31.10.1941
Sameinað þing: 9. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

Minning látinna manna

forseti (HG) :

Áður en gengið er til dagskrár vil ég minnast látins þingmanns.

Í gærkvöld andaðist hér í bænum, 73 ára að aldri, forstöðukona Kvennaskólans í Reykjavík, Ingibjörg H. Bjarnason, sem fyrst íslenzkra kvenna átti sæti á Alþingi.

Ingibjörg H. Bjarnason var fædd 14. des. 1868 á Þingeyri við Dýrafjörð, dóttir Hákonar Bjarnasonar kaupmanns þar, síðar á Bíldudal, og konu hans, Jóhönnu Þorleifsdóttur, prófasts í Hvammi Jónssonar. Hún útskrifaðist úr Kvennaskólanum í Reykjavík 1882, sigldi tveim árum síðar og stundaði nám erlendis á árunum 1884–1893. Eftir heimkomu sína hafði hún á hendi ýmiss konar kennslustörf í Reykjavík á árunum 1893 –1901, en þá fór hún aftur utan og dvaldi erlendis til 1903. Í þeirri ferð kynnti hún sér skólamál í Þýzkalandi og Sviss. Síðan hvarf hún heim aftur og gerðist kennari við Kvennaskólann og barnaskólann í Reykjavík til 1906, en það ár varð hún forstöðukona Kvennaskólans og hélt því starfi til dauðadags eða í full 35 ár. Er það almælt, að hún hafi rækt skólastjórastörfin af miklum dugnaði og áhuga. Við landskosningarnar 1922 kom fram sérstakur kvennalisti. Var Ingibjörg Bjarnason efst á þeim lista og náði kosningu. Átti hún síðan sæti á 8 þingum, 1923–1930.

Á þingi lét hún einkum til sín taka menntamál kvenna og ýmis mannúðar- og félagsmál, svo sem landsspítalamálið, sem henni var mjög hjartfólgið. Hún var og ein af frumkvöðlum að almennum samskotum til stofnunar spítalans, og formaður landsspítalasjóðsins var hún frá upphafi til dauðadags. Í byggingarnefnd spítalans átti hún og sæti. Áhuga hennar og atorku í öllu því starfi er við brugðið. Af öðrum málum, er hún beittist fyrir, má sér staklega nefna frumvarp, er hún flutti á þinginu 1929 og þá þegar gekk fram, um að banna í kaupstöðum og kauptúnum kjallaraíbúðir, sem hættulegar teljast heilsu manna. Hún átti öll þingár sín sæti í fjárveitinganefnd efri deildar og lengst af í menntamálanefnd. Í menntamálaráð Íslands var hún kosin á þinginu 1928, þá er það var sett á stofn, og átti þar sæti í næstu 6 ár, til 1931 (var endurkosin á aukaþingunum 1931 og 1933).

Ingibjörg Bjarnason var kona aðsópsmikil, einörð og fylgin sér, hélt fast á þeim málum, er hún tók að sér og gekk að öllu með dugnaði. Hún mun jafnan verða talin í fremstu röð þeirra kvenna, er tóku að sinna almennum þjóðmálum með fullum réttindum eftir stjórnarskrárbreytinguna 1915, þá er konum var veittur kosningarréttur.

Ég vil biðja hv. þm. að votta minningu þessarar merkiskonu, fyrstu konunnar, sem sæti hefur átt á Alþingi Íslendinga, virðingu sína með því að rísa úr sætum sínum.

[Þingmenn risu úr sætum.]