25.11.1987
Neðri deild: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

128. mál, sóknargjöld

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Frv. það sem hér liggur fyrir er flutt vegna þess að nauðsynlegt er að gera breytingar á tekjustofnum sókna og trúfélaga í tengslum við gildistöku laganna um einföldun og staðgreiðslu opinberra gjalda. Með tilkomu hins nýja staðgreiðslukerfis er ekki lengur gert ráð fyrir því að sóknargjöldin verði innheimt beint af sóknarbörnunum.

Skattkerfisbreytingin, sem ég vitnaði til, felur það í sér að lagður verður á einn tekjuskattur til ríkisins sem kemur í stað núv. tekjuskatts, sjúkratryggingagjalds, gjalds til Framkvæmdasjóðs aldraðra, sóknargjalds og kirkjugarðsgjalds, en frv. sem hér er flutt fjallar einmitt um sóknargjöldin.

Þegar löggjöfin um staðgreiðslu opinberra gjalda var í undirbúningi var jafnan gengið út frá því að kerfisbreytingin hefði ekki áhrif á tekjumöguleika sóknanna. M.a. sagði í grg. með frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að miðað væri við það að hlutdeild sóknanna í skattheimtunni yrði hin sama og verið hefði.

Á sl. sumri var skipuð nefnd til þess að semja frv. til l. um sóknargjöld og kirkjugarðsgjöld sem tæki mið af skattkerfisbreytingunni. Í þessari nefnd áttu sæti tveir menn tilnefndir af kirkjuráði, einn frá fjmrn. og einn frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.

Nefndin hafði í sínu starfi samráð við og fékk upplýsingar frá embætti ríkisskattstjóra, Þjóðhagsstofnun og Hagstofu Íslands um einstaka þætti þessa máls.

Nefndin varð svo sammála um niðurstöðu. Frv. sem nefndin samdi var lagt fyrir kirkjuþing í byrjun októbermánaðar. Kirkjuþing gerði á því nokkrar smávægilegar breytingar og í þeirri gerð sem það kom frá kirkjuþingi er það hér flutt. Ég ætla nú að fara nokkrum orðum um einstaka kafla frv.

Í I. kafla er fjallað um hlutdeild safnaða og trúfélaga í tekjuskattinum. Meginbreytingin frá gildandi lögum, eins og ég nefndi áðan, er sú að gjaldendur greiða nú ekki skatt sinn beint til sóknanna. Þjóðkirkjusöfnuðir, trúfélög og Háskóli Íslands, vegna þeirra manna er standa utan trúfélaga, fá hins vegar hlutdeild í hinum nýja sameinaða tekjuskatti. Þessi hlutdeild í tekjuskattinum er ákveðin í frv, í samræmi við álögð sóknargjöld á árinu 1987, en samtals nema þessi álögðu sóknargjöld rúmlega 312 millj. kr., en þau eru 299,7 millj. ef eingöngu er miðað við hinar venjulegu álagningarheimildir skv. 2. gr. gildandi laga um sóknargjöld, þ.e. þegar búið er að draga frá þá fjárhæð sem byggist á því að nýta sérstaka álagningarheimild skv. 3. gr. gildandi laga um sóknargjöld, sem er háð sérstöku leyfi dóms- og kirkjumálaráðherra. Við útreikning á hlutdeild sóknar og trúfélaga og Háskólasjóðs í hinum nýja tekjuskatti er miðað við töluna 299,7 millj. Í þá tölu er svo deilt fjölda þeirra manna sem eru 16 ára og eldri í árslok 1986. Með því er fundin ákveðin grunntala sem notuð er til þess að ákveða hlutdeild einstakra sókna, trúfélaga og Háskólasjóðsins í tekjuskattinum framvegis. Þannig mun gjaldið fylgja sjálfkrafa breytingum sem kunna að verða á fjölda þeirra manna sem náð hafa 16 ára aldri og tilheyra hverjum slíkum söfnuði. Auk þess er gert ráð fyrir því að gjaldið fylgi þeim breytingum sem verða kunna síðar á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga tveggja síðustu ára á undan gjaldári. Fjárhæðinni, sem þannig fæst, er skipt milli þjóð kirkjusafnaðanna, trúfélaganna og háskólasjóðsins í hlutfalli við fjölda manna sem eldri eru en 16 ára í hverjum söfnuði. Þetta er einföld regla og leiðir til jöfnunar milli safnaða í landinu. Þetta mun hafa í för með sér að þeir söfnuðir þar sem tekjur eru lægri á hvern mann fá úr þessu heldur meiri tekjur. Jafnframt auðveldar þetta að sjálfsögðu söfnuðunum að áætla tekjur sínar. Ríkisbókhaldið mun framvegis annast skiptingu gjaldenda skv. upplýsingum um fjölda sókna og trúfélaga frá Hagstofu Íslands og þar með fæst einföld aðferð til að skipta fénu á milli þeirra.

Í Il. kafla frv. er komið að öðru mikilvægu nýmæli, en það er að stofnaður verði Jöfnunarsjóður sókna. Sjóðnum er m.a. ætlað að mæta fjárþörf þeirra safnaða sem ætla má að annars mundu hafa notað heimildina sem er í 3. gr. gildandi laga um sóknargjöldin, um sérstaka hækkun þess. En þessum sjóði er ætlað meira hlutverk. Honum er líka ætlað að styrkja fámennar og fátækar sóknir, að auðvelda stofnun sókna þar sem byggð er að breytast og að styrkja kirkjulega, félagslega og menningarlega starfsemi á vegum safnaðanna. En ekki hvað síst er þessum nýja sjóði ætlað að standa að hluta til undir rekstri og viðhaldi kirkna sem ég vil kalla landskirkjur. Þar á ég við Hóladómkirkju, Dómkirkjuna í Reykjavík, Hallgrímskirkju í Reykjavík og Skálholtskirkju. Loks er svo þessum sjóði ætlað að veita framlög til ýmissa kirkjulegra verkefna sem til þessa hafa fengið fjárframlög úr ríkissjóði. Stjórn Jöfnunarsjóðs sókna verður í höndum kirkjuráðs. Með stofnun þessa sjóðs er fjárhagslegt sjálfstæði kirkjunnar nokkuð aukið, en jafnframt ábyrgð kirkjuráðsins.

Það er þess vegna kirkjuráðið sem á að hafa með hendi umsjá og stjórn Jöfnunarsjóðs sókna. Kirkjuráðinu er ætlað að semja árlega fjárhagsáætlun fyrir sjóðinn og kynna hana dóms- og kirkjumálaráðuneytinu fyrir lok maímánaðar á hverju ári þannig að unnt verði að taka tillit til þeirrar fjárhagsáætlunar við gerð fjárlagabeiðna frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Þessa áætlun um fjárhag Jöfnunarsjóðsins á líka að kynna á kirkjuþingi árlega.

Reikningshald þessa sjóðs á að vera hjá Biskupsstofu, en endurskoðun hjá Ríkisendurskoðuninni. Eftir að þessi sjóður hefur verið stofnaður er einnig lagt til að bein framlög á fjárlögum úr ríkissjóði til einstakra kirkna falli brott, en í þeirra stað geti komið framlög úr Jöfnunarsjóðnum.

Þá kem ég að Ill. kafla frv. en þar eru ákvæði um héraðssjóði, sem eru í öllum meginatriðum hin sömu að efni til og ákvæði gildandi laga um sóknargjöld. Við umræður um þetta frv., eða drögin að því áður en það var lagt fram á þingi, hefur heyrst að með því sé verið að eyrnamarka kirkjunni hluta af tekjustofni ríkissjóðs sem sé andstætt hinni mörkuðu meginstefnu í fjármálastjórn sem er að hverfa frá fyrri aðferð. Ég vil af þessu tilefni taka skýrt fram að söfnuðirnir hafa reyndar haft sjálfstæðan tekjuskatt og í frv. er eingöngu fundin aðferð til þess að hann haldist áfram hjá þeim, en vegna einföldunar í skattakerfinu vegna staðgreiðslunnar var ekki fundin önnur aðferð betri en sú sem hér er gerð tillaga um og þess vegna verður að taka þetta fé af óskiptum tekjuskattinum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. Ég legg áherslu á að það fái skjóta meðferð hér í hv. þingdeild, enda tengist það gildistöku staðgreiðslu skatta í byrjun næsta árs og gerð fjárlaga fyrir það ár.

Ég legg að lokum til að þessu frv. verði að umræðunni lokinni vísað til 2. umr. og hv. menntmn.