18.02.1971
Neðri deild: 48. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í C-deild Alþingistíðinda. (3094)

196. mál, þjóðgarður á Vestfjörðum

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hélt nú um sinn, þegar hv. síðasti ræðumaður fór af sinni þjóðkunnu gamansemi að vitna í þá sögu, sem hann vitnaði í, að hann mundi nú kannske geta þess, að það hefði borizt svona á millum manna, í gamansemi þó, að bjóða honum þjóðgarðsstöðuna þar vestra og mætti þá kannske segja, að ekki hefði hallazt á með þeim dýrum, sem við höfðum nú hugsað okkur, að mættu flytjast þangað í framtíðinni. Ég er orðinn svolítið undrandi á viðbrögðum þessa hv. þm. sérstaklega og reyndar manna, sem eiga þarna persónulegra hagsmuna að gæta, við þessu frumvarpskorni okkar, þótt spanni yfir 582 km2, við 1. umr. hér í d. Sjálfsagt höfum við talið það, flm., að það færi til n., sem ég og vænti, að það fari, þar sem það geti fengið þá athugun, sem nauðsynleg er. Í sjálfu sér má segja, að fyrir okkur sé kannske mikið þegar unnið, þótt það komi ekki aftur úr n., með þeim yfirlýsingum, sem hafa komið frá einkaeigendum þessara jarða þarna vestra, og eru margir í þeim hóp, sem eiga ekki til skyldfólks þar að rekja nema í fjarliði og hafa jafnvel farið út í það á seinni árum að sanka að sér löndum og jörðum, ef svo mætti til orða taka. Og eins og meðflm. minn, hv. 1. flm. þessa máls, tók réttilega fram hér fyrr í umr., mundi að sjálfsögðu taka langan tíma að beita þeim heimildum, sem frv. heimilar eða lögin, ef að lögum yrði, og gæti jafnvel tekið áratugi. En við erum ekki aðeins að hugsa um þá 400, sem eru lifandi í dag og telja sig afkomendur þeirra, sem þarna hafa búið eða hafa búið þar sjálfir, heldur erum við kannske að hugsa um 200 þús. manna íslenzka þjóð, sem býr í dag við sífellda, síaukna ásókn erlendra aðila, ekki aðeins til jarðakaupa, heldur og til dvalar á og í löndum eins og okkar, Íslandi. Og það er kannske sá hugsunarháttur, sem á bak við flutning frv. er hjá okkur, að tryggja í framtíðinni að þetta verði fyrir íslenzku þjóðina til afnota, en ekki klíku örfárra manna, sem geti ekki horft upp á það, að öll íslenzka þjóðin megi nýta þetta landsvæði, því að auðvitað kemur meira til heldur en aðeins umferð um svæðið. Það eru auðvitað margar aðrar nytjar, sem þýðingarmiklar eru í dag fyrir íbúa landsins, sem langar til þess að hverfa úr þéttbýlissvæðunum. Og ég segi það, að það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar, þegar þessi hv. síðasti ræðumaður var að flytja sín þjóðnýtingarfrv. hér á árunum, að alltaf þyrfti að hafa persónulegt samband við þá, sem eignirnar áttu að takast af, og því spyr ég hann, fékk hann skriflegt leyfi hjá eigendum olíufélaganna á sínum tíma, þegar hann var að leggja það til hér á Alþ. að þjóðnýta fyrirtæki?

Ég sé ekki mikla ástæðu til þess að hafa mörg orð um frv., því að það var mjög vel skýrt hjá fyrra flm. við framsögu málsins. Ég vil hins vegar lýsa furðu minni yfir þeim skrifum, sem hafa komið fram í blöðum að undanförnu og þá frá svokölluðu Átthagafélagi Sléttuhrepps. Að vísu var nokkuð annað efni í því bréfi, sem hér var lesið af hv. síðasta ræðumanni heldur en hefur komið fram í blöðum að undanförnu og má segja, að þar komi kannske það fram berlega, sem oft kemur fram, ef mál eru flutt hér á Alþ., að einhverjir ákveðnir þröngir hópar utan Alþ. geti með hótunum, ekki aðeins kannske slíkum opinberum hótunum, sem hafa komið fram í blöðum, heldur jafnvel persónulegum hótunum þar fyrir utan, ætlað sér að drepa niður skoðanir manna hér strax í byrjun. Ég vil t. d. leyfa mér að láta koma fram hér mótmæli við slíkum hugsanagangi, sem kemur fram í þeirri grein, sem ég las, um að fyrri flm. þessa máls hafi eitthvað með það að gera að gefa sérstakan rabbat á Djúpbátnum fyrir sumarleyfisfólk eins og þarna á hlut að máli, vitandi það, eins og þetta fólk veit vel, að þetta skip er yfir 80% í eigu sýslunnar sjálfrar og Ísafjarðarkaupstaðar. Og þótt hann hafi fyrir mörgum árum síðan verið framkvæmdastjóri þessa fyrirtækis, hvernig ætti hann að geta verið að koma á móti þessu fólki með því að gefa því jafnvel fast að því fríar ferðir norður að sínum sumarbústöðum? Ég fæ ekki skilið svona hugsunarhátt, eða hvernig er hægt að halda því fram opinberlega, að þetta eigi að vera rök í málefnalegum umr. um þetta frv. hér á Alþingi. Þar fyrir utan eru það svo margir einstaklingar af þessum 400, sem á var minnzt í þessum hóp, sem hefur guðsblessunarlega vel tekizt að safna sér fé á undanförnum árum, að þeir ættu vel að geta staðið undir þessum ferðum sínum þangað sjálfir. Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta mál að sinni. Ég vænti þess þó, að hv. d. vísi málinu til n., þar sem það fær þá könnun, sem nauðsynleg er, eins og ég hef þegar skýrt frá, að ég telji, að sé nauðsynlegt að gera. Þannig að þótt það kannske komi ekki aftur frá n., þá veit ég það, að það verða aðilar til þess að taka þetta mál aftur upp á seinna stigi meðfram vegna þeirrar nauðsynjar, sem ég hef þegar lýst, að sem flest svæði í óbyggðum, sem ég kalla nú í dag, verði tryggð Íslendingum og íslenzku þjóðinni til afnota og dvalar á ókomnum áratugum.