Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 387, 111. löggjafarþing 212. mál: bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði.
Lög nr. 94 23. desember 1988.

Lög um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði og heimildir til lántöku á árinu 1989 o.fl.


1. gr.

     Þar til fjárlög fyrir árið 1989 taka gildi, þó ekki lengur en til 31. janúar 1989, er ríkisstjórninni heimilt að greiða úr ríkissjóði til bráðabirgða í samræmi við ákvæði fjárlaga fyrir árið 1988, að teknu tilliti til almennrar verðlagsþróunar, öll venjuleg rekstrargjöld og önnur gjöld er teljast til venjulegra fastra greiðslna ríkisins þótt ákveðin séu eða heimiluð til eins árs í senn. Þá er ríkisstjórninni heimilt að greiða úr ríkissjóði nauðsynlegar greiðslur til að standa við þegar gerða samninga vegna fjárfestinga ríkisins.

2. gr.

     Fjármálaráðherra er heimilt á árinu 1989 að stofna til tímabundins yfirdráttar á aðalviðskiptareikningi ríkissjóðs hjá Seðlabankanum vegna árstíðabundinna sveiflna í fjármálum ríkisins.

3. gr.

     Fjármálaráðherra er heimilt að gefa út fyrir hönd ríkissjóðs til sölu innan lands á árinu 1989 verðbréf, spariskírteini og ríkisvíxla að fjárhæð allt að 3.000.000 þús. kr.

4. gr.

     Fjármálaráðherra er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að taka lán á árinu 1988 að fjárhæð allt að 6.500.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt til að greiða upp skammtímaskuldir við Seðlabanka Íslands vegna greiðsluhalla ríkissjóðs á árunum 1987 og 1988, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 22. desember 1988.