seint á 15. öld, en undir hans forsæti voru þau lög sett af skammsýnum stjórnmálamönnum íslenskum og dönskum sem hindruðu að íslendingar fengju hagnýtt fiskimið sín. Þetta voru lög um vistráðningarskylduna sem hindruðu myndun þorpa og bæja við Íslandsstrendur, en við það lenti nytjun fiskimiðanna í höndum útlendinga um aldabil, eins og kunnugt er.

En það er af Diðriki þessum Pining að segja að hann var síðan hengdur eða krossfestur fyrir einkaframtak á sviði sjórána, og fer ekki hjá því að manni verði á hugrenningatengsl milli atferlis hans og örlaga við þau sjórán, sem síðustu missiri hafa átt sér stað í smáfiskidrápi fyrir Norður- og Austurlandi, og kem ég að því síðar.

Óþarft er að fara mörgum orðum um ástandið í efnahagsmálum íslendinga eins og það blasir við í dag. Þingi og þjóð er það kunnugt þótt ég raunar efist um að mönnum sé almennt ljóst hversu afar alvarlegt það er. Svo til allir sjóðir eru tómir. Viðskiptahalli við útlönd fer verulega fram úr arðvænlegri uppbyggingu og kröfur á ríkissjóðinn koma úr öllum áttum, þannig að hann á mjög í vök að verjast og sjálft peningakerfi landsmanna er í hættu.

Hvernig má þetta vera hjá þjóð sem býr við auðugustu fiskimið í heimi, er nýbúin að vinna stórsigra í útfærslu landhelginnar og þið, heiðraðir alþm., eigið mikinn heiður skilið fyrir frammistöðu ykkar á því sviði? Jú, hvernig stendur á því að í hreint óefni stefnir þrátt fyrir allt þetta og þrátt fyrir mikinn auð í orkulindum og þrátt fyrir að hér býr dugmikil og gáfuð þjóð?

Ég get vel skotið því hér inn í, að ég tel að íslendingar eigi þrjár aðalauðlindir því að það skýrir að nokkru málflutning minn. Þriðju mestu auðlindina tel ég vera hin gjöfulu fiskimið, þá næstmestu tel ég fólgna í varmaorku og fallvötnum, en þá landsamlega dýrmætustu tel ég fólgna í listrænni snilli þjóðarinnar og sérhæfni hennar til að fást við vandasama iðnaðarframleiðslu, vegna hugvitssemi þjóðarinnar og verksnilli, enda eiga íslendingar næstflesta hugvitsmenn allra þjóða miðað við fólksfjölda.

En þessir eiginleikar hafa ekki fengið notið sín sakir slakrar stjórnmálaforustu á löngum tímabilum, og er mál að úr verði bætt og að því m. a. lýtur sá tillöguflutningur sem hér er hafður í frammi.

En nú mun ég snúa mér að því að gera nokkra grein fyrir þeim efnahagsmálaafglöpum, sem ég gat um áður og gera hvort tveggja í senn eða öllu heldur allt í senn: að valda tómahljóði í öllum sjóðum, stefna efnahagnum í voða, jafnvel svo að jaðrar við þjóðargjaldþrot, og hindra þá iðnaðaruppbyggingu sem er þjóðarnauðsyn, já, lífshagsmunamál, svo að notað sé tungutamt orð úr landhelgisbaráttunni.

Meginafglöpin eru fólgin í því að við höfum og erum að byggja upp allt of stóran fiskiflota. Þar munar ekki neinu smáræði. Nú skal leitast við að færa rök fyrir þessu.

Ég hef rætt við marga fiskifræðinga, raunar bæði erlenda og innlenda, og ég hef líka gert mína eigin útreikninga, auðvitað byggða á upplýsingum frá fræðimönnum og á sögulegum athugunum varðandi það sérstaka grundvallaratriði hvað sé óhætt að veiða mikið magn af bolfiski svonefndum árlega næstu árin hér við landið. Niðurstaðan er 500–550 þús. tonn miðað við þyngd upp úr sjó. Þetta gildir fyrir árin 1975, 1976 og jafnvel 1977 þótt það sé óvissara. Nú tel ég það eðlilegt raunsæi að gera ráð fyrir að um 20% af þessum afla kæmu í hlut útlendinga allra næstu árin. Okkur mun naumast takast að bægja þeim alveg frá strax, naumast fyrr en eftir 2 eða jafnvel 3 ár. Þá verða eftir svo sem 400–440 þús. tonn handa okkur. Meira má ekki taka án þess að ganga á stofninn og eyðileggja eða spilla framtíð fiskveiðanna um lengri eða skemmri tíma.

Veiðifloti okkar nú er um 100 þús. brúttólestir. Þetta þýðir að til jafnaðar koma 4–1.4 lestir fisks á hverja veiðilest í skipi. Ef hver lest fisks er á að giska til jafnaðar svo sem 30 þús. kr. virði, þá er hér um að ræða verðmæti upp úr sjó fyrir svo sem 12–15 milljarða, en útgerð þessa mikla flota mun aftur á móti kosta um 22 milljarða. Fyrir þessu hef ég góðar heimildir. Þarna skeikar því um eina 7–10 milljarða, en hver talan sem er dugar til að sýna að hér liggur skekkjan.

Nú mun margur segja sem svo: Var ekki óhætt að stækka flotann þar sem við vorum að vinna landhelgisstríð, færa landhelgina út, hvorki meira né minna en úr 12 mílum út í 200 mílur, og losna við meginsóknarþunga útlendinganna á fiskimiðum okkar? Í þessu sambandi er og hefur verið ein meginvilla — kórvilla, eins og stundum er sagt. Þetta stendur í sambandi við það að sú minnkun erlendrar sóknar, sem fæst við útfærsluna, samsvarar sem næst þeirri ofveiði sem hefur átt sér stað. Líka veldur hugmyndaruglingi hjá sumum að útfærsla úr 12 í 50 mílur og svo í 200 mílur breytir fyrst um sinn miklu minna um aflamagn en tölurnar gætu gefið óljósa hugmynd um. Aðalsigurinn vannst auðvitað með 50 mílunum. En við þurfum að endurnýja flotann, munu margir segja. Jú, mikið rétt. En fyrr má nú rota en dauðrota. Endurnýjun þarf að vera gerð með hagkvæmustu nýtingu fiskimiðanna í huga.

Nú vil ég biðja menn að renna huganum aftur til ársins 1962. Raunar vel ég það ár af handahófi, því að sama á við um langt veiðitímabil eða langt árabil. Þá var veiðifloti íslendinga rúmlega 70 þús. veiðilestir. Hver veiðilest eða rúmlest í þessum flota var í reynd minni en í okkar 100 þús. lesta flota nú vegna breyttra mælingahátta, en einnig varð bann afkastaminni í sóknargetu miðað við lest þannig að á því munar miklu meiru. Að leiðréttum samanburði hefur flotinn 1962 naumast verið afkastameiri og alls ekki afkastameiri en hverjar 60 þús. lestir í okkar núv. flota, þ. e. a. s. hann hefur samsvarað 3/5 af okkar núverandi flota. Þetta ár veiddi þessi floti þó yfir 340 þús. lestir fisks. Og takið nú vel eftir: Þessi floti náði þessum afla í harðri samkeppni við útlendinga, í samkeppni um fiskinn við erlendan flota sem var miklu stærri en okkar floti. Af þessu má ljóst vera að 60–70 þús. lesta floti íslenskur nú gæti fullnýtt miðin og það miklu auðveldlegar en 70 þús. lesta flotinn frá 1962 gat gert í hinni hörðu samkeppni við útlendingana.

Nú getur hver sem er reiknað það út á hnénu á sér hvað það kostar að gera út hverja veiðilest til jafnaðar. Ef við segjum, að það kosti svo sem 200–220 þús., og förum vægt í sakirnar, þá gerir útgerðarkostnaður á 30–40 þús. veiðilestum, sem eru umfram þarfirnar, 6–8 milljarða í rekstrarkostnaði. Það eru þessir milljarðar sem vantar í kassann hjá okkur og valda því að allir sjóðir eru tómir.

Til frekari áréttingar þeim útreikningum, sem hér voru fram settir, ætla ég að taka eitt dæmi. Togari einn, sem keyptur hefur verið til landsins og er milli 900 og 1000 lestir, kostar nú um 370 millj. kr. Vexti er lágmark að reikna 10% eða 37 millj., raunfyrningu tel ég að verði að reikna 8%, sem er miklu lægri en leyft er, en mun vera nálægt eðlilegu marki 30 millj. olíukostnaður nálægt raunverði — ekki niðurgreitt — 30 millj., erlendur hluti trygginga 6 millj., viðhald — þessi skip eru að smábíla — 7 millj., veiðarfæri, mest útlend, 20 millj. Þetta er allt frekar vægt reiknað. Þetta er samtals 130 millj. Segjum að þessi togari veiði 4000 lestir á 30 þús. hverja lest, þá gerir það 120 millj. Laun og tryggingar áhafnar dragast frá því, 54 millj., eftir verða 66 millj. Drögum svo tekjur frá gjöldum og sést þá að þessi togari aflar einskis gjaldeyris nettó, heldur eyðir gjaldeyri sem nemur 50–70 millj. af okkar digra gjaldeyrissjóði. Er von að vel fari?

Kröfur þjóðarinnar um kjarabætur, sem raunar er að mörgu leyti vonlegt að séu fram settar, eru alveg tilgangslausar meðan svona er farið með fjármuni. Meðaltal af neikvæðri gjaldeyrisöflun minni togaranna er eitthvað um 30 millj. á skip ef fyrningar, 8% af núvirði eru teknar með í reikninginn. Þetta er misjafnt fyrir skipin, en ég á hér við mikinn fjölda þeirra og það á við um hann. Þetta er mjög misjafnt en í heildinni mun það vera nálægt þessu. Svo taka þessir togarar besta fólkið frá bátaflotanum, taka líka frá honum fiskinn, þannig að þeirra útgerð, þ. e. bátanna, verður vonlaust líka. Og nú heyrist því fleygt að nú eigi að fara í feluleik með afglöpin með því að ráðstafa gengishagnaði hér á Alþ. frá bátum yfir til togara. Svei !

En sagan er ekki öll hér með sögð. Nú kemur rúsínan. Til er maður á Englandi sem mikið hefur stundað veiðar við Ísland. Hann hefur fengið viðurnefni og er kenndur við „Codling“. Hann er víst kallaður Kóða-Ted. Hann er frægur fyrir það ekki aðeins að koma með smáfisk af Íslandsmiðum, heldur það sem breskir kalla codling — eða kóð, sem er smærra en smáfiskur. Sagan segir að Kóða-Ted hafi jafnvel komist upp í það að hafa 70–80% codling miðað við þyngd af heildaraflanum.

En það sorglega er að nú er margur Kóða-Teddinn á Íslandsmiðum. En sá er munur að nú er Kóða-Teddinn íslenskur, veiðir í dragnót eða á nýtísku skuttogara fyrir Norður- og Austurlandi.

Auðvitað veit ég það að íslenskir fiskimenn gera það ekki ánægðir að drepa smáfisk og hleypa oft vænum slatta af dauðum kóðum út um lensportin. En þetta er leyft. Og ef fram heldur sem horfir verða fiskimiðin fyrir Norður- og Austurlandi eyðilögð á stuttum tíma. Og ekki aðeins það, smáfiskadrápið og kóðadrápið fyrir norðan og austan mundi þýða, ef því yrði haldið áfram, að aldrei framar kæmi góð vertíð fyrir sunnan land og vestan því að þau kóð, sem hleypt er út um lensportin norðanlands dauðum, koma hvorki á línu sem vænn fiskur hjá Raufarhafnarbátum né heldur sem góður netafiskur til vestmanneyinga. Friðun smáfisksins fyrir trolli og dragnót fyrir norðan og austan er því ekki aðeins lífshagsmunamál þorpa og bæja fyrir austan og norðan, heldur engu siður þorpa og bæja fyrir sunnan og vestan. Hagsmunir þessara byggða fara þarna saman, og það eru þessi tengsl sem tengja svo þessar byggðir saman í sambandi við iðnþróunina.

Það, sem gera þarf í þessu máli, og það er í rauninni fyrsti meginþáttur iðnþróunaráætlunarinnar, þótt sumum kunni að koma það kynlega fyrir sjónir, er að banna allar togveiðar að rækjunót undanskilinni á svæði, sem markast af línu sem dregin er réttvísandi í norður frá Kögri, sem er austasti hluti Vestfjarðakjálkans, og hins vegar beint á haf út frá Eystrahorni. Ég lengi ekki mál mitt við að skýra þetta nánar. Ef menn halda að smáfiska- og seiðadrápið með dragnót og vörpu fyrir norðan og austan sé eitthvert rugl, þá skora ég á menn að rannsaka málið. Ég hef fjölda vitnisburða um þetta, meira að segja skriflega vitnisburði upp á vasann þar sem ég nú stend hér.

Og nú kem ég að iðnþróuninni. Ég minnist þess, að fyrir einum 20–25 árum tók við embætti nýr iðnrh. Ég man að ég gerði fsp. til hans á iðnrekendafundi uppi í Þjóðleikhúskjallara um það hvaða framtíðarstefnu hann hygðist beita í iðnaðaruppbyggingunni. Ég var í rauninni að spyrja um iðnþróunaráætlun fyrir íslendinga. Það var því líkast sem ég hefði spurt um landslag á Júpíter. Þannig voru viðbrögðin. Um mörg ár var iðnaði í engu sinnt. T. d. var ómögulegt að fá lóð fyrir iðnaðarhús í Reykjavíkurborg. Ég hef eigin reynslu hér við að styðjast. Þetta gekk svo í mörg ár, að mig minnir 16 ár. Ég vissi til að sumir leituðu eftir lóðum hér í 16 ár án þess að fá þær.

Yfirleitt hefur aðbúnaður að iðnaði um áratugi verið hrein svívirðing, á sama tíma og aðrar þjóðir hafa byggt upp iðnað sinn með góðum stuðningi ríkisstjórna sinna og bankavalds. Svo vorum við narraðir inn í EFTA án þess að vera færir um samkeppnina. Loforð voru gefin um stórfellda uppbyggingu iðnaðar á þeim tíma sem nefndur var aðlögunartími. Þau loforð voru flest svikin. Öll fjármagnsgetan hefur farið í að byggja upp fiskiflota og eyðileggja möguleika hans sjálfs með því að gera hann allt of stóran. Menn hafa getað keypt heila togara fyrir sáralítið eigið framlag. En iðnaðurinn, nei, hann hefur ekki einu sinni fengið sómasamleg rekstrarlán. Ef litið er yfir hvernig lánsfé er skipt kemur í ljós að langsamlega minnst lánsfé, bæði stofnfé og rekstrarlán, fer til iðnaðar og er hann þó langfjölmennasta atvinnugreinin þrátt fyrir meðferðina sem hann hefur orðið fyrir á undanförnum áratugum. Þó hafa lög verið sett um rekstrarlán til iðnaðar hér á Alþ. En þá kemur upp úr dúrnum að kerfið kann ekki að lána út á neitt annað en fisk. Dæmi voru til að það tók hálft ár að ganga í gegnum svipugöng serimonía til að lokka út úr kerfinu fáeinar milljónir í rekstrarlán, jafnvel þótt fasteignaveð væru í boði.

Það er vonlaust að rekja þessa sögu sorgar og niðurlægingar varðandi afstöðu valdamanna til iðnaðar.

En hvað svo um áætlanir og aðgerðir síðustu ára? Hefur ekkert verið gert? Er von að menn spyrji? Jú, í rauninni hefur dálítið verið gert. En heildarstefnumörkun hefur alveg vantað.

Í grg. með þessari þáltill. er frá því greint að útvegaðar voru 37 millj. frá Sameinuðu þjóðunum og víðar var fjár aflað í því skyni að athuga um uppbyggingu iðnaðar. Og þarna var að vissu leyti rétt að farið því að það er ekki fyrir einstaklinga að finna út hvaða iðnað er hagkvæmast að velja. Það þarf einmitt að beita alþjóðlegri kunnáttu í þessu eða kunnáttu sem sérhæfðir menn einir ráða yfir, a. m. k. að hluta til.

Í hinu þriggja binda verki Olle Rimers er ýmislegt að finna sem til gagns má verða ef það verður gert mönnum aðgengilegt. Sama er að segja um verk Berggrens og Delens. Þeir sömdu verk upp á 200 blaðsíður. Ég vanmet þetta ekki út af fyrir sig. Ég vanmet ekki heldur baráttu Jóhanns Hafsteins og fleiri fyrir álverinu þótt sitthvað megi finna að samningunum um álverið. Stóriðju tel ég að við eigum að notfæra okkur, en mjög í hófi.

Ég er ekki beint hrifinn af málmblendinu, en met þó djarflega og dugandi framgöngu Magnúsar Kjartanssonar, Steingríms Hermannssonar og Gunnars Thoroddsens að því að vinna hiklaust að þessu máli. Það sýnir þó dug og kjark út af fyrir sig, því að ég álít að þetta hvort tveggja, ál og málmblendi, séu steinar í bygginguna, þ. e. iðnþróunarbygginguna.

Svo að ég víki aftur að iðnbyltingarmanninum, velvirtum fyrrverandi iðnrh., Magnúsi Kjartanssyni, þá fór hann þá leið að stofna sérstaka starfsdeild til að vinna að iðnaðarathugunum og klauf þannig þá starfskrafta frá því liði sem fyrir var. Hvaða ástæður til þessa hafa legið veit ég ekki, en hitt tel ég ánægjulegt að til forustu í þessari nýju deild held ég að Magnúsi hafi tekist að fá góðan mann þar sem er Vílhjálmur Lúðvíksson prófessor, en reyndar hefur lítið heyrst frá þeim góða manni enn þá.

Sölustofnun lagmetis var sett á stofn og það var virðingarvert — og svo er það Útflutningsmiðstöð iðnaðarins sem er líklega sá hlekkur í keðjunni sem er næst því að vera rétt skapaður, einn hlekkur kominn í langa keðju.

En stefnumörkun fyrir iðnþróun tel ég að vanti enn, eins og ég hef áður sagt. En þetta þarf allt að taka upp hið skjótasta. Alþ. og almenningur þarf að fá að vita hvar við stöndum í þessu efni, og ekki þýðir annað en ganga til verks þótt ekki sé hægt að tala um að taka til óspilltra málanna þar sem búið er að sóa í afglöp því fé og lánamöguleikum sem hefðu átt að fara til iðnaðaruppbyggingar.

Oft er það svo að þegar talið berst að iðnaðaruppbyggingu, þá er spurt: Hvað eigum við svo sem að framleiða? Þessa spurningu er ég búinn að fá í mörg ár. Auðvitað er aðalsvarið : Við getum framleitt nærri því að segja hvað sem okkur kynni að detta í bug að einbeita okkur að, því að þjóðin er dugleg og gáfuð. Hana vantar ekkert nema stjórnmálaforustu til að vaxa upp í velmegandi iðnaðarþjóð með traustan efnahag. Þetta liggur í augum uppi.

Þó að ég hafi aldrei verið til þess kjörinn að leita uppi iðngreinar sem hentuðu íslendingum, þá skal ég nú freista þess að telja upp nokkrar sem ég tel að kæmu til greina. Þessi upptalning er gerð til að skapa umræður og umhugsunargrundvöll. En ég er ekki með því að gefa í skyn að ég telji mig færan um að hrista út úr erminni heila iðnþróunaráætlun, aðeins geri ég það til að skapa umræðugrundvöll.

Ég er ekki aðeins að slá hér fram nokkrum hugmyndum um verkefni, heldur fyrst og fremst að leggja áherslu á samhengissjónarmiðið, það samhengi sem ég legg svo mikla áherslu á að þurfi að vera á milli iðnþróunaráætlunarinnar og þjóðhagslegrar hagnýtingar fiskimiðanna. Einmitt fyrstu átökin í framkvæmd áætlunarinnar þurfa að vera gerð með hliðsjón af því að skynsamleg nýting miðanna byggist á því að við skiljum að líf fiskstofnanna er ein samhangandi heild, ein líffræðileg heild allt umhverfis landið. Verkefnavalið þarf að gera með það fyrir augum að starfsstöðvarnar geti dreifst um landið. Bráðasta nauðsynin er því að finna iðnverkefni fyrir þau svæði fyrir norðan og austan þar sem aðaluppeldisstöðvar fisksins eru svo að fólkið þar fái verkefni við sitt hæfi, en verði ekki þröngvað út í — í sinni hörðu lífsbaráttu — að ofveiða uppeldisfiskinn til tjóns bæði fyrir framtíð sjálfs sín og þó einkum framtíð fiskveiða við Suðurland og Suðvesturland.

Þau verkefni, sem ég hér nefni, eru miðuð við að þau verði framkvæmd á svo sem næstu 1–8 árum eða 10 árum, 10 ára tímabili, og þá verði verkefnin norðan og austan látin hafa vissan forgang í tímaröðinni vegna hagsmuna sunnlendinga, — menn kunna að hnjóta um þetta: „vegna hagsmuna sunnlendinga“, — vegna hagsmuna fiskveiðanna ekki síst, en auðvitað alls landsins því að vertíðaraflinn við Suður- og Vesturland hefur alltaf reynst drýgsti gjaldeyrisgjafinn og byggist á því að fiskurinn sé ekki veiddur á uppeldisstöðvunum um of.

Nú kemur upptalning verkefna. Númeraröðin er ekki miðuð við tímaröð sem verkefnin ættu að framkvæmast í.

1. Fyrst tel ég að ætti að koma á með tímanum einu stóriðjuveri fyrir aflfrekan iðnað á Norðurlandi til þess að tryggja raforku fyrir smærri iðnað þar í leiðinni.

2. Stóriðjuver á Austurlandi í tengslum við stórvirkjun þar. Og svo læt ég mér detta í hug að við þyrftum ekki að gera ráð fyrir fleiri stóriðjuverum því að eftir það ætlast ég til að við verðum búnir að ná svo góðum tökum á þróun smærri iðnaðar að frekari stóriðju verði alls ekki þörf.

3. Þrjár skipasmíðastöðvar fyrir stærri skip, raðsmíði, miðað við viðhald eigin flota eftir að við höfum fært núverandi flota niður í rétta stærð, m. a. með sölu talsverðs hluta núv. flota út úr landinu, bæði til að losna við árlegt rekstrartap á honum og til að bæta gjaldeyrisstöðuna, sbr. fyrri röksemdir, og til að afstýra hættu á ofveiði. Þessar skipasmiðastöðvar, sem ég nefndi áðan og mættu bætast við þær sem fyrir eru, yrðu norðan- og austanlands og þjónuðu auðvitað sem viðhaldsstöðvar jafnframt nýsmíði sem hefur reynst hagkvæm.

4. Framleiðsla á skurðgröfum eða vegheflum, eitt fyrirtæki, staðsett norðan- eða austanlands. Hér vitna ég til reynslu norðmanna á þessu sviði. Aðrar tegundir véla gætu að sjálfsögðu komið til greina, og bendi ég hér á til stuðnings þessu máli á þá miklu áherslu, sem Olle Rimer með sín þrjú bindi leggur á málmiðnaðinn.

5. Eitt fyrirtæki sem sérhæfði sig í yfirbyggingu strætisvagna og áætlunarbifreiða, helst staðsett nyrðra, gæti þó orðið hagkvæmara að hafa hér sunnanlands, en það er athugunarefni.

6. Járnbræðsla úr brotajárni sem framleiddi steypustyrktarjárn.

7. Fyrirtæki sem framleiddi olíuspil til notkunar í skipum og fleira. Þetta kemur til viðbótar einu sams konar fyrirtæki sem nú starfar í landinu og hefur gengið vel en þarf að efla. Nýja fyrirtækið sérgreindi sig í annarri gerð olíuspila eða rafknúinna spila. Ég ræddi um skeið mikið við bretann Geoffrey Roberts um verkefnaval á iðnaðarsviði fyrir íslendinga, en hann hefur um mörg ár verið ráðgjafi bresku stjórnarinnar, bæði stjórnar Wilsons og Heaths, um verkefnaval á sviði iðnaðar fyrir afskekkt héruð á Bretlandi. Roberts taldi að við ættum að leggja mikla áherslu á að velja okkur verkefni í iðnaði, einkum málmiðnaði, sem væru tengd sjávarútvegi, t. d. sérgreindum búnaði skipa sem væri þess eðlis að hann yrði ekki framleiddur í fjöldaframleiðslu af stórfyrirtækjum. Þar eru einmitt þau svið sem svona lítil þjóð hefur til að velja sér verkefni á, þar sem er hægt að koma við hagsýni og vélum og kunnáttu, en ekki er hægt að koma fjöldaframleiðslu við.

8. Eitt fyrirtæki sem framleiddi rafmótora, gæti verið staðsett hvar sem væri, Varmadæluframleiðsla kæmi e. t. v. til greina í því samhengi.

9. Eitt eða tvö fyrirtæki sem legðu stund á ýmiss konar búnað úr léttmálinum, t. d. áli. Hér er átt við t. d. netakúlur, handfæraveiðitæki og margt fleira. Yfirleitt legg ég áherslu á það að fyrirtæki þessi, sem ég tel hér upp, eru ákaflega misstór, þau eru eiginlega af öllum mögulegum stærðum, og mín aðalhugmynd er sú að það þyrftu að koma a. m. k. tvö fyrirtæki á alla firði og þorp umhverfis allt landið. Það er stefna mín.

10. Eitt fyrirtæki sem framleiddi vindrafstöðvar. Véltækniþróun hefur orðið í framleiðslu slíkra tækja á síðustu árum, geysilega mikil, en vindorka er hér meiri en viðast hvar. Þessi orkulind gæti komið að ómetanlegum notum hér á landi og tækjaframleiðslan auk þess hæglega orðið útflutningsiðnaður, einmitt af þessari gerð sem ég nefndi áðan.

11. Eitt fyrirtæki sem framleiddi fiskkassa.

12. Eitt fyrirtæki til framleiðslu sérgreinds rafbúnaðar. Hér er átt við stærri rafbúnaðartegundir og fer ég ekki út í að skýra það.

13. Eitt lítið fyrirtæki til framleiðslu rafbúnaðarfittings og smærri rafbúnaðar.

14. Framleiðsla á snjósleðum til innanlandsnota og útflutnings, kjörið fyrirtæki.

15. Rafkaplaframleiðsla, úr áli aðallega. Þyrfti að semja við álverið um tækniaðstoð og sérstakt verð á hráefninu. Hér er ég með í huga danska fyrirmynd.

16. Lítið valsverk miðað við ál sem hráefni. Er þó líklega nokkuð langt í þetta verkefni, en þetta er vafalaust framtíðarverkefni.

17. Mælaborðaframleiðsla. Eitt slíkt fyrirtæki hefur raunar þegar hafið göngu sína, reyndar fyrir örfáum missirum, og gengur svo vel að nú ætlar það að þrefalda framleiðslu sína og taka á leigu 700 fermetra húsrými, byrjaði með 2 menn, en verður innan skamms með um 30 menn. Eftirtektarvert er að maðurinn, sem leggur til sérþekkinguna í þessu fyrirtæki, lærði hana ekki í íslenska skólakerfinu né í dýrri námsdvöl með styrkjum erlendis, hann lærði þetta í erlendum bréfaskóla. Gott dæmi um snilli íslendinga á iðnaðarsviðinu. En lánsútvegun þessa fyrirtækis hefur gengið dálítið erfiðlega því að skuttogararnir verða að ganga fyrir.

18. Tvö innréttingarfyrirtæki þar sem beitt yrði nýrri tækni sem ég fer ekki nánar út í.

19. Eitt fyrirtæki til framleiðslu á litsjónvarpstækjum þegar sú framleiðsla yrði tímabær, sem e. t. v. yrði eftir svo sem fáein ár.

20. Fyrirtæki til framleiðslu á sérgreindum elektrónískum tækjum sem ekki verða framleidd í fjöldaframleiðslu.

21. Ein glerverksmiðja kæmi til greina þótt fyrsta tilraun okkar á því sviði mistækist. Markaður fyrir gler hlýtur að stóraukast hér vegna aukinnar ylræktunar í náinni framtíð.

22. Tvö fyrirtæki ætti að setja upp, sitt í hvorum landshluta, og beita þar tækni sem þróast hefur á sviði þansteypu, sbr. einnig tilboð svía um að veita tæknilega aðstoð við húshlutaframleiðslu í verksmiðjum til stórfelldrar lækkunar á byggingarkostnaði.

23. Ein verksmiðja til framleiðslu á plötum fyrir byggingariðnaðinn, sbr. þó einnig það sem nú er unnið að í vöruþróun úr perlusteini hér suðvestanlands.

24. Postulínsverksmiðja. Hönnunarsnilli og listfengi þjóðarinnar gæti hér fengið góð verkefni. Það er með sérstöku tilliti til sérgáfu íslendinga í hönnun og listfengi þjóðarinnar sem ég tel að við ættum að hafa eina litla svona verksmiðju hér í landinu.

25. Listmunagerð úr dýrum málmum í tengslum við hagnýtingu íslenskra eðalsteina. Hér er ég með Austurland í huga.

26. Verksmiðja til framleiðslu á gólfteppaundirlagi. Innlendi markaðurinn veitir nú þegar nægilegt verkefni fyrir eina slíka verksmiðju. Ég reyndi að vísu að hefja sjálfur tilraun til að koma henni á fót og veit nákvæmlega hvað ég er að tala um. Þetta kostar ekki mikið og veitir að vísu ekki mikla atvinnu, en er mjög auðvelt. En það þarf náttúrlega að fá ofurlítið lánsfé í það til að koma því á fót.

27. Eitt fyrirtæki fyrir framleiðslu á mjólkurvöruumbúðum. Er hér miðað við nokkra breytingu á neysluvenjum sem auðvelt væri að koma á og hefði þó nokkra gjaldeyrisspörun í för með sér og minnkun á sorpi.

28. Úrvinnslufyrirtæki úr fiskinnyflum, m. a. til framleiðslu lyfja. 1–2 fyrirtæki til matvælaframleiðslu úr fiskinnyflum kæmu líka til greina og eru eiginlega alveg sjálfsögð. En hér er þörf rannsókna og vöruþróunar, nokkuð mikið verk sem liggur þarna fyrir höndum. Vel að merkja, æðimikið hefur verið gert, það vantar bara svo sem eins og 1/4 úr skuttogaraverði að láni til þess að sé hægt að gera þetta og fá þarna inn milljónir.

29. Fyrirtæki sem legði áherslu á ylrækt til framleiðslu sveppa og til framleiðslu gróðurs til lyfjaframleiðslu, sbr. reynslu dana á þessu sviði. Þeir gera þetta með mjög dýrri olíu, en við hefðum jarðhitann svo að við höfum mikla möguleika fram yfir þá.

30. Textílverksmiðja, þ. e. aðallega spuna- og fágunarverksmiðja, sem ætti að vera í Hveragerði eða á Selfossi.

31. Tvær litlar vefnaðarverksmiðjur, t. d. á Eyrarbakka og Stokkseyri, sem störfuðu í nánum tengslum við spuna- og fágunarverksmiðjuna í Hveragerði. Það þurfa að vera náin tengsl milli þessara verksmiðja.

32. Ein dúkaprentunarverksmiðja sem gæfi sérstök tækifæri til listrænnar hönnunar, miðað við útflutning aðallega, og þá er ég með í huga þessa sérstöku hæfileika þjóðarinnar.

33. Nokkrar saumastofur sem störfuðu í tengslum við vefnaðarverksmiðju og útflutningsmiðstöð iðnaðarins. Þetta er reyndar þegar í gangi að nokkru leyti, en má auka auðveldlega.

34. Tvær saumastofur sem framleiddu skjólflíkur fyrir heimamarkað og til útflutnings úr sútuðum gærum. Þetta er aðeins spursmál um markaðsútvegun og hönnunaratriði.

Ég gæti haldið áfram að telja, en ég læt staðar numið hérna því að hvert þessara verkefna er raunverulega efni í heila grg., eins og gefur að skilja, svo að ég held þessu ekki lengur áfram.

En mig langar til þess að minnast þó á eitt fyrirbrigði til viðbótar. Það er ekki beint iðnfyrirtæki, en er þó skylt því og gæti orðið það að nokkru leyti.

Allir vita nú orðið um það fyrirbrigði að aðeins sumir árgangar bolfiskanna komast upp, eins og kallað er. Þannig eru dæmi um að einn árgangur hefur orðið 30 sinnum sterkari en annar nú á síðustu áratugum, eftir að til varð tækni til að mæla þetta, fylgjast með þessu. Og í rauninni er hugmyndafræðilegur grundvöllur til að leysa það vandamál að jafna stærð árganganna með sleppiseiðarækt. Reynsla erlendra þjóða í þá átt að leysa þennan vanda er síður en svo uppörvandi. En hver getur fullyrt að okkur kunni ekki að heppnast að gera það sem öðrum hefur mistekist úr því að hin hugmyndafræðilega undirstaða er fyrir hendi. Ég álít að stöð af þessu tagi ætti að koma á fót í Vestmannaeyjum. Gæti hún haft fleiri verkefni og jafnframt orðið eins konar fiski- og haffræðaskóli fyrir dálítinn hóp af ungu fólki í Vestmannaeyjum. Skjótra lausna verkefna má ekki vænta, en ef lausnin fyndist í aðalverkefninu mundi það hafa feikilega þýðingu fyrir þjóðarbúskap íslendinga. Mér sýnist að staðháttaaðstaða í Vestmannaeyjum fyrir slíka starfstöð sé alveg einstaklega góð, ekki síst eftir staðháttabreytingar sem urðu í höfninni við gosið.

Fjármögnun iðnaðaruppbyggingarinnar, — nú fer ég að tala um iðnþróunina almennt aftur og fer að stytta mál mitt, — fjármögnun iðnþróunaruppbyggingarinnar gæti að hluta til orðið með þeim hætti að gróðann af fiskimiðunum, þ. e. auðlindaskattinn, mætti nota til að byggja upp iðnaðinn, og árleg rekstrartöp togara mundum við losna við með minnkun flotans. Þá gjörbreytist öll efnahagsaðstaða þjóðarinnar.

Það mundi borga sig vel fyrir sunnlendinga að stuðla að iðnaði í þorpum norðan- og austanlands til að þorpin þar neyðist ekki út í ofveiði, en hagnýti hóflega fiskimið sín og kóðadrápi yrði hætt þar alveg. Svo gætu þorpin og bæirnir á Suður- og Vesturlandi byggt upp sinn iðnað með auðlindaskatti, þ. e. veiðigjaldi í einhverri mynd. Þetta veiðigjald væri notað til þess að tempra stærð flotans, — með einhverjum hætti verður að tempra hann og þá auðveldast að gera það með skatti, — tempra stærð flotans við hæfilega sókn og fullnýtingu fiskimiða og fullnýtingu skipa og starfskrafta. Aftur á móti stefnir þjóðin í hreinan voða efnahagslega, inn í langvarandi fátækt, ef haldið verður áfram að láta allt of stóran flota slást um að smala sækindum af hinum gjöfulu fiskimiðum með hóflausum tilkostnaði.

Ef sóknin á miðin er tempruð með auðlindaskatti, þá væri auðvelt að fá með því móti nægilegt fé til góðrar uppbyggingar iðnaðar. Ég endurtek þetta, því að það er reynsla mín að menn þurfa helst að kunna utan að efnisatriði í máli sem þeir þurfa að komast inn í, þurfa að geta hugsað um. Ef flotinn væri mátulega stór, þá gætu útgerðarfyrirtækin hæglega borgað auðlindaskatt. Sem dæmi má nefna að rækjumiðin í Ísafjarðardjúpi gætu 20 bátar í stað 50 nú fullnýtt og væru þá þessir bátar, þessir 20, við veiðar mestallt árið og gætu auðvitað greitt gjald fyrir sem nota mætti til að byggja upp iðnað, t. d. á Ísafirði. Aldrei færi það svo að það kæmi þá ekki eitthvað út úr því ef þeir hafa litla trú á iðnaði, það kæmust þarna 60 menn til viðbótar til að framleiða iðnaðarvörur á Ísafirði, en sama fengist fyrir aflann. Miðin yrðu jafnvel nýtt og auk þess er náttúrlega kostnaðurinn við útgerð bátanna, 30 báta, ekkert smáatriði. Sama gildir um miðin almennt og landið í heild og gætu þá útgerðarfyrirtækin verið rík, eins og þau þurfa að vera, borgað fólki sínu vel og verið alltaf með góð skip og tæki.

Að síðustu skal svo reynt að taka saman yfirlit um meginefni þessa mikla máls, þ. e. iðnþróunaruppbygginguna, í þremur liðum:

1. Fiskiskipaflotinn þarf að minnka um 2/5 og spara þannig stórfellda gjaldeyrissóun. Fiskiflotinn sjálfur á að geta verið gjaldeyrisaflandi í stað þess að gleypa verulegan hluta af gjaldeyrisöflun sjávarvöruiðnaðarins.

2. Seiða- og smáfiskadráp í uppeldisstöðvum verður að hætta og tryggja norður- og austurbyggðum iðnverkefni sem fyrsta þátt iðnaðaruppbyggingarinnar til að firra þessar byggðir því að neyðast út í það örþrifaráð að stunda smáfiskadráp. Þessi þáttur heildarþróunar þarf því að hafa forgang, ekki aðeins vegna þessara byggða sjálfra, heldur vegna alþjóðar hagsmuna.

3. Skilmerkileg iðnþróunaráætlun á og þarf að geta valdið andlegri endurfæðingu eða hugmyndafræðilegri byltingu meðal þjóðarinnar.

Herra forseti. Fáar setningar almenns eðlis um stöðuna eins og hún er. Örfáar setningar bara: Hjá íslensku þjóðinni ríkir nú í raun og veru góðæri, Efnahagsmálum hennar tel ég að mætti koma í gott horf á svo sem tveimur og hálfu ári, en „dómar verða að fara út“, eins og það hét á fornu máli. Hér á ég við að Alþingi og ríkisstjórn verða að stjórna málefnunum eins og þjóðin hefur falið þessum aðilum. Þjóðin verður að fá þá stjórnun sem hún á rétt á og greiðir fyrir. Ég álít að málefnum þjóðarinnar sé ekki verr komið enn þá en svo að hægt sé að taka á málum af þeirri mýkt að allir megi vel við una. Ég tel mig hafa bent á efnahagsmálaskekkju sem nemur 6–8 milljörðum, óbeina skekkjan tengd þessu sama er þó nokkuð til viðbótar en þetta er langstærsta skekkjan í efnahagslífinu,

Nú er talað um niðurskurð á framkvæmdum sem þurfi að nema 31/2 milljarði. Þessi niðurskurður þyrfti ekki að vera svona stórfelldur ef nokkrar skekkjur aðrar í efnahagslífinu yrðu leiðréttar er samanlagt nema e. t. v. um 2 milljörðum og eru svipaðs eðlis og þessi 6–8 milljarða skekkja sem ég var að nefna. En hér gefst ekki tækifæri til að ræða það frekar.

Svo legg ég til að till. þessari til þál. verði vísað til atvmn. sem svo kæmi málinu áleiðis til iðnrh. og iðnrn. eftir því sem þingsköp segja fyrir um.