16.11.1954
Sameinað þing: 14. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2054 í B-deild Alþingistíðinda. (3264)

Minning látinna manna

forseti (JS):

Í morgun andaðist hér í bænum hinn aldni þingskörungur og glæsti framherji í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, Benedikt Sveinsson, fyrrum forseti neðri deildar Alþingis, á 77. aldursári, og vil ég minnast hans nokkrum orðum.

Benedikt Sveinsson fæddist í Húsavík við Skjálfanda 2. des. 1877, sonur Sveins Víkings gestgjafa þar Magnússonar bónda og trésmiðs á Víkingavatni Gottskálkssonar og Kristjönu Gnðnýjar Sigurðardóttur bónda á Hálsi í Kinn Kristjánssonar. Hann gekk í lærða skólann í Reykjavík og varð stúdent 1901 og cand. phil. ári síðar, en tók síðan að gefa sig mjög að stjórnmálum og blaðamennsku, var einn af stofnendum Landvarnarflokksins og í ritstjórn blaðsins Landvarnar 1903, ritstjóri Ingólfs 1905–1909 og aftur 1913–1915 og Fjallkonunnar 1910–1911.

Á árunum 1915–1916 var hann aðstoðarbókavörður í Landsbókasafni, gæzlustjóri Landsbankans 1917, en settur bankastjóri sama banka á árunum 1918–1921. 1922 var hann ráðinn útgáfustjóri að sögu Alþingis, en 1931 gerðist hann aftur aðstoðarbókavörður í Landsbókasafni og gegndi því starfi til 1941. Þá varð hann aðstoðarskjalavörður í Þjóðskjalasafni og hafði þann starfa á hendi um nokkurra ára skeið. Auk þessa voru honum falin margvísleg trúnaðarstörf, sem of langt yrði hér upp að telja. Hann var m. a. endurskoðandi Íslandsbanka í mörg ár, yfirskoðunarmaður landsreikninganna 1914–1917, forseti Þjóðvinafélagsins 1918–1920, bæjarfulltrúi í Reykjavík 1914–1920, var skipaður í verðlagsnefnd 1917 og kosinn í Grænlandsnefnd 1925 og í milliþn. í bankamálum sama ár. Enn fremur átti hann sæti í fullveldisnefnd 1917–1918 og í utanríkismálanefnd 1928–1931. Norður-Þingeyingar kusu hann á þing 1908, og var hann alþingismaður þeirra samfleytt til 1931. Forseti neðri deildar var hann á árunum 1920–1930.

Benedikt Sveinsson drakk snemma af lindum íslenzkrar tungu og bókmennta. Mál hans var rismeira og hreinna en flestra manna annarra. Fáir menn munu hafa verið betur heima í fornsögum vorum en hann, enda var honum falið að sjá um alþýðuútgáfu á fjölmörgum Íslendingasögum á vegum Sigurðar bóksala Kristjánssonar.

Allir þeir, sem kynnt hafa sér sögu þings og þjóðar á fyrsta þriðjungi þessarar aldar, vita, að Benedikt Sveinsson stóð jafnan í fylkingarbrjósti þeirra manna, sem harðast börðust fyrir sjálfstæði landsins, en var þó hverjum manni háttvísari og drengilegri í vopnaviðskiptum. Málsnilld hans í ræðu og riti var við brugðið og mun lengi verða minnzt. Þeir eru margir vor á meðal enn, sem muna eftir honum í fullu fjöri, sáu og heyrðu þennan garpslega mann mæla á hreinni og lifandi tungu, sem var í senn forn og ný. Og það mun almælt, að ekki hafi skörulegri maður né virðulegri setið í forsetastóli á Alþingi.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri, en vil biðja þingheim að minnast þessa þjóðholla skörungs og drengskaparmanns með því að rísa úr sætum. — [Þingheimur reis úr sætum.]