11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í D-deild Alþingistíðinda. (4077)

191. mál, staðarval og flutningur ríkisstofnana

Flm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 365 till. til þál. um staðarval og flutning ríkisstofnana út um land. Meginefni till. er, að Alþ. kjósi nefnd til að gera heildarúttekt og könnun þessa máls, og þar með, að grundvöllur skapist fyrir því, að löggjafarsamkunda þjóðarinnar geti mótað sér heildarstefnu á þessu sviði. Því miður hefur það verið svo fram til þessa, að fram hafa eingöngu komið tillögur og hugmyndir um staðarval einstakra stofnana úti um land. Þær hafa verið ræddar hér á hv. Alþ. og menn hafa skipzt á skoðunum um gildi þeirra, en árangurinn hefur því miður orðið sáralítill og jafnvel þótt sumar þær tillögur yrðu samþykktar, er lítil trygging fyrir því, að þær fælu í sér þá leið, sem að athuguðu máli yrði talin heppilegust fyrir heildarþróun byggðar í landinu, og um leið tryggt, að umræddar stofnanir þjónuðu jafnframt upprunalegu hlutverki sínu með hliðstæðum árangri og þær væru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu.

Flestar nágrannaþjóðir okkar hafa þegar valið veigamiklum ríkisstofnunum stað utan höfuðborganna til þess að hafa með þeim hætti áhrif á þróun byggðar í viðkomandi löndum. Þar má m.a. benda á Norðurlöndin, t.d. Noreg og Svíþjóð. Víðtækar athuganir hafa farið fram í þessum löndum á því, hvernig ná megi sem mestum árangri í þessu efni án þess að veikja um leið hæfni stofnananna til þess að veita öllu landsfólkinu þjónustu sína. Ég tel einsætt að kynna sér sem bezt þá reynslu, sem fengizt hefur af þessari viðleitni meðal þjóða, sem okkur eru skyldastar og eiga við mjög hliðstæð vandamál að glíma og við í byggðamálum. Þess vegna er sérstaklega að þessu vikið í tillögunni.

Ég vil vekja sérstaka athygli hv. þm. á því, að vandamál byggðaröskunarinnar og úrræði til þess að bæta þar úr eru víðast efst á baugi í nágrannalöndum okkar við hliðina á svo nefndum menganarvandamálum. Hér á landi hefur skilningur aukizt mjög á því, að við Íslendingar þurfum einnig að hyggja að þessum málum, og fyrstu mikilvægu skrefin í þessa átt hafa þegar verið stigin hér á landi með gerð og framkvæmd byggðaáætlana og stofnun Atvinnujöfnunarsjóðs, sem nú hefur hlotið nafnið Byggðasjóður og vonandi ber það nafn með rentu. Allt um það er ég þeirrar skoðunar, að fáir geri sér ljóst, hver þáttaskil eru nú í byggðamálum á Íslandi. Fyrr á árum var okkur nauðsyn á að eignast öfluga höfuðborg. Þótt fólksflutningar hingað til Reykjavíkur hafi verið mikil blóðtaka fyrir landsbyggðina á þessum árum, má til sanns vegar færa, að þeir flutningar hafi stuðlað að því, að við eignuðumst nægilega fljótt öfluga miðstöð atvinnulífs, menningar og lista, viðskipta og þjónustu fyrir allt landið, sem auðvitað er grundvallarskilyrði fyrir sjálfstæða þjóð, sem lifir nútímalífi. Nú býr á hinn bóginn rúmlega helmingur þjóðarinnar hér á höfuðborgarsvæðinu og í næsta nágrenni.

Þótt dregið hafi úr aðflutningum frá landsbyggðinni s.l. áratug frá því, sem áður var, halda þeir samt áfram með geigvænlegum hraða. Nú skapa þessir aðflutningar og hraðstækkun þéttbýlisins verulegan vanda hér á höfuðborgarsvæðinu, sem er dýr úrlausnar. Má þar m.a. nefna umferðarvanda, eins og t.d. á Kópavogshálsi. Fleira mætti nefna, svo sem skort á bílastæðum í miðborginni, frárennslis— og vatnsöflunarvandamál, sem fara ugglaust að vaxa mjög með meiri vexti borgarsvæðisins. Úti um land skapar svo brottflutningur fólksins þaðan einnig vandamál. sem eru þjóðfélaginu dýr. Mannvirki og auðlindir þjóðarinnar nýtast verr en skyldi vegna þeirra, og það, sem enn þá alvarlegra er, aðstaðan til blómlegs atvinnulífs, félags—, heilbrigðis— og menningarlífs versnar, eftir því sem byggðin grisjast af fólki í viðkomandi landshlutum. Það er því orðin bláköld staðreynd fyrir alla þá, sem gera sér grein fyrir, hvað er að gerast í íslenzkum byggðamálum, að verði ekki að gert, mun áframhaldandi byggðaröskun kosta þjóðina óhugnanlega mikið. Hún kostar mikið í beinhörðum peningum og ekki síður í félagslegum og menningarlegum verðmætum, sem ekki verða metin til fjár. Þetta eru sannindi, sem aðrar þjóðir hafa opnað augu sín fyrir. Þetta sama er að gerast meðal þeirra, og fyrir þessu þurfum við Íslendingar að opna augu okkar enn betur en orðið er í verki, áður en það er orðið of seint. Við skulum minnast þess, að áður fyrr var eins konar varaforði af fólki í sveitum landsins, ef svo mætti að orði komast. Með vélvæðingunni í landbúnaðinum losnaði þaðan vinnuafl, sem fluttist m.a. til bæja og þorpa úti um land og stuðlaði að vexti þeirra, þótt margir hyrfu á brott til höfuðborgarsvæðisins. Nú er enginn slíkur fólksforði í sveitum landsins. Þvert á móti skortir þar víða nægan fólksfjölda til þess að mynda þar félagslegt samfélag, sem nútíma mannlíf krefst. Þetta er ekki ómerkasta röksemdin fyrir því, að nú eru sannarlega óvefengjanlega þáttaskil í byggðamálunum á Íslandi, sem bregðast þarf hart við næstu ár, ef það á ekki að verða um seinan.

Ástæðan fyrir því, að flestar þjóðir hafa lagt sig í framkróka um að velja ríkisstofnunum stað utan höfuðborgarsvæðisins, er fyrst og fremst sú, að viðkomandi stjórnvöld gera sér grein fyrir einni meginorsök byggðaröskunarinnar. Hún er sú, að vélvæðingin leysir vinnuafl af hólmi í frumframleiðslugreinum, en sú aukna verkaskipting, sem nauðsynleg er í nútíma þjóðfélagi, krefst stóraukinnar þjónustu, sem bæði einkaaðilar láta í té og einnig opinberir aðilar. Því er reynslan sú, að í öllum þjóðfélögum, sem eru í framþróun, fækkar fólki hlutfallslega í frumframleiðslugreinum, en fjölgar í iðnaðar— og þjónustugreinum atvinnulífsins. Áhrifin af þessari óhjákvæmilegu atvinnuþróun á byggð í löndum, sem eru á framfarabraut, eru augljós. Frumvinnslugreinarnar eru eðlilega fyrst og fremst stundaðar í strjálli byggðum, en iðnaður og þjónusta þurfa helzt sem öflugast þéttbýli til þess að þrífast.

Þær breytingar, sem framfarirnar krefjast í atvinnuháttum, hafa því í för með sér óumflýjanlega byggðaröskun, ef ekki er að gert. Ein þeirra ráðstafana, sem koma til greina til þess að vega hér upp á móti og stuðla að eðlilegri þróun fólksfjölgunar á byggðasvæðum úti um land, er að auka vaxtarskilyrðin fyrir þjónustu atvinnugreinar á þeim stöðum í viðkomandi landshlutum, sem vel eru til þess fallnir. Því skiptir það auðvitað miklu máli fyrir þróun byggðarinnar, hvar opinber þjónustufyrirtæki eru staðsett í landinu.

Það er í rauninni kaldhæðni örlaganna, að séu ríkisstofnanir, sem blása út, eins og hv. þm. er bezt kunnugt, allar staðsettar á höfuðborgarsvæðinu, þá stuðlar jafnvel landsbyggðarfólkið sjálft að því að auka byggðaröskunina. Allir landsmenn borga ríkisstarfsmönnum laun. Hið viðamikla og vaxandi ríkisbákn tekur ekki bara til sín fólk, sem sumpart flyzt til höfuðborgarinnar til þess að njóta þess fjölbreytta starfsvals og öryggis, sem þetta bákn veitir, heldur eru því líka greidd laun að hluta af því fólki, sem enn byggir önnur svæði landsins, stundum við kröpp kjör á sviði samgangna, félags— og menningarmála. Út úr framangreindum vítahring byggðaröskunarinnar, sem öllum landsmönnum er til stórtjóns, ætti að vera samstaða bæði þm. landsbyggðarinnar og Reykjavíkur að brjótast. Þetta verður m.a. að gerast með því að velja sumum ríkisstofnunum stað úti um land og stuðla með þeim hætti að aukinni fjölbreytni þar í atvinnu— og menningarlífi og traustari byggð, eins og í till. segir. Slíkar stofnanir efla þá staði, sem þeim er valinn staður á, og nærliggjandi byggðir um leið sakir þeirra heildaráhrifa á samgöngu-, félagsog heilbrigðismálakerfi landshlutans, sem þessar ráðstafanir hefðu í för með sér.

Að mínum dómi þarf að framkvæma slíka stefnu um staðarval ríkisstofnana úti um land að athuguðu máli, þannig að sem beztur heildarárangur náist. Finna þarf samtímis þá lausn, sem tryggir, að staðarval ríkisstofnana hafi sem mest heildaráhrif á byggðaþróun landshlutans og landsins alls, en jafnframt, að þær þjóni vel upprunalegu hlutverki sínu fyrir alla landsmenn. Í þessu sambandi er rétt að undirstrika, að ríkisstofnanir eru mjög misjafnlega fallnar til flutnings út um land, ef svo mætti að orði kveða. Gát þarf að hafa á, að viðkomandi stofnun slitni ekki úr tengslum við aðrar stofnanir hins opinbera eða einkaaðila, sem brýn þörf er á, að hafi sem nánasta samvinnu. Þótt hér sé um að ræða staðreynd, sem sjálfsagt er að horfast í augu við, er ekki þar með sagt, að ekki séu fjölmargar stofnanir, sem almenningur á Íslandi kostar og geta verið staðsettar á hagkvæmum stöðum úti á landsbyggðinni. Samt sem áður er hér vikið að atriði, sem enn styður þá till., að málið fái heildarkönnun í þar til kjörinni þingnefnd, sem leggi till. sínar fyrir næsta reglulegt Alþingi.

Herra forseti. Ég tel vart ástæðu til þess að lengja fremur en orðið er framsögu fyrir þessari till., ekki sízt vegna þess, hve mörg mál hafa komið hér fyrir þetta þing á þessu sviði. Ég vil þó leggja áherzlu á, að eðli málsins samkv. hef ég fjallað eingöngu um staðarval ríkisstofnana úti um land sem aðgerð til þess að hafa áhrif á búsetuþróun í landinu. Það merkir að sjálfsögðu ekki, að hér sé um að ræða einu mikilvægu ráðstöfunina, sem stjórnvöld geta gripið til í þessu skyni. En nú er hér vart staður né stund til að fjalla um aðrar veigamiklar aðgerðir, sem hafa orðið og geta orðið í auknum mæli til þess að stuðla að hagfelldri byggðaþróun fyrir alla landsmenn, hvar sem þeir búa á landinu.

Að lokum vil ég endurtaka, að það, sem fyrir mér vakir með þessum tillöguflutningi, er fyrst og fremst að hvetja til þess, að Alþ. kanni í heild, hvaða rök hnígi að staðarvali ríkisstofnana úti um land og hverjar þær ríkisstofnanir séu, sem hagkvæmt væri að velja þar stað eða flytja þangað. Í kjölfar þeirrar könnunar vænti ég þess, að Alþ. hafi eigi síðar, en á næsta þingi, tækifæri til að samþykkja staðarval ákveðinna ríkisstofnana á ákveðnum stöðum sem lið í þeirri viðleitni að stýra á hagkvæman hátt byggðaþróun í landinu. Það yrðu fyrstu tilraunirnar hér á landi til þess að hafa heildaráhrif á byggðaþróunina með staðarvali eða flutningi ríkisstofnana út um land á hliðstæðan hátt og nágrannaþjóðir okkar hafa þegar gert