10.02.1971
Neðri deild: 45. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í C-deild Alþingistíðinda. (3089)

196. mál, þjóðgarður á Vestfjörðum

Flm. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Ég skal reyna að verða mjög stuttorður. Aðeins út af ræðu hv. 9. þm. Reykv. vildi ég gera nokkrar aths. Hann sagði, að hann hefði ekki séð mikið gagn af því að friðlýsa Þingvelli eða Hrafnseyri, svo að dæmi séu nefnd af því, sem hann sagði. Ég segi nú fyrir mitt leyti: Hvernig ætli Þingvellir litu út í dag, ef þar væri ekki friðlýst svæði og þar hefði verið haft eftirlit og skipulag? Hvernig ætli Hrafnseyri liti út í dag, ef ekki hefði verið stofnað þar til byggingar á þeirri ágætu jörð, mjög myndarlegrar byggingar? Ég er viss um það, að Hrafnseyri væri í eyði í dag og allt grotnað niður þar eins og á Álftamýri og öðrum stórbýlum norðan Arnarfjarðar. Og mér finnst nú sumir menn gerast heldur gamlir í seinni tíð og það mjög illa gamlir. En það er mismunandi hvað menn eldast illa, það eldast allir, sumir eldast illa. Sumir héldu fram eftir ævi, að þeir væru frjálslyndir mjög í skoðunum, en ég sé það, að hér kemur fram ein mögnuð íhaldsrödd frá hv. 9. þm. Reykv. úr grárri forneskju.

Á að spyrja þá, sem eiga jarðir, sem ekkert gera fyrir þær, eins og flestir þessir landeigendur? Ég sagði, að það væru undantekningar frá því. Flest hús á þessum jörðum eru hrunin til grunna fyrir löngu eða aðeins til þess að gera landslagið ljótara, yfirgnæfandi meiri hluti húsa á þessum jörðum. Eigum við ekki fyrst og fremst að stefna að því að gera þetta landsvæði að svæði fyrir alla þjóðina? Hvað er orðið af sósíalistanum í hv. 9. þm. Reykv.? Hann er orðinn magnaður kapítalisti. Eiga þeir að eiga jarðir, sem ekkert gera fyrir þær, eru ekki á þessum stöðum og eingöngu koma kannske einu sinni eða tvisvar til þess að eyðileggja silungsstofninn? Því ekki að gera þetta að svæði fyrir alla landsmenn? Hver er að fara fram á það, að ráðizt sé á eignarréttinn? Það er aðeins verið samkv. 7. gr. frv. að gera ráð fyrir í fyrsta lagi frjálsum samningum, í öðru lagi, ef til þess kemur að nota sér það, að þessar eignir séu metnar og eigendur fái fyrir þær fullar bætur. Auðvitað miðast við afnotagildi þeirra, en ég segi það eins og þegar hv. þm. segir, að það geti hver og einn gengið og verið á þessu svæði eins og hann vill. Það hefur enginn leyfi til þess að ganga í ár og vötn annarra án leyfis. Þetta er gert allt án þess að það sé nokkurt skipulag eða nokkurt eftirlit. Mér er það alveg ljóst, að þó að þarna komi vörður yfir sumarmánuðina, er hægt að brjóta settar reglur, en það er eitt út af fyrir sig stórkostlegt aðhald til þess að koma þessu í það horf, sem frv. gerir ráð fyrir. Og í öðru lagi vil ég taka fram, að ég taldi það rétt og við flm., að ekki væri lagt á það neitt ofurkapp að eignast þetta á örfáum árum, heldur setjum við inn í frv.: eftir því sem Alþ. veitir fé til á fjárlögum.

Við erum fyrst og fremst að hugsa um framtíðina og ég trúi því ekki, að þetta svæði fari í byggð á sama tíma og byggð er að eyðast, þar sem eru góðar samgöngur og nútímaþægindi, eins og víðast annars staðar á Vestfjörðum, svo sem í Inndjúpinu, ég trúi því ekki, að þessar byggðir, þetta svæði eigi eftir að fara í byggð, enda vitum við það, að byggðin í Aðalvík og á þessum stöðum byggðist fyrst og fremst á því, hvernig háttaði þá til um útgerð á litlum bátum. Það var líka útgerð inni í Djúpi, í Ögurhreppi á Snæfjallaströnd. Allt er þetta fyrir löngu síðan komið úr byggð. Þetta er atvinnugrein, sem hefur orðið að víkja fyrir öðrum nýrri atvinnugreinum, nýjum þægindum. Þess vegna held ég, að það sé ástæðulaust að ætla, að þessi svæði verði byggð á sama tíma og það er barizt við að halda í byggð svæðum, sem búa við margfalt betri skilyrði til þess að lifa nútímalífi. Ég hef meiri áhyggjur út af þeim svæðum, sem sífellt eiga við vaxandi burtflutninga að etja.

Frá því að þetta frv. var flutt, hefur fjöldi manna við mig talað, bæði hringt og talað, og lýst yfir mikilli ánægju sinni með þetta frv., en það er aðeins einn einasti aðili, sem hefur sent mér skeyti, þar sem hann var mjög andvígur þjóðgarði á Vestfjörðum, og ég hygg, að sá aðili muni vafalaust hafa haft samband við hv. 9. þm. Reykv. og það sé þess vegna, sem andstaða hans er fyrir hendi.