01.10.1952
Sameinað þing: 1. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í B-deild Alþingistíðinda. (3633)

Minning látinna manna

Aldursforseti (JörB):

Háttvirtu alþingismenn. Ég mun hefja mál mitt með því að flytja hér nokkur minningarorð um hinn ágætasta mann, herra Svein Björnsson, forseta Íslands, sem andaðist hér í sjúkrahúsi aðfaranótt 25. janúar s.l., eða nóttina eftir að síðasta þingi var slitið. Hann var, eins og kunnugt er, ekki heilsuhraustur hin síðustu árin, en andlát hans bar þó óvænt að og varð íslenzku þjóðinni mikið hryggðarefni, svo almennri virðingu og vinsældum sem hann átti að fagna sem æðsti valdsmaður landsins í rúman áratug og fyrsti forseti hins íslenzka lýðveldis.

Sveinn Björnsson fæddist í Kaupmannahöfn 27. febr. 1881 og skorti því rúman mánuð á 71 ár, þegar hann lézt. Faðir hans var hinn þjóðkunni maður Björn Jónsson, ritstjóri Ísafoldar og síðar ráðherra Íslands, sonur Jóns bónda í Djúpadal í Gufudalssveit Jónssonar bónda s. st. Arasonar, en móðir forsetans, kona Björns ritstjóra, var Elísabet Sveinsdóttir prests, síðast á Staðastað, Níelssonar bónda á Kleifum í Gilsfirði Sturlaugs- sonar.

Sveinn Björnsson ólst upp í Reykjavík hjá foreldrum sínum, í andrúmslofti stjórnmála og þjóðlegra fræða. Á því öndvegisheimili kynntist hann snemma baráttu þjóðarinnar fyrir frelsi sínu, og mun hann þá þegar hafa drukkið í sig þá stefnu, er hann markaði sér, þegar hann náði þroskaaldri, að vinna að því að rétta þjóðina úr kútnum, bæði stjórnarfarslega og efnahagslega. Hann gekk menntaveginn, lauk stúdentsprófi í Reykjavík árið 1900 og lögfræðiprófi í Kaupmannahöfn 1907, sneri þá heim til Íslands og lagði stund á lögfræðistörf, var málflutningsmaður við landsyfirdóminn frá 1907 til 1920 og varð hæstaréttarlögmaður 1920. En á því ári var hann skipaður sendiherra í Kaupmannahöfn, hinn fyrsti sendiherra Íslands erlendis. Fellt var niður í bili 1924 í sparnaðarskyni að hafa sendiherra í Danmörku, og tók Sveinn Björnsson þá við fyrri störfum sínum hér heima. En tveim árum síðar var honum aftur falið sendiherraembættið, og gegndi hann því síðan óslitið þar til sambandið rofnaði við Danmörku 1940 vegna heimsstyrjaldarinnar. Á því ári hvarf hann heim til Íslands og gerðist ráðunautur ríkisstjórnarinnar um skipun utanríkismála o.fl. til 17. júní 1941, er hann var kjörinn ríkisstjóri Íslands. Á árunum 1942 og 1943 var hann endurkosinn ríkisstjóri, en 17. júní 1944, þegar lýðveldið Ísland var sett á stofn að Lögbergi, kaus sameinað Alþingi hann fyrsta forseta þess. Við þjóðkjör forseta Íslands árið eftir, 1945, var hann einn í kjöri og varð því sjálfkjörinn, og svo fór einnig að loknu kjörtímabili forseta fjórum árum síðar, 1949, að hann varð sjálfkjörinn. Þegar hann lézt, átti hann eftir um 11/2 ár af síðara kjörtímabili sínu sem þjóðkjörinn forseti.

Eftir heimkomu sína frá námi tók Sveinn Björnsson brátt að gefa sig að fjölmörgum þjóðmálum, sem til framfara horfðu og viðreisnar í efnahagsmálum landsins, og ávann sér þegar hið mesta traust fyrir skipulagsgáfu, glöggskyggni, atorku, góðvild og þýðleik í samvinnu. Hann braut upp á ýmsum markverðum nýjungum, var einn af aðalhvatamönnum að stofnun fjölmargra félaga og fyrirtækja, sem of langt yrði hér upp að telja, og átti sæti í stjórn flestra þeirra meðan hann var búsettur hérlendis. Hér skulu aðeins fá ein nefnd. Hann átti mjög mikinn þátt í stofnun Eimskipafélags Íslands og var fyrsti formaður þess, eða frá 1914 til 1920, er hann fluttist af landi burt, tók síðan aftur við formennskunni, er hann kom heim 1924, og hélt henni þar til hann tók við sendiherraembætti af nýju 1926. Þá vil ég nefna Sjóvátryggingarfélag Íslands, en í stjórn þess átti hann sæti á sömu árum, hlutafélagið Hamar, hið íslenzka flugfélag og Rauðakross Íslands. Í bæjarstjórn Reykjavíkur átti hann sæti 1912–1920 og var fyrsti þingmaður Reykvíkinga á þrem þingum, 1914–1915 og 1920. Á árunum 1916–1920 og 1924–1926 var hann forstjóri Brunabótafélags Íslands. Hann var kosinn í velferðarnefnd 1914 og 1915 og var formaður milliþinganefndar í bankamálum 1925.

Það var almannarómur, þegar Sveinn Björnsson var skipaður fyrsti sendiherra landsins erlendis, að við hefðum ekki átt kost á hæfari manni í þá trúnaðarstöðu. Kom þar til kunnugleiki hans á atvinnuháttum landsmanna á flestum sviðum, þjóðhollusta, háttvísi og ljúfmennska. Það er og almælt, að hann hafi gegnt því starfi af mikilli prýði og notið þar jafnt vinsælda hjá báðum þjóðunum, Íslendingum og Dönum. Með báðum þjóðum fór orð af frábærri gestrisni hans og greiðasemi. Þegar til þurfti að taka, hélt hann á málstað lands síns með festu og lagni. Ríkisstjórn Íslands fól honum margsinnis formennsku sendinefnda um viðskiptasamninga við ýmis lönd í álfunni, og kom þar mjög að notum þekking hans og samningalipurð.

Þjóðinni var það mikið happ að eiga slíkan mann sem Sveinn Björnsson var, þegar hún skyldi kjósa sér ríkisstjóra og síðar forseta. Enginn innlendur maður hafði slíka reynslu sem hann til þess að móta störf þjóðhöfðingjans og gera embættið virðulegt. Aðsetur það, er hann og hin ágæta frú hans bjuggu embættinu á Bessastöðum, mun lengi bera vitni um smekkvísi þeirra og híbýlaprýði, jafnt fyrir sjónum erlendra manna sem innlendra.

Fyrirmennska, samfara alúð og látleysi, ein kenndi Svein Björnsson forseta, hvar sem hann fór. Hann var einlægur ættjarðarvinur og bar mjög fyrir brjósti hag þjóðarinnar. Dyggur þjónn hennar vildi hann vera — og var. Því er hann Íslendingum harmdauði, og þeir munu geyma nafn hans á söguspjöldum sínum í aldir fram og tengja það lokasigrinum í frelsisbaráttu sinni, endurreisn hins íslenzka lýðveldis.

Ég vil biðja háttvirta þingmenn að votta minningu hins látna forseta virðingu sína með því að rísa úr sætum. — [Þm. risu úr sætum.]

Þá vil ég minnast annars fyrrv. þingmanns, sem látizt hefur milli þinga, Sigfúsar Sigurhjartarsonar. Hann varð bráðkvaddur hér í bænum hinn 15 marz s.l. og var þá fyrir skömmu heim kominn úr ferð, er hann fór til Ráðstjórnarríkjanna sér til heilsubótar, og tekinn til starfa af nýju.

Sigfús Annes Sigurhjartarson varð ekki nema rúmlega fimmtugur að aldri, fæddur 6. febr. 1902 á Urðum í Svarfaðardal. Foreldrar hans voru þau Sigurhjörtur bóndi á Urðum Jóhannesson bónda í Grýtu í Höfðahverfi Halldórssonar og seinni kona hans Sigríður Friðrikka Sigurðardóttir bónda á Draflastöðum í Fnjóskadal Þorsteinssonar. Hann lauk gagnfræðaprófi á Akureyri 1920 og stúdentsprófi í Reykjavík 1924, hóf guðfræðinám í háskólanum hér og varð kandídat í þeirri grein 1928. Þegar á háskólaárum sínum og á næsta áratug að loknu embættisprófi stundaði hann kennslustörf í Reykjavík, og á árunum 1928–1938 var hann kennari í Gagnfræðaskóla Reykvíkinga. Samhliða kennslustörfunum tók hann brátt að gefa sig að almennum málum, hneigðist snemma að jafnaðarstefnunni og tók upp baráttu fyrir bættum kjörum verkamanna og allrar alþýðu, var blaðamaður við Alþýðublaðið 1934–1937, einn af stofnendum Sameiningarflokks alþýðu — sósíalistaflokksins 1938, ritstjóri Nýs lands á því ári og Þjóðviljans á árunum 1938–1946. Varð hann á skömmum tíma einn af forustumönnum þess flokks og sá þeirra, er flokkurinn setti hvað mest traust á og sótti mjög undir ráð og tillögur. Margvísleg trúnaðarstörf voru honum falin. Hann var yfirskoðunarmaður ríkisreikninganna 1934–1936, formaður útvarpsráðs 1935–1939, formaður milliþinganefndar til undirbúnings löggjafar um alþýðutryggingar 1935, átti sæti í milliþinganefnd, er skipuð var 1944 til þess að endurskoða fræðslulöggjöf landsins, og sat í tryggingaráði 1935–1939 og aftur frá 1946 til dauðadags. Á Alþingi átti hann sæti á 9 þingum, fyrst sem landskjörinn þingmaður á sumarþingi 1942 og síðan sem þingmaður Reykvíkinga frá haustþingi s. á. til 1949, og bæjarfulltrúi Reykjavíkur var hann frá 1942 til æviloka.

Áfengisbindindi varð honum ungum hjartfólgið mál, og vann hann mikið starf í góðtemplarareglunni. 29 ára gamall var hann kosinn stórtemplar og gegndi því embætti frá 1931 til 1934. Þá lét hann sig og mjög skipta samvinnu á verzlunarsviðinu og var í stjórn Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis síðustu 12 árin, sem hann lifði. Formennsku stjórnarinnar hafði hann á hendi frá 1945.

Sigfús Sigurhjartarson var maður mjög vel gefinn og vel að sér, ötull og vinnusamur, að hverju sem hann gekk, prýðilega máli farinn og ritfær, einarður og fylginn sér, en þó þýður í viðmóti og samvinnu. Hann var fljótur að átta sig á hverju máli, og honum var einkar sýnt um að setja skoðanir sínar skipulega fram, þótt hann talaði að jafnaði blaðalaust. Ég hygg, að þeir, sem af honum höfðu kynni, séu á einu máli um, að hann hafi trúað fastlega á þann málstað, sem hann barðist einkum fyrir, gerbreytingu á þjóðfélagsskipun, og hitt er jafnvíst, að hann lagði sig allan fram því máli til gengis og öðrum áhugamálum sínum og gat verið andstæðingum sínum þungur í skauti á málþingum. Samherjar hans eiga á bak að sjá öruggum og ótrauðum liðsmanni, þar sem hann var.

Ég vil biðja háttvirta þingmenn að minnast þessi mikilhæfa manns með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]